Fara í efni

Jólavættir Reykjavíkur komnar á kreik

Jólavættir
Jólavættir

Jólavættir Reykjavíkur er yfirskrift jólaborgarinnar Reykjavík 2011 sem Höfuðborgarstofa sér um að skipuleggja. Hugmyndin er að upphefja íslenska sagnahefð og tengja íbúa borgarinnar við gesti hennar í gegnum samtöl og sögur. Meginmarkmið verkefnisins er að skapa áhrifaríka og skemmtilega jólaupplifun í borginni á einfaldan hátt – þar sem allir taka þátt, heimamenn og gestir.

Fjölmargar jólavættir eru í íslenskri sagnahefð. Jólasveinarnir þrettán, synir tröllahjónanna Grýlu og Leppalúða eru hluti þeirra. Þau búa uppi í fjöllum en koma til byggða síðustu þrettán daga fyrir jól og gera fólki allskonar óskunda. Sjö jólavættir, sem Gunnar Karlsson myndlistarmaður hefur teiknað, munu koma sér fyrir víðsvegar í miðborginni. Um er að ræða fimm af jólasveinunum þrettán, auk Grýlu og jólkattarins.

Hver jólavætt á sitt svæði
Hver jólavætt á sitt tiltekna svæði í borginni þar sem henni er hampað og mun hún birtast í stóru skjálistaverki sem varpað verður á hús eða húsgafl. Til dæmis mun Grýla taka sér bólfestu uppi á húsþaki við Bankastræti 11 og virða fyrir sér vegfarendur. Skilti verða sett upp á svæðinu sem vekja athygli á einkennum hennar og skapa forvitni meðal gesta og gangandi. Stafrænni snjókomu verður svo varpað á nokkra veggi í borginni t.d. á bakhlið Dómkirkjunnar og boðið verður upp á ratleik.

Jólakort með ratleik
Prentað hefur verið jólakort sem sýnir jólavættirnar sjö og hvar þær eru og er það fáanlegt í sérmerktum verslunum í miðbænum og í Laugardalnum. Jólakortið er jafnframt fjölskylduratleikur með veglegum vinningum sem hvetur fólk til að koma í bæinn og og skoða myndirnar. Stefnt er á að birta fleiri jólavættir í aðdraganda jóla á komandi árum.

Allir geta tekið þátt
Leitað verður samstarfs við rekstraraðila í miðborginni um útfærslu verkefnisins og lögð áhersla á allir geti tekið þátt í því að skapa stemninguna, hver með sínum hætti. Rekstraraðilar og miðborgarbúar eru því hvattir til þess að kynna sína jólavætt fyrir gestum borgarinnar með uppákomum, jólaskrauti eða hverju öðru sem fólki dettur í hug.

Nánar um verkefnið: Jólavættir Reykjavíkur