Fara í efni

Hvatningarverðlaun til Sigurður Atlasonar

Sigurður Atlason
Sigurður Atlason

Sigurður Atlason, formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða og framkvæmdastjóri Galdrasýningarinnar á Ströndum, fékk hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum í ár. Verðlaunin voru veitt í tenglsum við uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum, sem haldin var í fyrsta sinn að Núpi í Dýrafirði um helgina.

Ákveðið var að veita sérstök hvatningarverðlaun til einstaklings eða fyrirtækis sem starfar í greininni í fjórðungnum og álitið er að skarað hafi fram úr á árinu 2011 varðandi nýsköpun, þjónustu eða umhverfisstefnu. Alls bárust 19 tilnefningar en samróma niðustaða dómnefndar, sem skipuð var fulltrúum af öllum Vestfjörðum, var að Sigurður Atlason væri þar fremstur meðal jafningja.

Ánafnaði markaðsstofunni vinningsfénu
Sigurður hefur víða látið til sín taka og fékk viðurkenninguna ekki eingöngu vegna starfa sinna við Galdrasýninguna heldur einnig vegna framlags við uppbyggingu ferðaþjónustunnar á svæðinu sem hann hefur unnið ötullega að með formennsku sinni í Ferðamálasamtökum Vestfjarða. "Meðal annars með vinnu sinni vegna kaupa Ferðamálasamtaka Vestfjarða á Vesturferðum og sameiningu ferðaþjóna undir merkjum Vesturferða. Þá hefur hann einnig unnið að umhverfisvottun Vestfjarða sem nú er í bígerð. „Sigurður hefur með einstökum dugnaði rutt brautina hvað varðar samvinnu ferðaþjóna á svæðinu m.a. með kaupum FMSV á Vesturferðum. Hann hefur einnig af þrautsegju og harðfylgi unnið ötulega að málefnum umhverfisvottunar Vestfjarða, ásamt því að reka einn vinsælasta viðkomustað ferðamanna á svæðinu. Það er enginn vafi í okkar huga að Sigurður hefur af einskærri ósérhlífni og framsýni átt stóran þátt í þeirri þróun sem undanfarið hefur einkennt og vakið mikla athygli á ferðaþjónustu á Vestfjörðum,“ segir í umsögn dómnefndar. Verðlaunin eru 50.000 krónur en  Sigurður vildi ekki taka við vinningsfénu og ánafnaði því til Markaðsstofu Vestfjarða.