Fara í efni

Gistinóttum hefur fjölgað um 10%

Gisting jan-ágúst 06
Gisting jan-ágúst 06

Á fyrstu átta mánuðum ársins fjölgaði gistinóttum á hótelum um 10% frá fyrra ári, en gistináttafjöldinn fór úr 754.700 í 828.100 milli ára.  Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.

Fjölgun varð á öllum landsvæðum
Hlutfallslega varð aukningin mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem gistinóttum fjölgaði um 22%.  Tölur fyrir þessi svæði eru lagðar saman og birtar í einu lagi vegna þess hve gististaðir á Suðurnesjum og Vestfjörðum eru fáir. Á Norðurlandi nam aukningin 10%, Suðurlandi 10%, Austurlandi 8% og á höfuðborgarsvæðinu 8%.  Fjölgun gistinátta á þessu tímabili má bæði rekja til Íslendinga (12%) og útlendinga (9%).   Hagstofan vekur athygli á að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið.  Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Tæp 6% fjölgun í ágúst
Gistinætur á hótelum í ágúst síðastliðnum voru 162.900 en voru 154.100 í sama mánuði árið 2005, sem er 5,7% aukning.  Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum.  Aukningin var hlutfallslega mest á Norðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 14.400 í 17.800 milli ára, 23% aukning.  Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum um 17%, úr 16.000 í 18.600.  Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum úr 20.800 í 22.400, 7,5% aukning.  Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 4%, úr 8.800 í 9.100.  Fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu nam tæplega 1% og fóru gistinæturnar úr 94.200 í 95.000 milli ára. Fjölgun gistinátta á hótelum í ágúst árið 2006 má bæði rekja til Íslendinga (23%) og útlendinga (4%).

Gistirými á hótelum í ágústmánuði jókst milli ára.  Fjöldi herbergja fór úr 3.773 í 3.953, 5% aukning og fjöldi rúma úr 7.627 í 8.032, 5% aukning.  Fjöldi hótela er sá sami milli ára, 75.

Talanaefni á vef Hagstofunnar