Ísland vekur áhuga

Ísland vekur áhuga
Síldarminjasafnið valið í úrval evrópskra safna

Ísland virðist vera að festa sig í sessi í hugum fólks sem einn áhugaverðasti ferðamannastaður í heimi, a.m.k. ef marka má tvær nýlegar kannanir á Internetinu. Strax skal tekið fram að skoða þarf niðurstöður kannana sem þessara með hæfilegum fyrirvara en engu að síður eru þær enn ein vísbendingin um aukinn Íslandsáhuga.

BBC Holiday vefmiðilinn, sem er einn hluti BBC-fjölmiðlasamsteypunnar í Bretlandi, gerði fyrr á árinu könnun meðal lesenda sinna þar sem þeir voru beðnir að nefna þá staði á jörðinni sem allir þyrftu að sjá á lífsleiðinni. Nú hefur vefurinn birt lista með þeim 50 stöðum sem fengu flest atkvæði og er Ísland í 44 sæti. Í efsta sæti eru Miklugljúfur (The Grand Canyon) í Bandaríkjunum. Könnunin fór sem fyrr segir fram á Internetinu og þar sem Bandaríkjamenn eru duglegri en flestir að notfæra sér Netið þá bera niðurstöðurnar þess vissulega nokkur merki. Þannig má t.d. finna Flórída, Las Vegas og New York á topp 10 listanum. Af stöðum í Evrópu komast aðeins 4 á listann. París er í 27. sæti, Barselóna í því 37. og tveimur sætum fyrir neðan Ísland má finna Zermatt í Sviss, þaðan sem sjá má Matterhorn.

Ísland efst Evrópulanda
Travelers Club, sem er vildarklúbbur í Bretlandi, gerði sambærilega könnun á meðal meðlima sinna og þar eru niðurstöðurnar flokkaðar eftir löndum. Á þessum topp 50 lista er Ísland í 29. sæti og skákar öllum öðrum Evrópulöndum. Grikkland, Ítalía, Tékkland, Frakkland, og Rússland komast einnig á listann nokkuð neðan við Ísland en þar er t.d. ekki að finna lönd á borð við Spán, Þýskaland eða hin Norðurlöndin, svo dæmi sé tekið. Áhugasamir geta nálgast listann í heild sinni með því að klikka hér.


Vert er að ítreka að kannanir sem þessar verður að skoða í réttu ljósi, enda hafa þær e.t.v. meira skemmtanagildi en upplýsingagildi.

 


Athugasemdir