Fréttir

Framhaldsstofnfundur flugklasa á Norðurlandi

Framhaldsstofnfundur flugklasans Air 66N verður haldinn í Hofi á Akureyri 21. október nk. kl 13-15. Í auglýsingu eru allir sem hagsmuni hafa af beinu millilandaflugi til Norðurlands hvattir til að mæta til fundarins. Við viljum kynna ykkur stöðuna í þessu mikilvæga máli sem getur, ef allt gengur upp haft mjög jákvæð áhrif á sölu Íslandsferða á komandi árum og aukið arðsemi greinarinnar. Við viljum því hvetja ferðaheildsala um allt land til að kynna sér klasann og gerast beinir þáttakendur í verkefninu með eigin hagsmuni og hagsmuni íslenskrar ferðaþjónustu að leiðarljósi, segir í auglýsingu. Dagskrá: Air 66N, millilandaflug um Akureyrarflugvöll, Arnheiður Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri Air 66N, Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi Vöruþróunarverkefni í gangi, Sigrún Hlín Sigurðardóttir, þróunarstjóri markaðsmála innanlands, Ferðamálastofu Markaðssetning með ferðasöluaðilum, Davíð Jóhannsson, verkefnisstjóri markaðssóknar í Suður og Mið-Evrópu, Íslandsstofu Mikilvægi samstarfs við flugfélög, Guðný María Jóhannsdóttir, viðskiptaþróun, Isavia Fundarstjóri er Ásbjörn Björgvinsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi. Air 66N er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu, sveitarfélaga, stofnana og annarra hagsmunaaðila. Air 66N er leiðandi í að markaðssetja Norðurland sem nýjan áfangastað fyrir millilandaflug allt árið með það að markmiði að fjölga ferðamönnum og lengja dvöl þeirra. Vinsamlega skráið ykkur á  arnheidur@nordurland.is eða í síma 460 5733. Auglýsing um framhaldsstofnfund flugklasans Air 66N (PDF)  
Lesa meira

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir styrkumsóknum

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum um styrki til uppbyggingar á ferðamannastöðum fyrir árið 2012. Sjóðnum var komið á laggirnar í kjölfar laga frá Alþingi í júní síðastliðnum og eru tekjur hans 60% af gistináttaskatti.
Lesa meira

Mikilvægi samgangna fyrir ferðaþjónustu

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) vinnur nú að verkefni sem styrkt er af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP) og varðar þróun samgangna í dreifðum byggðum í þágu ferðaþjónustu og heimafólks. Verkefnið er til þriggja ára (2011-2013) og ber heitið Transtourism (sjá: www.transtourism.eu), en að því standa auk RMF sveitarfélög, stofnanir og háskólar á N. Írlandi, Írlandi, Skotlandi og Svíþjóð. Á Íslandi starfar RMF að verkefninu með Þróunarfélagi Austurlands, Markastofu Austurlands, Vegagerðinni og ferðaþjónustu aðilum á Borgarfirði Eystri. Fyndur á Borgarfirði eystraDagana 25. til og með 27. október verður haldin fundur aðila í verkefninu á Borgarfirði Eystra. Ráðstefnu dagarnir eru tveir. Fyrri dagurinn, þriðjudagurinn 25. október, snýst um námskeiðshald fyrir aðila verkefnisins þar sem rætt verður um einstaka verkþætti og skipulag. Þar munu aðilar verkefnisins kynna framgang þess í sínum heimalöndum, en verkefnið snýst um að þróa lausnir í samgöngum fyrir gesti sem jafnframt nýtast heimafólki og þróa leiðir til að miðla upplýsingum um þessa þjónustu í dreifðum byggðum. Síðari dagurinn, miðvikudagurinn 26. október, er opin öllum og helgaður almennara efni er tengist þeim lausnum sem kynntar verða til sögunnar miða að því að vera sveigjanlegar í takt við eftirspurn og þannig er ætlunin að nýta farsímatækni og netið til að miðla upplýsingum í rauntíma. Að auki er áhersla á að meta umhverfisáhrif samgangnanna til að höfða betur til viðskiptavina sem gera má ráð fyrir að hafi sterka umhverfisvitund. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þeir sem sækja heim dreifðar byggðir á norðurslóðum séu meðvitaðir um nauðsyn umhverfisverndar og því er þessi þáttur tvinnaður inn í þær lausnir sem er verið að þróa.  Síðasta daginn er svo ferð um Austurland í samvinnu við Þróunarfélagið þar sem skoðaðar verða byggðir á svæðinu og hvernig samgögnum um þær er háttað. Ferðina skipulagði Markaðsstofa Austurlands og því verða áfangastaðir ferðafólks einnig skoðaðir.   Rannsóknir ma. RMF hafa sýnt frammá mikilvægi samgangna fyrir ferðaþjónustu og það hvað þessi grunnsannindi virðast oft vefjast fyrir aðilum í ferðaþjónustu. Þannig er nokkuð um vilja til að efla staðbundið vöru og þjónustu framboð án þess að íhuga hvernig best eða hagkvæmast væri fyrir gesti að komast á staðinn. Þannig má sem dæmi nefna að Dettifoss sem haldið hefur verið á lofti sem perlu Norðurlands, var ekki aðaláfangastaður gesta sem nýttu sér beint flug á svæðið sumrin 2009 og 2010. Hinsvegar sumarið 2011 var þar gjörbreyting með nýjum vegi. Sömu sögu má segja af Siglufirði og byggðum Tröllaskaga, þó kannski hafi ekki borið eins mikið á þeim í kynningarefni til þessa. Rannsóknamiðstöð ferðamála mun koma á framfæri framvindu og niðurstöðum verkefnisins, en unnið verður með aðilum á Austurlandi og Borgarfirði Eystri að því hvernig þegar hefur verið og betur má nýta í framtíð beint flug á Akureyri og tengsl við aðdráttarafl ferðafólks á svæðinu.  Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson - www.arctic-images.com
Lesa meira

Verkefnayfirlit vegna styrkja frá Ferðamálastofu

Allt frá árinu 1995 hefur Ferðamálastofa veitt styrki til úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum og til uppbyggingar á nýjum svæðum fyrir ferðamenn. Á þeim tíma hefur rúmlega 700 milljónum króna verið varið til styrkja og framkvæmda á yfir 300 stöðum víðsvegar um landið. Listar yfir alla styrkþega eru aðgengilegir hér á vefnum undir liðnum Umhverfismál/Úthlutun styrkja. Nú hefur verið bætt um betur og síðastliðið sumar var ráðinn starfsmaður til að vinna vandað verkefnayfirlit fyrir árin 2009 og 2010. Þar má má finna ýtarlegar upplýsingar um hvert verkefni sem hlaut styrk fyrir þessi ár, hver framgangur þeirra hefur verið og eftir atvikum myndir og/eða teikningar. Markmiðið er að sambærilegt yfirlit verið unnið fyrir styrki framvegis og jafnvel lengra aftur í tímann, ef fjármagn fæst. Verkið í sumar vann Íris Ósk Guðsteinsdóttir. Styrkveitingar árið 2010: Vegna úrbóta á ferðamannastöðum (PDF 7,6 MB) Styrkveitingar árið 2009: Vegna úrbóta á ferðamannastöðum (PDF 6,6 MB)  
Lesa meira

Góðir staðir - leiðbeiningarrit um uppbyggingu ferðamannastaða

Á nýafstöðnu ferðamálaþingi var meðal annars kynnt rit sem nú er í lokavinnslu og nefnist „Góðir staðir“ og er leiðbeiningarrit um uppbyggingu ferðamannastaða. Ritið er unnið í samstarfi Ferðamálastofu, Framkvæmdasýslu ríkisins og Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Ritinu er ætlað að hjálpa ferðaþjónustuaðilum, forsvarsmönnum sveitarfélaga, félagasamtökum og öðrum framkvæmdaaðilum við skipulag og uppbyggingu áfangastaða ferðamanna. Áhersla er lögð á mikilvægi góðs undirbúnings og vandvirkni. Því er þannig ætlað að byggja brú á milli sveitarfélaga og ríkis annarsvegar og hönnuða og framkvæmdaaðila hinsvegar. Ritinu er einnig ætlað að vera hvatning til þeirra fjölmörgu aðila sem standa að uppbyggingu ferðamannastaða á Íslandi öllu að vanda til verka því enginn vafi leikur ´að náttúran og landið okkar eiga það skilið. Í inngangi að ritinu segir meðal annars : „Náttúruperlur landsins eru ómetanlegur hluti af þjóðararfleifð okkar. Við uppbyggingu ferðamannastaða þarf að hafa í huga að vandað verk samanstendur af þremur órjúfanlegum þáttum undirbúningi, hönnun og framkvæmd. Ávallt skal leggja áherslu á gæði, fagmennsku og vandvirkni og hafa skal í huga að ábyrg ferðaþjónusta stuðlar að verndun menningar og náttúrulegs umhverfis.  Að baki vel heppnaðar framkvæmda er vönduð hönnun  og góður undirbúningur. Starfshópur við gerð ritsins skipuðu:Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt FAÍ, sem jafnframt er  ritstjóri; Halldóra Vífilsdóttir arkitekt FAÍ, verkefnisstjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins; Kristín Gunnarsdótti, verkefnisstjóri hjá Hönnunarmiðstöð Íslands og Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisstjóri, Ferðamálastofu. Vert er að benda á að ritið er enn í vinnslu og hægt að koma á framfæri ábendingum um efni þess til ritstjóra á netfangið sturludottir@gmail.com Tengill á ritið er hér að neðan. „Góðir staðir“ - leiðbeiningarrit um uppbyggingu ferðamannastaða (PDF)
Lesa meira

Á slóðum bókanna

Málþing á vegum Þórbergsseturs, Háskólseturs Hornafjarðar og Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum verður haldið í Þórbergssetri dagana 22. – 23. október næstkomandi. Markmið með málþinginu er að vekja athygli á því hvernig hægt er að gera bókmenntaarfinn og nútímabókmenntir að aflvaka nýrra tækifæra í ferðaþjónustu á Íslandi.   Á þinginu fer fram samræða á milli forystumanna í samtökum ferðaþjónustu, rekstraraðila í ferðaþjónustu, menningarfræðinga, rithöfunda og bókmenntafræðinga. Vonir standa til að hægt verði að segja fréttir af bókamessunni í Frankfurt sem þá er nýlokið.   Málþing í Þórbergssetri eru árlegur viðburður. Þar er ævinlega reynt að blanda saman skemmtun, fróðleik, útiveru og notalegri samveru. Svo verður einnig nú og fyrirlesara lofa skemmtilegri dagskrá þar sem  persónur sagnanna  birtast ljóslifandi og náttúruskoðun fær á sig skáldsagnakenndan blæ.   Dagskrá       Laugardaginn 22. október. 15:00 Málþingið sett 15:15 Ávarp;  Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri15:30 Bókmenntir á aðventu: Skúli Björn Gunnarsson Gunnarsstofnun16:00 Orðsins list: Saga og sögur Guðrún Helgadóttir Háskólanum á Hólum 16:30 Umræður, 17:00 Erindi 17:30 Skoðunarferð um Þórbergssetur19:00 Kvöldverður 20:30 Kvöldstund í Þórbergssetri        Sunnudaginn 23. október9:00    Morgunhressing og morgunganga meðal steinanna, sem tala.10:15 Á slóðum Guðríðar og Hallgríms: Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur 10:45 Veruleiki skáldskaparins Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur Háskólasetur Hornafjarðar11:15 Fræðandi ferðalög, upplifun, skilningur eða skemmtun; Þorvarður Árnason Háskólasetur   11:45 Að búa í heimi skáldævisögunnar; Þorbjörg Arnórsdóttir Þórbergssetur12:10 Umræður 12:40 Hádegisverður og málþingslok Málþingsgjald er  kr 7000, innifalið kaffi, kvöldverður og hádegisverðurBókanir á  netfangið hali@hali.is Mynd: Þórbergssetur - www.hali.is
Lesa meira

Skráning í Expo Guide ekki á vegum Ferðamálastofu

Vert er að vara ferðaþjónustuaðila við sendingum frá fyrirtækinu „Expo Guide“, sem mörgum hafa borist síðustu daga. Þar eru viðkomandi beðnir að staðfesta að upplýsingar um fyrirtækið séu réttar þannig að hægt sé að birta þær í sýningarskrá vegna Vestnorden ferðakaupstefnunnar. Skýrt skal tekið fram að umræddar sendingar eru ekki á neinn hátt í tengslum við Ferðamálastofu eða NATA, sem sér um Vestnorden, sem þó mætti ráða af uppsetningu bréfsins. Með því að staðfesta upplýsingarnar og svara bréfinu eru viðkomandi að skuldbinda sig til að greiða gjald upp á 1.271 evru, eða jafngildi þess í mexíkönskum pesóum, en umrætt fyrirtæki virðist staðsett í Mexíkó. Til nánari útskýringar er hér birt afrit af einu bréfinu sem stílað var á vel þekkt hótel í Reykjavík. Sýninshorn af bréfi frá Expo Guide (PDF)
Lesa meira

Ferðasýningin ,,Hittumst"

Ferðasýningin "Hittumst" verður haldin þriðjudaginn 11. október kl. 14-17 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura (áður Hótel Loftleiðir). Hún hefst á áhugaverðum fyrirlestrum en ferðasýningin hefst svo í framhaldi af því og er eingöngu ætluð ferðaþjónustunni.  Ferðaþjónustuaðilar á höfuðborgarsvæðinu sem vilja kynna þjónustu sína og vöru, kaupa sér aðgang til að kynna sig og fá afnot af borði, stól og plássi fyrir bæklinga.  Aðrir ferðaþjónar sem ekki ætla að vera með bæklinga eða kynna sín fyrirtæki formlega, en vilja og koma og kynna sér hvað er í boði, skrá sig sem slíkir.  Markmiðið með sýningunni er að ferðaþjónustuaðilar á höfuðborgarsvæðinu kynni vörur sínar og þjónustu fyrir öðrum innan ferðageirans. Með því komum við á viðskiptum og eflum tengslin innan okkar raða.  Dagskrá: Kl. 14:00 Áhugaverðir fyrirlestrar frá reynslumiklum konum innan ferðageirans•    Þróun vöru og þjónustu innan ferðaþjónustunnar yfir vetartímann.  Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri •    Ísland allt árið.  Inga Hlín Pálsdóttir forstöðumaður hjá Íslandsstofu•    Vetrarborgin Reykjavík.  Sif Gunnarsdóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu. Kl. 15:00  Ferðasýningin „Hittumst“ Kl. 17:00  Léttar veitingar Þátttaökukostnaði verður haldið í lágmarki eða aðeins kr. 10.000.  Þau fyrirtæki sem skráð eru í Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins greiða kr. 5.000.  Innifalið  í skráningunni eru afnot af borði og stól, og pláss fyrir „roll-up“ og bæklinga.  Enginn aðgangseyrir er fyrir gesti.  Endilega skráið ykkur fyrir 6. október. Skráning á Hittumst 2011  
Lesa meira

Átakið ?Íslendingar! bjóðum heim? hefst

Katrín Júlíusdóttir, ferðamálaráðherra kynnti í dag átakið „Íslendingar! Bjóðum heim“ sem er fyrsti þáttur þriggja ára markaðsverkefnis til að efla vetrarferðaþjónustu hérlendis. Átakið byggir á því að fá Íslendinga víðs vegar um land til þess að bjóða erlendum ferðamönnum að kynnast landi og þjóð í gegnum persónuleg heimboð, eða að taka þátt í daglegu lífi Íslendinga með öðrum hætti. Nú þegar hafa um 40 Íslendingar um land allt skráð sig fyrir heimboðum í haust, en þeirra á meðal eru forsetahjónin, sem munu bjóða ferðamönnum upp á pönnukökur með rabbabarasultu og rjóma, ylræktað grænmeti, og gönguferð um nágrenni Bessastaða. Þá mun Katrín Júlíusdóttir  Iðnaðarráðherra bjóða upp á gönguferð með viðkomu í setlauginni á Seltjarnarnesi, og Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur mun bjóða upp á íslenskt sushi í Höfða. Átakið verður starfrækt undir vörumerkinu Inspired by Iceland og verður heimasíðan www.inspiredbyiceland.com helsti vettvangur þess. Þar geta Íslendingar boðið gestum að taka þátt í óhefðbundnum ævintýrum, og ferðamenn geta skoðað hvað er í boði og þegið heimboð. Átakið er hluti af samþættu markaðsverkefni sem kallast „Ísland – allt árið“ sem miðar að því að efla vetrarferðaþjónustu og jafna árstíðarsveiflu í íslenskri ferðaþjónustu. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja  allt að 300 milljónum árlega næstu þrjú ár í markaðsverkefni í vetrarferðaþjónustu, gegn sambærilegu mótframlagi frá einkaaðilum. Aðstandendur verkefnisins eru iðnaðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Icelandair, Iceland Express, Reykjavíkurborg, Samtök ferðaþjónustunnar, ISAVIA, Samtök verslunar og þjónustu og Landsbankinn. Íslandsstofa mun annast framkvæmd verkefnisins, en alls hafa rúmlega 130 fyrirtæki staðfest þátttöku.
Lesa meira

Ísland - allt árið; þér er boðið

Undirskrift og kynning á markaðsverkefninu  „Ísland - allt árið" fer fram mánudaginn 10. október í Hörpu kl. 13-13:45. Aðstandendur „Ísland – allt árið“ munu þá undirrita samning um verkefnið, og iðnaðarráðherra mun kynna haustátak verkefnisins sem stendur fram að áramótum. Allir eru velkomnir á kynninguna, en vinsamlega skráið þátttöku á netfangið islandstofa@islandsstofa.is Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja allt að 300 milljónum árlega næstu þrjú ár í markaðsverkefni í vetrarferðaþjónustu, gegn mótframlagi frá einkaaðilum. Aðstandendur verkefnisins eru iðnaðarráðuneytið, fjármálaráðuneytið, Icelandair, Reykjavíkurborg, Isavia, Samtök ferðaþjónustunnar, og Samtök verslunar og þjónustu. Íslandsstofa mun annast framkvæmd verkefnisins, en alls hafa rúmlega 100 fyrirtæki staðfest þátttöku. Verkefnið er samþætt markaðsverkefni sem miðar að því að efla vetrarferðaþjónustu og jafna árstíðarsveiflu í íslenskri ferðaþjónustu. Verkefnið mun byggja á grunni vörumerkisins Inspired by Iceland.
Lesa meira