Fara í efni

Ísland og Reykjavík á toppnum hjá Lonely Planet

Lonely Planet
Lonely Planet

Ísland er á toppnum hjá lesendum hinnar heimsþekktu ferðaútgáfu Lonely Planet sem áfangastaður ársins 2012. Jafnframt er Reykjavík sú borg sem er í efsta sæti hjá fólki sem borg ársins 2012.

Lonely Planet gefur árlega út ritið „Best in Travel“ þar sem taldir eru upp vænlegustu kostirnir í ýmsum flokkum ferðaþjónustu. Útgáfunnar er jafnan beðið með miklum spenningi enda þykir mikill heiður að ná inn á topp 10 listann í einhverjum flokki. Skemmst er að minnast að Vestfirðir náðu inn á topp 10 listann fyrir árið 2011 sem vænlegasti áfangastaðurinn.

Val lesenda er einn flokkanna sem eru í boði og sá sem er hvað eftirsóttastur. Að bæði Ísland og Reykjavík skuli verma toppsætin hjá lesendum fyrir komandi ár er frábær árangur og hefur gríðarlegt auglýsingagildi þar sem milljónir fólks lesa þau rit sem Lonely Planet gefur út eða heimsækja vef fyrirtækisns. Sigur Íslands er líka ótrúlega öruggur þar sem nær einn af hverjum þremur velja landið.

Sjá umfjöllun Lonely Planet um valið