Einstakur árangur MK í keppni ferðamálaskóla

Einstakur árangur MK í keppni ferðamálaskóla
Rannveig MK 2008

Fimmta árið í röð sigraði ferðafræðinemandi úr Menntaskólanum í Kópavogi í árlegri keppni AEHT, samtaka hótel- og ferðamálaskóla í Evrópu. Keppnin fór fram á eyjunni Saareema í Eistlandi og var það Rannveig Snorradóttir sem keppti fyrir Íslands hönd.

Rannveig í miðið með liðsfélögum sínum,
Merije frá Hollandi og Sirli frá Eistlandi

Keppnin er liðakeppni þar sem dregnir eru saman þátttakendur frá ólíkum löndum sem síðan spreyta sig á verkefnum tengdum áherslusviðum þeirra í námi. Að þessu sinni var keppt í barþjónustu, ferðafræðum, framreiðslu, gestamóttöku, herbergjaþjónustu, kökugerð, matreiðslu og stjórnun. MK hefur sent nemendur í AEHT keppnina frá því árið 1998 með einstökum árangri. Níu sinnum hafa nemendur komið heim með gullverðlaun og tvisvar með silfurverðlaun. Því má segja að mikil pressa hafi verið á Rannveigu. Hún dróst í lið með keppendum frá Hollandi og Eistlandi og stóðu þær sig svo sannarlega vel og enduðu sem sigurvegarar. Þetta er sem fyrr segir fimmta árið í röð sem MK hreppir gullverðlaunin og hefur engum öðrum skóla tekist það áður.

Verkefnið í ár var þrískipt. Nemendur byrjuðu á að taka einstaklingspróf og eftir það fóru þeir í skoðunarferð um nærliggjandi bæi til að afla upplýsinga fyrir verkefnið sem þeir áttu að vinna. Að því loknu fengu liðin fimm klukkutíma til að skrifa skýrslu um áfangastaðinn Saareema. Þar áttu þeir meðal annars að koma með hugmyndir að ferðaþjónustumöguleikum, tillögur til úrbóta og hvernig markaðssetja mætti staðinn betur. Eftir að skýrslunni hafði verið skilað inn fengu þau þrjá klukkutíma til að undirbúa kynningu á verkefnum sínum sem þau að lokum fluttu fyrir framan dómnefnd.

Dómnefndin var skipuð 4 dómurum sem komu frá mismunandi löndum ásamt fagaðila úr ferðaþjónustu í heimalandinu. AEHT samtökin voru stofnuð árið 1988 í Strassborg í Frakklandi og fagna því tuttugu ára afmæli á þessu ári. Við stofnun voru 24 skólar frá 16 Evrópulöndum í samtökunum en í dag eru tæplega 430 skólar frá 44 aðildarlöndum. Stór ráðstefna og nemakeppni er haldin í október ár hvert og skiptast aðildarlöndin á að vera gestgjafar. Í ár voru þátttökulöndin 32 og ráðstefnugestir 660 sem skiptust í nemendur, kennara og skólastjórnendur.

Heimasíða samtakanna er www.aeht.eu/, en einnig má sjá myndir og fleiri upplýsingar frá Evrópukeppninni á slóðinni www.aehtkuressaare.eu.


Athugasemdir