Fréttir

Ferðaþjónusta höfuðborgarsvæðisins býður til hátíðar á sumardaginn fyrsta

Ferðalangur á heimaslóð er haldinn í fjórða sinn á sumardaginn fyrsta í ár. Hlutverk Ferðalangsins er að vekja athygli á fjölbreyttri ferðaþjónustu höfuðborgarsvæðisins meðal annars með því að fjölmargir aðilar innan atvinnugreinarinnar opna dyr sínar upp á gátt og býður heimafólk velkomið. Skemmtiferðir á heimaslóðHópbílafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið höndum saman og bjóða upp á stuttar og spennandi ferðir í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Frábært tækifæri fyrir heimafólk til að kynnast nágrenni Reykjavíkur á einfaldan og þægilegan hátt.  Ekið verður í útivistarparadísina Heiðmörk þar sem Jóna Hildur Bjarnadóttir, stafgöngudrottning tekur á móti hópnum og leiðir stafgöngu að Maríuhellum. Við kynnumst orku Hellisheiðarvirkunnjar á fræðandi og skemmtilegan hátt og lítum við í undirheimum Bláfjalla þar sem hinn rómaði Langihellir verður skoðaður.  Ferðalöngum gefst einnig færi á að heilsa uppá tröllið í fossinum því  boðið er uppá rútu- og gönguferð að Tröllafossi og Tröllagljúfri. Leiðsögumenn frá Leiðsöguskóla Íslands leiðsegja á Íslensku. Brottför er frá bílastæði Háskóla Íslands kl. 11:00 og frá Mjódd kl. 11:15. Menningarlegur FerðalangurDagskrárliðurinn Menningarlegur Ferðalangur hefur aldrei verið jafn fjölbreyttur og viðamikill og í ár. Hin góðkunna Menningarfylgd Birnu leiðir gesti á faldar og forvitnilegar slóðir miðborgarinnar. Söfnin taka þátt á margvíslegan hátt,  m.a. býður Þjóðminjasafnið uppá öfluga dagskrá fyrir gesti sína og í Landnámsskálanum í Aðalstræti geta börn jafnt sem fullorðinir skyggnst inn í leik barna á 19. öldinni. Bókaverðlaun barna verða veitt í Borgarbókasafni Grófarhúsi við hátíðlega athöfn og þegar kvölda tekur verður boðið uppá draugagöngu um miðborg Reykjavíkur. Í Elliðaárdal hefur verið komið upp Ljóðaskógi og er tilvalið fyrir fjölskylduna að fá sér göngu í dalnum og njóta ljóðanna. Ferðlangur á sjó Mikil stemmning verður á Hafnarbakkanum á Ferðlangi. En þar verður boðið uppá fjölbreytta dagskrá frá morgni til kvölds. Hvalaskoðun Reykjavík býður uppá hvalaskoðun, skemmtisiglingar um sundin blá, sjóstangaveiði, dorgveiðikeppni og margt fleira. Boðið verður uppá kaffi og frábær tilboð á veitingum í Hvalasetrinu, Hamborgarabúllunni, Sægreifanum, Iceland fish and Chips og Sushi smiðjunni. Víkin ? Sjóminjasafn Reykjavíkur býður auk þess ferðalanga velkomna á safnið við sjóinn. Á ferð og flugiÚtsýnisflug Flugfélags Íslands hefur fest sig vel í sessi á Ferðalangi en boðið verður uppá hálftíma löng útsýinisflug kl. 13:00, 14:15 og 15:15. Iðulega komast færri að en vilja og því vissara að bóka fyrirfram. Íshestar verða með fjölbreytta dagskrá á Ferðlangi, klukkustundarlangar hestaferðir, teymt verður undir börnum, hestur verður járnaður, gæludýrakeppni og margt fleira. Opið hús í Klifurhúsinu og boðið uppá kennslu í klifri. Í Reykjavíkurhöfn geta ferðalangar þeyst um á fjórhjóli við Ægisgarð eða svifið um á seglhjóli (Blokart) við Miðbakkann. Hraustur FerðalangurFerðalöngum stendur til boða að reima á sig göngu- og/eða hlaupaskóna og kynnast heimaslóð á hraustlegan hátt. Landskunnir fjallagarpar frá Ferðafélagi Íslands leiða áhugasama upp á bæjarfjall Hafnarfjarðar Helgufell. Einnig verður gengið um gömlu þvottaleiðina í Reykjavík og merkar byggingar skoðaðar í leiðinni. Útivist leiðir alla fjölskylduna á Arnarfell við Þingvelli. Ný ferðaþjónusta opnar á Seltjarnarnesi og verður boðið uppá tveggja klukkutíma göngu um nesið í kjölfarið. Hversu merkileg er Reykjavík?Efnt verður til hugmyndasamkeppni um merkingar í borginni á Ferðalangi, en Reykjavíkurborg vinnur nú að því að merkja borgina betur. Á baksíðu dagskrárrits Ferðalangs verður þátttökuseðill og borgarbúar eru hvattir til að senda inn góðar hugmyndir að betur merktri Reykjavíkurborg. Allar hugmyndir verða skoðaðar gaumgæfilega og dregið verður úr innsendum hugmyndum. Nokkrir heppnir þátttakendur fá skemmtilegan og ferðavænan vinning. Fjölbreytta og fjölskylduvæna dagskrá Ferðalangsins má finna á vefslóðinni www.ferdalangur.is Allir dagskrárliðir eru með verulegum afslætti eða ókeypis. Ferðalangur er skipulagður af Höfuðborgarstofu  í góðri samvinnu við Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins og Samtök ferðaþjónustunnar, auk þeirra fjölmörgu fyrirtækja í ferðaþjónustu sem leggja sitt að mörkum til skipulagningarinnar.
Lesa meira

Ráðstefna um golf og ferðaþjónustu

Samhliða Ferða- og golfsýningunni 2007 sem fram fer í Fífunni um næstu helgi 20. -22. apríl verður ráðstefna á laugardeginum um golf og ferðaþjónustu. Þar verður reynt að varpa ljósi á mikilvægi golfíþróttarinnar fyrir ferðaþjónustuna og hvernig við eigum að kynna golf á Íslandi fyrir innlendum sem erlendum ferðamönnum. Ráðstefnan fer fram á laugardeginum 21. apríl og hefst hún klukkan 13:00 og stendur til 16:00. Dagskrá ráðstefnunnar er eftirfarandi: 13:00 Forseti GSÍ, Jón Ásgeir Eyjólfsson, Golfíþróttin - sóknarfæri ferðaþjónustunnar. 13:15 Rob Holt framkvæmdastjóri Ryder Cup í Wales 2010, Mikilvægi Ryder Cup fyrir golf og ferðaþjónustu í Wales. 13:45 Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair, Er golf á Íslandi eitthvað sem við getum selt? 14:15 Margeir Vilhjálmsson framkvæmdastjóri Black Sand, Uppbygging alþjóðagolfvallar á Íslandi. 14:45 Hörður Þorsteinsson framkvæmdastjóri GSÍ, Hvar nálgumst við erlenda kylfinga, kynning á Solheim Cup 2007. 15:15 Ásbjörn Björgvinsson Golfklúbbi Húsavíkur, Eru Íslendingar ekki líka ferðamenn? 15:45 Pallborðsumræður og samantekt. Magnús Oddsson ferðamálastjóri. Golfsamband Íslands vonast eftir að sjá sem flesta ferðaþjónustuaðila á ráðstefnunni sem fer fram í hátíðarsal Smáraskóla sem er í göngufæri við sýningarhöllina í Fífunni.
Lesa meira

Undirbúningur á lokastigi

Undirbúningur er nú á lokastigi fyrir sýningarnar Ferðasýningin 2007, Golf 2007  og Sumar 2007 sem hefjast í Fífunni í Kópavogi að viku liðinni. Til samans er þetta ein stærsta sýning sem haldin hefur verið tengd ferða- og golfgeiranum. 3 undir sama þakiAlls hafa nú yfir 170 sýnendur staðfest þátttöku, segir í frétt frá sýningarhöldurum. Sýningarnar eru unnar í samstarfi við sýninguna Sumar 2007 sem haldin er nú í 6 sinn. Á um 9000 m2 svæði verður að finna úrval fyrirtækja sem tengjast sumrinu, ferðalögum og golf-íþróttinni en í heildina eru þetta um 300 aðilar sem taka þátt í sýningunni. Keppnir, fyrirlestrar og áhugaverðar uppákomurMá þar nefna Hönnunarkeppni og er þemað umhverfislistaverk og keppnin um Blómaskreytir 2007. Valinn verður Ferðafrömuður ársins 2007 og á svæði Ferðamálasamtakanna verður landsleikur þar sem yfir 100 vinningar verða dregnir út. Fjöldi annarra viðburða verður einnig á svæðinu, m.a. kennsla í country-dansi, fjöldi tónlistarmanna frá öllum landshlutum mun koma og skemmta gestum sýningarinnar ogf á útisvæði verða hestateymingar í boði fyrir börn. Í Smáraskóla, sem er við Fífuna, verður haldin fyrirlestrarsyrpa á vegum GSÍ um golf- og ferðalög innanlands, skemmtilegir golfleikir verða í  boði fyrir alla fjölskylduna en einnig mun heimsmeistarinn í Masters Trick Shot Show 2006, Peter Jöhncke skemmta gestum með ótrúlegri leikni og tilþrifum. Þá mun landsliðið í golfi koma í heimsókn á golfsvæðið. Nánari upplýsingar: www.islandsmot.is og www.rit.is
Lesa meira

Unnið að endurskoðun ferðamálaáætlunar

Eins og áður hefur komið fram ákvað Sturla Böðvarsson samgönguráðherra að flýta endurskoðun á Ferðamálaáætlun 2006-2015. Sú áætlun sem var samþykkt á Alþingi vorið 2005 er fyrsta heildaráætlun um ferðamála sem Alþingi hefur afgreitt. Ákvörðun um að flýta endurskoðun  var tekin í ljósi þess að vinna við verkefni áætlunarinnar hafði gengið betur en gert var ráð fyrir. Mörgum verkefnum er lokið og nýtast niðurstöður ýmissa þeirra við endurskoðunina. Nú síðast var lokið við samanburð á rekstrarumhverfi  ferðaþjónustunnar á Íslandi og  nágrannalöndunum. Verkinu er stýrt af stýrihóp sem í sitja Magnús Oddsson, sem er formaður, Erna Hauksdóttir og Helga Haraldsdóttir. Hin daglega vinna við verkið er vistuð hjá Ferðamálastofu og hefur verið ráðinn sérstakur verkefnastjóri  í þá vinnu, Sunna Þórðardóttir ferðamálafræðingur. Áætlað er að endurskoðuninni verði lokið í september.
Lesa meira

Hollenskur vefur bætist við

Nú hefur bæst við hollensk útgáfa af landkynningarvef Ferðamálstofu www.visiticeland.com. Þar með er vefurinn orðinn á 10 tungumálum, það er ensku, dönsku, þýsku, frönsku, spænsku, ítölsku, hollensku, sænsku og norsku auk íslensku.  Eins og áður hefur komið fram er umferð um landkynningarvefi Ferðamálastofu sívaxandi enda alkunna að mikilvægi Internetsins í öllu markaðsstarfi er alltaf aðaukast, ekki síst í ferðaþjónustu. Í marsmánuði síðastliðnum var einmitt nýtt met slegið í umferð um vefinn þegar heimsóknir fóru í fyrsta skipti yfir 200 þúsund í einum mánuði. Skoða hollenska vefinn Mynd: Forsíða hollenska vefsins.  
Lesa meira

TUR sækir í sig veðrið

Dagana 22.-25. mars síðastliðinn fór fram hin árlega TUR ferðasýning í Gautaborg. Sýningin er stærsta fagsýning á Norðurlöndunum og Ferðamálastofa skipuleggur þátttöku íslensku fyrirtækjanna. Metfjöldi sýnenda var að þessu sinni og voru sýnendur frá yfir 100 löndum.  Heimsóknir fagaðila voru álíka margar og í fyrra en fjöldinn dróst lítillega saman á opnu dögunum yfir helgina. Að sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu hafa gæði þessarar sýningar verið eilítið sveiflukennd frá ári til árs. Í ár var hún með besta móti og virðist vera að sækja í sig veðrið ef eitthvað er. Mikill áhugi var á íslenska básnum og komu fjölmargir nýir söluaðilar og fjölmiðlar í heimsókn til skrafs og ráðagerða. Þær Ulrika Peterson, Elín Svava Ingvarsdóttir og Lisbet Jensen frá Ferðamálastofu tóku vel á móti gestum á íslenska sýningarsvæðinu á TUR.
Lesa meira

Nýjar flugleiðir til Akureyrar og Egilsstaða kynntar í Kaupmannahöfn

Með nýrri sumaráætlun Iceland Express hefst beint flug milli Kaupmannahafnar og Akureyrar og Egilsstaða auk áframalds á beinu flugi milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar. Flogið verður tvisvar í viku frá hvorum stað fyrir sig. Frá Akureyri verður flogið á mánudögum og miðvikudögum og frá Egilsstöðum verður flogið á þriðjudögum og föstudögum. ?Þetta er mjög góð viðbót við framboðið frá norðurlöndunum og sérlega áhugavert fyrir ferðamenn sem vilja hefja för eða enda utan Reykjavíkur,? segir Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu. Ferðamálastofa og Iceland Express kynntu nýju flugleiðirnar fyrir söluaðilum  og fjölmiðlum í Danmörku og Svíþjóð á kynningarfundi í Bryggjuhúsinu í Kaupmannahöfn. Frá Norður- og Austurlandi voru samankomnir ferðaþjónustuaðilar til að hitta söluaðila á svæðinu. Boðið var uppá íslenskt góðgæti, framreitt af Friðrik V á Akureyri og leikin var íslensk tónlist af snillingunum í Guitar Islancio. Kynningin þótti takast vel. ?Það er mikið í húfi fyrir þessi svæði að vel takist til í sölustarfinu og það er líka ástæða til að hvetja fólk  á svæðunum til að nýta þennan nýja möguleika í beinu flugi frá landsbyggðinni,? segir Ársæll.
Lesa meira

Þjónustuhús fyrir skemmtiferðaskip

Á nýja hafnarbakkanum í Sundahöfn í Reykjavík, Skarfabakka, er verið að byggja þjónustumiðstöð, sem er aðstaða fyrir farþega og þá sem koma að móttöku skemmtiferðaskipa. Húsið verður 360 fermetrar að stærð og verður byggingu þess lokið í byrjun júlí á þessu ári. Teikningu af húsinu má sjá á meðfylgjandi mynd. Í frétt á vef Faxaflóahafna kemur fram að í húsinu er gert ráð fyrir lítilli veitingaaðstöðu, aðstöðu fyrir upplýsingabæklinga og fulltrúa frá ferðamálayfirvöldum og almennu rými fyrir gesti. Í almenna rýminu verður hægt sé að tengjast fjarskiptaneti og símar og fax verða sett upp. Utan við húsið eru stæði fyrir langferðabíla,leigubíla og strætó. Með tilkomu þessa húss verður aðstaða fyrir skemmtiferðaskip öll hin glæsilegasta á Skarfabakka en reiknað er með að um það bil 50 skip komi að bakkanum í sumar.
Lesa meira

Auglýst eftir markaðsstjóra fyrir Ferðamálastofu í Bandaríkjunum

Ferðamálastofa óskar að ráða á skrifstofu sína í New York áhugasaman og öflugan markaðsstjóra sem hefur það meginverkefni að markaðsetja Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn. Bandaríkjamarkaður er einn af meginmörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu og Ferðamálastofa vinnur markvisst að því að auka komur Bandarískra ferðamanna til Íslands. Starfssvið:  Efla og auka samskipti við bandaríska ferðasala Stjórna og hafa umsjón með ákveðnum þáttum í samstarsverkefninu  Iceland Naturally í Norður Ameríku Skipuleggja viðburði í nafni Iceland Naturally Hafa frumkvæði að, fylgja eftir og ljúka ýmsum mikilvægum samstarfsverkefnum Skipuleggja fjölmilðlaherferðir og heimsóknir fjölmiðla til Íslands fyrir Ferðamálastofu í USA Ábyrgð á markaðssetningu á netinu, umsjón með vefsíðum Ferðamálastofu í USA, kynningum og viðburðum, samskiptum við ferðaþjónustu aðila í USA, bæklingagerð og annari útgáfu. Þátttaka í stefnumótun og markaðsrannsóknum Ábyrgð á tölvumálum skrifstofunnar í USA Önnur verkefni á skrifstofunni Kröfur til umsækjanda: Æskilegt er að umsækjandi hafi háskólamenntun, helst á viðskiptasviði frá erlendum háskóla, t.d. bandarískum   og hafi reynslu af hliðstæðu starfi. Kostur er ef viðkomandi hefur verið búsettur í USA. Viðkomandi þarf að hafa reynslu og hæfileika til að vinna í samstarfi ólíkra aðila að markaðs- og sölumálum. Umsækjandi þarf að vera vel kunnur notkun internets og helsta hugbúnaðar sem við eiga í daglegu starfi. Umsækjandi verður sem stjórnandi að geta unnið sjálfstætt að mörgum verkefnum á sama tíma og að vera   umhugað um að stunda skipuleg vinnubrögð. Viðkomandi þarf að tala og skrifa góða íslensku og ensku svo og að hafa þekkingu á íslenskri ferðaþjónustu. Starfið er erilsamt og felur í sér búsetu í New York eða nágrenni. Búast má við talsverðum ferðalögum. Starfsstöð er á skrifstofu Ferðamálastofu í New York sem ennfremur hýsir skrifstofur ferðamála hinna Norðurlandanna. Gert er ráð fyrir að viðkomandi hefji störf 1. júlí nk eða eftir nánara samkomulagi. Upplýsingar veitir Þórir Þorvarðarson - thorir@hagvangur.is Umsóknir óskast fylltar út á www.hagvangur.is fyrir 22.apríl  nk. Númer starfs er 6450.
Lesa meira

Gistinóttum á hótelum í febrúar fjölgaði um 14% milli ára

Gistinætur á hótelum í febrúar síðastliðnum voru 63.500 en voru 55.900 í sama mánuði árið 2006, sem er fjölgun um 7.600 nætur eða tæplega 14%. Þetta kemur fram í talningu Hagstofunnar á gistinóttum. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem þeim fækkaði um 9%, úr 5.600 í 5.100. Aukningin var hlutfallslega mest á Austurlandi þar sem gistinætur ríflega tvöfölduðust, fóru úr 900 í 1.900 milli ára. Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum um 2.000, úr 4.700 í 6.700 (42%). Á Norðurlandi nam fjölgunin 14% í febrúar, en fjöldi gistinátta fór úr 2.900 í 3.300 milli ára. Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu voru 46.400 í febrúar síðastliðnum en voru 41.700 í sama mánuði árið 2006 og fjölgaði þar með um tæplega 4.700 nætur, eða 11%. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 6% og útlendinga um 17%, en gistinætur þeirra voru um 70% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í febrúar. Gistirými á hótelum í febrúarmánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 3.507 í 3.798, 8% aukning og fjöldi rúma úr 7.118 í 7.730, 9% aukning. Hótel sem opin voru í febrúar síðastliðnum voru 69 en 70 í sama mánuði árið 2006.
Lesa meira