Fara í efni

Námstefnan "Ferðaþjónusta fyrir alla"

Hraunfossar
Hraunfossar
24. febrúar næstkomandi standa samgönguráðuneytið, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa og Öryrkjabandalagið fyrir námstefnu sem ber yfirskriftina "Ferðaþjónusta fyrir alla".  Námstefnan verður haldin á Hótel Sögu og stefndur frá kl. 13:00-17:00.

Um er að ræða verkefni sem að Nordiska Handikappspolitiska Rådet hefur stýrt fyrir þá sem starfa í greinni og einnig þá sem að bera ábyrgð á ferðamálum innan stjórnsýslunnar.  Markmið ráðsins er að hugtakið verði að mikilvægum þætti innan ferðaþjónustu og atvinnulífs bæði á norrænum vettvangi og innan hvers lands.
"Ferðaþjónusta fyrir alla" snýst um að allir, óháð hvaða fötlun þeir búa við, geti ferðast þangað sem þeir óska. "Ferðaþjónusta fyrir alla" á því við allt sem snertir ferðamennsku, allt frá ferðum og flutningum, heimsóknum á áhugaverða staði, að deila upplifun, mat og húsnæði auk upplýsinga á hentugu formi.

Markmiðið er að hvetja þá er starfa í og við ferðaþjónustuna til að líta á aðgengi sem eðlilegt gæðaviðmið. Jafnframt er vonast til þess að þeir sem starfa að ferðamálum, hið opinbera og samtök fatlaðra, fái tækifæri til að skiptast á skoðunum. Þá er einnig vonast til þess að ferðaþjónustan sjái hag sinn í því að hafa aðgengi sem hluta af markaðssetningu og upplýsingagjöf um norræna staði og draga þannig til sín fleiri viðskiptavini utan Norðurlanda auk þess sem allir norrænir ferðamenn, án mismununar vegna fötlunar, geti ferðast að vild innan Norðurlandanna.

Meðal ræðumanna verður þýskur hagfræðingur, Dr. Peter Neumann. Dr. Neumann hefur á vegum þýskra yfirvalda gert úttekt á efnahagslegri þýðingu þess að allir hafi jafna möguleika til ferðalaga. Þess utan verður fjallað um ferðaþjónustu fyrir alla frá sjónarmiði Nordiska Handikappspolitiska Rådet auk þess sem nokkrir íslenskir ræðumenn, bæði ferðamenn og bjóðendur þjónustu, segja frá.

Ekki þarf að tilkynna þátttöku.

Smellið hér til að skoða dagskrá námstefnunnar.