Fara í efni

Flugfélag Íslands hefur áætlunarflug til Vestmannaeyja á mánudag

Vestmannaeyjahofn
Vestmannaeyjahofn

Flugfélag Íslands hefur áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja næsta mánudag. Boðið verður upp á þrettán flug í viku, kvölds og morgna frá sunnudegi til föstudags en ein ferð verður á laugardögum.

Um þrjár vikur eru síðan Landsflug hætti flugi á þessari leið. Í framhaldi af þeirri ákvörðun ákvað ríkisstjórnin, að tillögu samgönguráðherra, að hafinn yrði undirbúningur að útboði á ríkisstyrktu flugi á flugleiðinni. Til bráðabirgða yrði samið við flugrekstraraðila um tímabundið áætlunarflug með fjárhagslegum stuðningi. Í kjölfarið fól Sturla Böðvarsson samgönguráðherra Vegagerðinni að leita eftir tímabundnum samningum við Flugfélag Íslands um flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja með stuðningi ríkisins. Ljóst þótti að Flugfélag Íslands væri eini flugrekandinn sem tilbúinn væri með flugvélakost sem mætti þeim óskum sem uppi voru um sætaframboð og fleira.