Fara í efni

Framkvæmdum við fjölfarna ferðamannastaði miðar vel

Þyrla
Þyrla

Á undanförnum árum hefur Ferðamálaráð sem kunnugt er staðið að úrbótum í umhverfismálum á mörgum fjölsóttum ferðamannastöðum. Í haust hafa staðið yfir framkvæmdir á þremur stöðum, þ.e. við Hraunfossa í Borgarfirði, Gullfoss og Skógarfoss, og miðar þeim öllum vel.

Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs, segir að markmið allra þessara framkvæmda, og þá ekki síst við Skógarfoss, sé að vernda náttúruna, þ.e að koma í veg fyrir frekari gróðurskemmdir. Við Hraunfossa er m.a. verið að afmarka bílastæði með skýrari hætti en verið hefur, bæta gönguleiðir og klára ýmsan frágang. Verður verkinu væntanlega lokið núna fyrir áramótin. Framkvæmdir við Gullfoss eru sömuleiðis á lokastigi en þar var verið að ganga frá bílastæðum og gönguleið niður að fossinum.

Stigi upp með Skógarfossi
Framkvæmdirnar við Skógarfoss eru langumfangsmestar af þessum þremur sem nú eru í gangi en um er að ræða nýja gönguleið upp að brún fossins. Eins og þeir vita sem til þekkja er brekkan mjög brött og erfið og því var orðið brýnt að ráðast þarna í framkvæmdir. Komið verður fyrir stálstiga sem nær alla leið upp á brún og var nýlega lokið við að steypa undirstöður hans. Aðstæður til framkvæmda eru erfiðar og nánast ógjörningur að koma við hefðbundnum tækjum. Var því gripið til þess ráðs að fá þyrlu til að ferja steypuna. Sjálfur stiginn verður síðan settur upp seinna í vetur og er stefnt á að verkinu verði lokið með vorinu. Skófarfoss er neðstur í röð margra fallegra fossa í Skógaá og er afar tilkomumikið að ganga upp með ánni. Búast má við að það verði nú enn vinsælla en áður, auk þess sem framkvæmdin nýtist þeim sem hyggja á göngu yfir Fimmvörðuháls, yfir í Þórsmörk.

Mikilvægt að geta notað haustið
Valur Þór segir að gott tíðarfar það sem af er vetrar hafi vissulega auðveldað framkvæmdir. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að standa í framkvæmdum á fjölsóttum ferðamannastöðum á sumrin, á meðan umferð er sem mest, og því mikilvægt að geta nýtt haustið sem best. 

Myndatexti: Þyrlan á myndinni var fengin til aðstoðar við framkvæmdir við Skógarfoss.