Fara í efni

Aukið samstarf Safnahúss og Landnámsseturs

Landnámssetur
Landnámssetur

Fjöldi gesta hefur heimsótt Landnámssetrið í Borgarnesi á fyrstu starfsmánuðum þess, en setrið var opnað í maí síðastliðnum. Starfsemin hefur skotið fleiri stoðum undir menningartengda ferðaþjónustu í Borgarfirði og á döfinni er aukið samstarf Landnámssetursins og Safnahúss Borgfirðinga.

Meginsýningar Landnámssetursins eru tvær, sýning um landnám Íslands og sýning um sögu Egils Skallagrímssonar. Þá eru í setrinu veitinga og minjagripasala ásamt því sem á dagskrá hafa verið leiksýningar og fleiri uppákomur. Í bígerð er aukið samstarf við Safnahúss Borgfirðinga, m.a. í tengslum við sýningu um Pourqui Pas? Slysið sem Safnahúsið setti upp. Þetta kemur fram viðtali við framkvæmdastjóra Landnámssetursins, Kjartan Ragnarsson, í fréttamiðlinum skessuhorn.is. "Safnahúsið hefur á að skipa þekkingu, hefð og góðu starfsfólki og Landnámssetrið býr yfir tengslum við marga hagsmunaaðila, virkri markaðssetningu og þörfinni til að vera sífellt að skapa eitthvað spennandi fyrir gesti. Við viljum nýta styrk hvors annars og báðir aðilar hafa sínar hugmyndir um framboð efnis fyrir íbúa og ferðafólk og við eigum að vinna saman og það höfum við ákveðið að gera," segir Kjartan m.a.