Fara í efni

Aukin umsvif í ferðaþjónustu um jól og áramót

Jólamynd
Jólamynd

Þeim stöðum og ferðaþjónustuaðilum sem bjóða afþreyingu og aðra þjónustu yfir jól og áramót fer sífellt fjölgandi. Sama á líka við um erlenda ferðamenn sem dvelja á Íslandi á þessum árstíma en þeir þurfa að sjálfsögðu sína þjónustu.

Margt í boði í borginni
Upplýsingamiðstöðin í Aðalstræti hefur líkt og undanfarin ár safnað saman upplýsingum um opnunartíma þjónustuaðila í ferðaþjónustu um jól og áramót. Vart þarf að taka fram að þeir sem þjóna ferðamönnum þjóna einnig almenningi og því nýtast upplýsingar öllum þó þær séu settar fram á ensku. Listinn er aðgengilegur á www.visitreykjavik.is.

Vert er að benda öllum sem eru í beinum samskiptum við ferðamenn á að hafa listann aðgengilegan svo hægt sé að veita sem gleggstar upplýsingar um þá aðila, s.s. veitingahús, veitingastaði hótela, ferðaskipuleggjendur, sundlaugar, söfn, verslanir og aðra sem bjóða upp á ýmiskonar afþreyingu, sem eru með opið yfir hátíðarnar.

Meira opið fyrir norðan
Á Norðurlandi hefur sama þróun átt sér stað og að sögn Ásbörns Björgvinssonar hjá Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi verður mun meira opið en áður á svæðinu, þá sérstaklega á Akureyri og við Mývatn. „Stærri hótel eru opin og Vegagerðin ætlar að tryggja gott aðgengi á flesta af okkar helstu ferðamannaperlum. Það er ýmis afþreying í boði og ég hvet fólk til að skoða upplýsingar á visitakureyri.is í þeim efnum. Auðvitað er enn ýmislegt sem en þarf að skoða og finna betri farveg, svo sem opnunartíma í Hlíðarfjalli og sundlaugum á svæðinu. En allt er þetta í rétta átt og ferðafólk á Norðurlandi getur haft nóg fyrir stafni,“ segir Ásbjörn.

Eins og Ásbjörn kom inn á hefur verið tekinn saman listi yfir opnunartíma og þjónustu á Akureyri og nágrenni yfir jól og áramót og er hann aðgengilegur á www.visitakureyri.is