Fara í efni

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi 2008
Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi 2008

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin í fjórða sinn þann 16. október síðastliðinn.  Markmið hátíðarinnar er að efla samkennd og samvinnu á milli ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og að gefa fólki kost á að kynnast innbyrðis.

Að þessu sinni voru Skagfirðingar gestgjafar og voru um 100 ferðaþjónustuaðilar sem tóku þátt í deginum og skemmtu sér konunglega. Farið var mjög víða og hófst dagurinn í Bátahúsinu hjá Hestasport þar sem gestir voru boðnir velkomnir og gæddu sér á góðgæti. Því næst var haldið að Hólum þar sem Guðrún Þóra og aðrir kennarar Hólaskóla héldu mjög áhugaverða kynningu á starfsemi skólans, farið var í leiki og boðið var uppá gómsætan skagfirskan silung í hádegismat. Næsta stopp var listasetrið Bær á Höfðaströnd þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað fyrir listamenn. Tveir ungir piltar sem kalla sig Fúsaraleg Helgi tók nokkur lög á meðan gestir skoðuðu sig um og gæddu sér á veitingum . Áfram var haldið og beinustu leið á Sauðárkrók þar sem Sveitarfélagið Skagafjörður tók á móti þátttakendum með glæsilegum veitingum í Minjasafninu. Eftir mjög ánægjulegt stopp í þesu fallega safni var brunað að Bakkaflöt þar sem gestirnir fengu enn fleiri veitingar í boði ábúenda og kynntu sér starfsemina. Síðasta stopp fyrir kvöldmat var að Varmalæk þar sem gestum var boðið uppá virkilega skemmtilega hestasýningu og heimabakaðar pönnukökur og kökur. Lagið var tekið í nýrri og glæsilegri reiðhöll, Hrímnishöllinni, áður en haldið var af stað í Varmahlíð. Kvöldmaturinn var haldinn í Héðinsminni í Akrahrepp og var fordrykkur í boði Iðnaðarráðuneytisins en maturinn var úr skagfirsku matarkistunni, virkilega glæsilegur matseðill. Kvöldið endaði á hressandi skemmtiatriðum og balli með Geirmundi.

Viðurkenningar
Sérstakar viðurkenningar frá Markaðsskirfstofu ferðamála á Norðurlandi hlutu Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit fyrir áhugaverða nýjung í ferðaþjónustu og Gunnar Árnason leiðsögumaður fyrir áralangt starf í þágu ferðaþjónustunnar. Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, veitti Byggðasafni Skagfirðinga viðurkenningu fyrir faglega uppbyggingu í þágu ferðaþjónustunnar.

Þessi dagur heppnaðist í alla staði mjög vel og á næsta ári verður uppskeruhátíðina haldin í Mývatnssveit. Það von Markaðsskrifstofunnar að sem flestir sjái sér fært að mæta að ári og eiga góðan dag í samvistum við aðra ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi.