Fara í efni

Vinna við kortlagningu auðlinda ferðaþjónustu á svæðum umhverfis Mýrdalsjökul að hefjast

Dyrhólaey
Dyrhólaey

Ferðamálastofa hefur sett af stað vinnu við fyrsta hluta verkefnis um kortlagningu auðlinda íslenskrar ferðaþjónustu á landsvísu. Rannsóknamiðstöð ferðamála er framkvæmdaraðili verkefnisins, en þessi fyrsti verkþáttur er unninn í og með fulltingi sveitarfélagana Ásahrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþinga Ytra og Eystra og Skaftárhrepps. Er markmiðið að safna upplýsingum um m.a. aðdráttarafl og sérstöðu svæðisins, áhugaverða viðkomustaði ásamt þjónustuframboði á svæðinu í einn kortagrunn.

Þessi vinna og þá sérstaklega framhald hennar, þar sem kortin verða notuð í rýnihópavinnu, er ekki möguleg nema með stuðning og fulltingi íbúa sveitarfélagana. Er því ósk okkar ábyrgðaraðila verkefnisins hjá Ferðamálastofu og Rannsóknarmiðstöð ferðamála að þið takið þátt í að skilgreina á breiðum grunni tækifæri og uppbyggingarmöguleika ferðaþjónustunnar í ykkar heimabyggð. Þessi vinna mun einnig nýtast til að bera kennsl á frekari vöruþróun innan ferðaþjónustunnar sem hægt er að bjóða á svæðinu. Þá getur kortagrunnurinn einnig samræmt og eflt til muna alla upplýsingagjöf til ferðafólks á svæðinu.

Tveir kynningarfundir - allir velkomnir
Öllum áhugasömum er boðið á kynningarfundi um fyrirhugað kortlagningarverkefni mánudaginn 7. nóvember á hótel Hvolsvelli kl. 11:00 eða í Félagsheimilinu Leikskálum í Vík kl. 14:00

Starfsfólk Ferðamálastofu og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála