Fara í efni

Framkvæmdastjórar ráðnir til Selaseturs og Grettistaks

Grettishátíð
Grettishátíð

Líkt og annars staðar er undirbúningur fyrir sumarið í fullum gangi hjá ferðaþjónustuaðilum í Húnaþingi vestra. Meðal annars hafa verið ráðnir framkvæmdastjórar til að stýra tveimur verkefnum sem eru í hraðri uppbyggingu, Selasetri Íslands og Grettistaki. Þetta kemur fram í frétt á vefnum www.northwest.is

Í gamla VSP-húsinu á Hvammstanga er verið að innrétta sýningaraðstöðu og skrifstofu forstöðukonu Selaseturs Íslands, sem hefur störf nú um mánaðamótin. Í starfið var ráðin Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir. Hún hefur B.Sc próf frá Raunvísindadeild Háskóla Íslands og fjallaði lokaverkefnið hennar um menningarminjar og ferðaþjónustu á Vatnsnesi. Stefnt er að því að opna sýningu Selasetursins þann 25. júní í sumar.

Einnig er búið að ráða framkvæmdastjóra Grettistaks og Grettisbóls. Hann heitir Jón  Óskar Pétursson og er að ljúka námi sínu við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Mun hann hefja störfum með vorinu. Grettisverkefnið er umfangsmikið, en næsti áfangi er opnun leikvangs á Laugarbakka, í anda Grettis sögu sterka, sem og gestamóttöku. Hönnuður Grettistaks og Grettisbóls er Jón Hámundur Marínósson. Eftir hann liggur fyrir hönnunarskýrsla, og verður farið eftir henni við uppbyggingu svæðisins.

Á vegum Ferðamálafélags Vestur-Húnavatnssýslu er verið að undirbúa endurútgáfu svæðisbæklings fyrir Húnavatnssýslurnar, í samstarfi við ferðamálafulltrúa Austur-Húnavatnssýslu. Undanfarin ár var sameiginlegur bæklingur í umferð, sem mæltist mjög vel fyrir. Gengið er út frá því að nýi bæklingurinn verði tilbúinn til dreifingar í maí nk.

Síðast en ekki síst er kraftur í ferðaþjónustuaðilum héraðsins. Náttúruskoðunar- og skemmtibáturinn Áki mun hefja siglingar með sumrinu á sínu öðru starfsári, þá í tengslum við væntanlegt Selasetur Íslands. Þá réðust eigendur Gauksmýrar í byggingarframkvæmdir á staðnum sl. haust. Gistirýmið eykst um 18 herbergi með baði og verður viðbótin opnuð 1. júní.

Mynd: Frá Grettishátíð sem haldin var á vegum Grettistaks sl. sumar.