Fara í efni

Úttekt á aðgengi 20 vinsælla ferðamannastaða

Ásbirgi
Ásbirgi

Ferðamálastofa veitti á árinu styrk fyrir úttekt á aðgengismálum fyrir 20 vinsæla ferðamannastaði. Verkefnið var unnið af fyrirtækinu Aðgengi og er skýrsla um það komin út.

Verkefnið nær yfir úttektir, skráningu, vottanir og birtingu á aðgengisupplýsingum. Fyrirtækið Aðgengi ehf. notar Access Iceland Aðgengismerkjakerfi til að meta aðstæður hverju sinni. Vottun er veitt fyrir mannvirki, bæði innan- og utandyra, náttúruperlur, þjónustu o.þ.h.  Aðgengismerkjakerfið greinir aðgengi eftir 7 flokkum og hver flokkur hefur sitt merki. Til að starfssemi geti öðlast merki þarf staðurinn að uppfylla lágmarkskröfurnar sem aðildarfélög fatlaðra á Íslandi hafa samþykkt. Ekki er verið að meta aðgengi eftir gildandi byggingarreglugerð heldur er aðeins metið  hvort hægt sé að komast um og nýta aðstöðuna. Viðkomandi staður getur því fengið allt frá einu upp í sjö merki í samræmi við uppfylltar lágmarkskröfur.

Margt sem þarf að bæta
Helstu niðurstöður úttektanna gefa til kynna að í nær öllum tilfellum vantar eitthvað upp á til að lágmarkskröfum fyrir fyrstu þrjá flokkana sé náð. Ástæður þess að lágmarkskröfum er ekki náð geta verið margar,  en oftast eru það vöntun á merkingum og afmörkun bílastæða fyrir fatlað fólk, vöntun á handlistum við halla yfir 6,25% og tröppur. Of mjúkt yfirborði stíga sem og grjót og klappir geta einnig verið orsakavaldar. Jafnframt er vöntun á leiðarlínum, afmörkun stíga og innganga sem og tröppunefja og þrepa fyrir blinda og sjónskerta. Skilti eru einnig oft misaðgengileg hjólastólanotendum og það vantar punktaletur þó ekki væri nema á fyrirsögnum og helstu upplýsingum. Í mörgum tilfellum er hins vegar hægt að bæta úr þessum þáttum, á einfaldan og kostnaðarlítinn hátt.

Horfir til betri vegar
„Þrátt fyrir að úrdrættir úr skýrslunum og merkjaúthlutunin gefi svolítið sorglega mynd af ástandi staðanna þá er það ekki alveg svo slæmt, því margt er gott og mikið hefur áunnist á síðustu árum. Mikil vitundarvakning á sér stað um þessar mundir í þjóðfélaginu og ég er nokkuð viss um að framtíðin er björt hvað varðar aðgengi allra að náttúruperlum og ferðamannastöðum. Kannski eru ekki allir á eitt sáttir hvað varðar ný lög og reglugerðir (algild hönnun) því þar er tekið ítarlegra á aðgengi fyrir alla en áður hefur verið gert og vonandi verður það sama í væntanlegri skipulagsreglugerð. Ferðamannastaðir sem geta boðið öllum erlendum sem innlendum ferðamönnum velkomna óháð líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra er dýrgripur og fjöður í hattinn fyrir land og þjóð. Rétt í lokin vil ég taka fram að oft væri mikið til unnið að kalla eftir ráðgjöf og/eða  teikningarýni á skipulagstillögur og hönnun áfangastaða áður en hafist er handa við framkvæmdir,“ segir Harpa Ingólfsdóttir hjá Aðgengi.

Aðgengilegt á vefnum
Aðgengismerkjakerfinu fylgir leitarvél á vefnum og hana má finna á slóðinni www.AccessIceland.is, þar er hægt að sjá ítarlegar aðgengisupplýsingar um hvern skráðan stað. Hægt er að leita að stöðum á dönsku síðunni á íslensku og Danir geta sömuleiðis leitað að íslenskum stöðum á þeirri dönsku. Einnig er boðið upp á ensku, þýsku og sænsku.

Eftirtaldir staðir voru teknir út:

  • Ásbyrgi
  • Dettifoss að austanverðu
  • Dettifoss að vestanverðu
  • Dimmuborgir
  • Djúpalónssandur
  • Garðskagaviti
  • Geysir í Haukadal
  • Goðafoss
  • Gullfoss
  • Hallormsstaðaskógur
  • Haukadalsskógur
  • Hraunfossar
  • Hverasvæðið í Hveragerði
  • Hvítserkur
  • Jökulsárlón
  • Kjarnaskógur
  • Landmannalaugar
  • Lystigarður á Akureyri
  • Námafjall - Hverarönd
  • Þingvellir

Skýrslan í heild: Úttekt og skráning á 20 vinsælum ferðamannastöðum (PDF)

Upplýsingar um staðina á vef Access Iceland