Fara í efni

Viðburðarríkur dagur í fluginu

Gistinóttum fjölgaði um 10% árið 2003
Gistinóttum fjölgaði um 10% árið 2003

Segja má að gærdagurinn hafi verið nokkuð viðburðarríkur hvað varðar tíðindi af flugsamgöngum til og frá landinu. Annars vegar var tilkynnt formlega um stofnun á nýju íslensku lággjaldaflugfélagi, Iceland Express. Hins var millilenti þota kanadíska leiguflugfélagsins HMY Airways á Keflavíkurflugvelli í fyrstu ferð sinni milli Vancouver og Calgary í Kanada og Manchester í Englandi en félagið stefnir á aukin umsvif í sumar.

Stefnir að 12% markaðshlutdeild
Fram kom í máli forsvarsmanna Iceland Express að félagið stefnir að 12% markaðshlutdeild í millilandaflugi. Áformað er að hefja áætlunarflug 27. febrúar á milli Íslands og Kastrupflugvallar í Kaupmannahöfn annars vegar og Íslands og Stansteadflugvallar við London hins vegar. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu verður lægsta fargjald fram og til baka til Kaupmannahafnar 14.660 krónur, með flugvallarsköttum, og 14.160 krónur fram og til baka til London. Sala farmiða hefst 9. janúar. Hægt verður að kaupa farmiða á Netinu, í síma, á söluskrifstofu og hjá ferðaskrifstofum. Flogið verður einu sinni á dag til hvorrar borgar, sjö daga vikunnar, allan ársins hring. Brottför til Kaupmannahafnar verður að morgni dags og til Lundúna um miðjan dag. Gert er ráð fyrir að á ársgrundvelli verði um 40 þúsund sæti í boði á fargjöldum sem kosta á bilinu 14 til 19 þúsund krónur báðar leiðir með flugvallarsköttum. Gert er ráð fyrir að fargjöld félagsins ráðist af markaðsaðstæðum og geti því verið breytileg milli daga, vikna og mánaða. Þannig geti hæsta fargjald t.d. verið mismunandi frá einni brottför til annarrar. Forsvarsmenn félagsins gera ráð fyrir að hæsta fargjald verði á bilinu 15-19 þúsund krónur, aðra leiðina án flugvallarskatta.

Á blaðamannafundinum í gær kom fram að notuð verður 148 farþega Boeing 737-300, flugvél sem fengin er á samningi frá breska flugrekstrarfélaginu Astraeus. Áhöfn í farþegarými verður íslensk og flogið verður á flugrekstrarleyfi Astraeus. Iceland Express er til húsa í að Suðurlandsbraut 24. Rúmlega 20 manns munu starfa á skrifstofu fyrirtækisins og fimmtán flugþjónar að auki í fullu starfi. Búið er að ráða í flestar stöður og framkvæmdastjóri er Jóhannes Georgsson, fyrrum framkvæmdastjóri SAS á Íslandi.

Fyrsta millilending HMY Airways á Keflavíkurflugvelli
Þota kanadíska leiguflugfélagsins HMY Airways millilenti á Keflavíkurflugvelli í gær í fyrstu ferð sinni á milli Vancouver og Calgary í Kanada og Manchester í Englandi. HMY Airways er ungt flugfélag sem á tvær Boeing 757-200 vélar. Það flýgur á milli borga á vesturströnd Kanada, Bandaríkjunum og Mexíkó og nú hefur Manchester bæst við en þangað verður flogið einu sinni í viku til að byrja með. Vélar félagsins hafa viðkomu á Keflavíkurflugvelli í báðum ferðum, meðal annars til að taka eldsneyti.

Á meðan vélin er afgreidd fara farþegarnir inn í flugstöðina og geta keypt inn í fríhafnarverslun, notið bankaþjónustu og keypt sér veitingar. Í gær voru 130 farþegar með vélinni. Félagið stefnir á að auka flugið til Englands með því að fljúga til fleiri borga og reiknar með fjórum til fimm ferðum í viku í sumar. Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótels Keflavíkur, er fulltrúi fyrirtækisins hér á landi.