Fara í efni

Enn fjölgar flokkuðum gististöðum

Nordica Hotel opnað í apríl
Nordica Hotel opnað í apríl

Gististöðum sem þátt taka í flokkun gististaða með stjörnugjöf heldur áfram að fjölga. Þrjú ný hótel sem opnuð hafa verið á síðustu mánuðum hafa öll verið flokkuð og fleiri eru í farvatninu.

Þau þrjú nýju hótel sem síðast hafa bæst við eru Radisson SAS 1919 í Reykjavík, Hótel Hamar Icelandair Hotels í Borgarnesi og Sveitahótelið Þórisstöðum á Svalbarðsströnd. Allt eru þetta glæsilegir gististaðir, tvö þau síðarnefndu þriggja stjörnu og Radisson SAS 1919 fjögurra stjörnu.

Allir gististaðir geta sótt um flokkun
Um 40% gistirýmis hérlendis er nú flokkuð samkvæmt flokkunarkerfinu sem Ferðamálaráð Íslands heldur utan um og hófst árið 2000. Allir gististaðir á Íslandi sem eru með tilskilin leyfi geta óskað eftir því að vera flokkaðir og í kjölfar skipulagsbreytinga á síðasta ári, þar sem m.a. tókst að lækka talsvert kostnað við flokkunina, hefur flokkuðum gististöðum fjölgað talsvert. Þá má geta þess að nýtt flokkunarviðmið tók gildi frá og með síðustu áramótum. Breytingarnar voru hliðstæðar nýjum viðmiðum sem áður höfðu tekið gildi í Danmörku og gististaðir í Svíþjóð, Grænlandi og Færeyjum eru einnig flokkaðir eftir.

Kemur bæði gestum og gististöðum til góða
Úttekt gististaðanna er í höndum Öldu Þrastardóttur, verkefnisstjóra hjá Ferðamálaráði. Hefur hún farið vítt og breitt um landið í sumar til að taka út gististaði en hver staður er heimsóttur einu sinni á ári. ?Vissulega er ánægjulegt að sjá stöðugt fleiri staði bætast við enda sífellt fleiri sem gera sér gein fyrir þeim kostum sem fylgja flokkuninni. Við getum sagt að hér sé um að ræða gæðaeftirlit sem kemur bæði gestum og gististöðum til góða. Um allan heim eru gestir vanir að hafa stjörnugjöf til viðmiðunar þegar þeir velja sér gistingu í þeim gæðaflokki sem þeir óska og fyrir gististaðina þá er flokkunin mikilvægt hjálpartæki í að bæta þjónustu,? segir Alda.

Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri tekur við umsóknum um flokkun og veitir nánari upplýsingar í síma 464 9990 eða netfangið upplysingar@icetourist.is. Umsóknir þurfa að berast í pósti eða á faxi, meðfylgjandi þarf að vera rekstrarleyfi frá sýslumanni.

Myndir:
Efst: Sveitahótelið Þórisstöðum.
Í miðið: Radisson SAS 1919 í Reykjavík.
Neðst: Hótel Hamar Icelandair Hotels í Borgarnesi.

Nánar um flokkun gististaða