Fara í efni

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands

gist129
gist129

Ferðamálasamtök Íslands (FSÍ) héldu eins og fram hefur komið aðalfund sinn á Hótel Húsavík daganna 22. og 23. nóvember sl.

Pétur Rafnsson, form FSÍ setti fundinn. Hann ræddi um stöðu ferðaþjónustunnar í dag, afleiðingarnar vegna 11. september 2001 í New York og ekki síst viðbrögð greinarinnar og stjórnvalda hér á landi fyrir og á árinu 2002. Ennfremur ræddi hann um þátttöku sveitarfélaga í ferðaþjónustu, áhuga sveitarstjórnarmanna á málaflokknum og mögulega samvinnu þeirra og aðila í greininni. Að lokum fór hann yfir stuðning ráðuneytisins og þátt Sturlu Böðvarssonar, ráðherra ferðamála.  Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri flutti erindi um hvernig Akureyringar ætla að byggja upp sinn þátt í ferðaþjónustu. Miklar umræðu urðu að erindi hans loknu og sitt sýndist hverjum en á fundinum voru um 60 manns.  Aðalfundarstörf samkvæmt lögum samtakanna hófust eftir kaffihlé og stóðu til að verða 18:00. Miklar og fjörugar umræður voru um verkefni á vegum samtakanna, og stöðu þeirra. Ekki síst var rætt um fjármögnun markaðs- og upplýsingaverkefna.

Bókunarkerfi fyrir upplýsingamiðstöðvar
Á laugardagsmorgunn var fundi fram haldið með erindi Kristjáns Pálssonar, alþingismanns, um áherslur stjórnvalda í ferðamálum. Að því loknu flutti Jón Hákon Magnússon, framkv.stj. KOM erindi um Ferðatorg 2002/2003 og markaðssetningu innanlands. Að síðustu talaði Tim Diets, framkv.stj. hollenska fyrirtækisins Tourism In Action um bókunarkerfi, sérstaklega hannað fyrir upplýsingamiðstöðvar. Öllum þessum erindum var vel tekið og miklar umræður urðu að þeim loknum en aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands var slitið af formanni samtakanna rétt um hádegisbil.