Fara í efni

Unnið að skipulagi hjólastígs umhverfis Mývatn

hjóalstígur mývatn
hjóalstígur mývatn

Meðal verkefa sem Ferðamálastofa styrkti á yfirstandandi ári var undirbúningsvinna vegna fyrsta áfanga í skipulagi hjólastígs umhverfis Mývatn. Skýrsla um verkefnið er nú komin út og er þar margt áhugavert að finna

Fjöldi ferðamanna sem ferðast um Mývatnssveit á hjóli fer vaxandi en aðstaða til hjólreiða er þó bágborin og hjólreiðamenn þurfa víða að hjóla á vegöxlum þjóðveganna eða finna sér sínar eigin krókaleiðir. Hlutverk þessa verkefnis er að kortleggja hugsanlega hjólaleið og móta heildarmynd af stígakerfi umhverfis Mývatn, sem uppfyllir kröfur og kosti stígakerfis samkvæmt vegalögum, hjólastíga sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar og haldið er við af fé ríkis eða sveitarfélaga.

Markmið verkefnis er að móta tillögu um samfelldan hjólastíg umhverfis Mývatn sem tengir helstu ferðamannastaði og gefur möguleika á vistvænum samgöngumáta. Verkefnið er hugsað sem innlegg í ákvarðanatöku og mótun framtíðarsýnar fyrir stofnleiðir hjólastíga utan þéttbýlis. Verkefnið felur í sér að greina vegi og slóða sem nýta má til hjólreiða og móta heildstæða tillögu um legu hjólastígs umhverfis Mývatn og útfærslu. Verkefnið er samstarfsverkefni VSÓ Ráðgjafar, Skútustaðahrepps og Vegagerðarinnar en verkefnastjórn var í höndum Fríðu Bjargar Eðvarðsdóttur landslagsarkitekts.