Aðgerðir stjórnvalda gera Ísland enn samkeppnishæfara sem ferðamannaland

Aðgerðir stjórnvalda gera Ísland enn samkeppnishæfara sem ferðamannaland
Þjónustugæði

Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkistjórnar frá 2003 segir að stefnt skuli að því að skapa ferðaþjónustunni sambærileg rekstrarskilyrði og í samkeppnislöndunum. Fjölmargar aðgerðir hafa verið framkvæmdar í þá veru á undanförnum árum, bæði almennar sem snerta allan atvinnurekstur og einnig sértækar.

Ákvörðun stjórnvalda frá í gær er ein víðtækasta aðgerðin á undanförnum árum til að bæta samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands. Er þó þar af ýmsu að taka hvort sem litið er til aðgerða til að bæta rekstrarskilyrði eða aðgerða sem snerta innviðina. Gífurleg uppbygging samgöngumannvirkja, sem eru undirstaðan, gerð loftferðasamninga, uppbygging fjarskipta, uppbygging menningar og sögustaða og ákvörðun um Ráðstefnu- og tónlistarhús svo nokkur atriði séu nefnd.

Virðisaukaskattur óvíða lægri
Í öllum könnunum hefur verðlag fengið lægri einkunn hjá ferðamönnum en allir aðrir þættir sem eru mældir og verð á mat og drykk sérstaklega. Frá 1. mars 2007 mun virðisaukaskattur á veitingahúsum verða sá sami og á Spáni og verða aðeins Luxemburg og Holland lægri af löndum innan EES. Þannig verður Ísland með lægsta virðisaukaskatt allra Norðurlandanna á veitingahús auk þess sem verðlag matvæla almennt lækkar. Hvað varðar virðisaukaskatt á hótelgistingu þá verða aðeins Luxemburg, Holland og Noregur af EES löndunum með lægri virðisaukaskatt eftir 1. mars 2007.

Ekki síður mikilvægt fyrir innlenda markaðinn
?Það er ekki aðeins að með þessari ákvörðun verði Ísland samkeppnihæfara gagnvart erlendum ferðamönnum heldur má ekki gleyma möguleikum okkar gagnvart innlenda markaðnum,? segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri. ?Hlutfallslega er meiri aukning á þessu ári í ferðalögum okkar Íslendinga um eigið land en í erlenda markaðnum. Þessi aðgerð mun gera okkur auðveldara en áður að ferðast um eigið land og gera ferð á heimaslóð samkeppnishæfari en verið hefur,? segir Magnús.

Hann bendir á að íslendingar kaupi vörur og þjónustu á ferðum innanlands fyrir um 10 miljarða á þessu ári. Því sé mikilvægt að nýta þessa auknu samkeppnishæfni til eflingar  íslenskrar ferðaþjónustu bæði á innlendum og erlendum markaði.


Athugasemdir