Fréttir

Frestur til að skrá sig á Vestnorden 2005 að renna út

Nú um helgina, nánar tiltekið 12. júní, rennur út frestur til að skrá sig til þátttöku á Vestnorden ferðakaupstefnunni. Hún verður sem kunnugt er haldin í Norðurbryggjuhúsinu í Kaupmannahöfn dagana 12.-14. september næstkomandi. Ferðamálaráð Íslands, Grænlands og Færeyja hafa staðið sameiginlega að Vestnorden síðastliðin 20 ár og skiptast á um að halda kaupstefnuna. Í ár var komið að Grænlendingum og var tekin ákvörðun um að halda kaupstefnuna í Kaupmannahöfn. Sýnendur koma frá Vestnorrænu löndunum þremur auk þess sem fyrirtæki frá Danmörku og Settlandseyjum hafa taka þátt. Á Vestnorden hitta sýnendurnir ferðaheildsala hvaðanæva að úr heiminum sem eru að selja ferðir til norrænu landanna og eiga með þeim stutta fundi sem búið er að tímasetja áður en kaupstefnan hefst. Íslendingar eru jafnan fjölmennastir á Vestnorden og þegar hafa mörg fyrirtæki tilkynnt þátttöku. Íslensk fyrirtæki sem hug hafa á þáttöku geta snúið sér til markaðssvið Ferðamálaráðs Íslands, sími 535-5500, eða sent póst á arsaell@icetourist.is Skráning fer fram á heimasíðu sýningarinnar Skrifstofa Vestnorden 2005 ? opin kl. 7:00-14:00 ( 8-16 að dönskum tíma)Sími: 00 45 3283 3882Fax : 00 45 3283 3889Verkefnisstjóri: Karin Egede: Karin@vestnorden.glStarfsfólk: Soren Thalund soren@vestnorden.gl, Mads Nordlund mads@vestnorden.gl Mynd: Frá Vestnorden 2004 í Laugardalshöllinni. Hörður Sigurbjarnarson og Þórunn Harðardóttir hjá Norðursiglingu á tali við viðskiptavin.©Ferðamálaráð/HA
Lesa meira

Vel sótt námskeið fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva

Góð þátttaka var á námskeiði fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva sem Ferðamálaráð gekkst fyrir í dag. Ríflega 40 manns mætu námskeiðið sem haldið var samtímis á sjö stöðum á landinu með aðstoð fjarfundabúnaðar. Í fyrra var bryddað upp á þeirri nýbreytni að halda námskeiðið á menntabrúnni og var ákveðið að endurtaka leikinn nú. ?Ferðamálaráð hefur haldið námskeið sem þetta nokkur undanfarin ár og við höfum lagt áherslu á að fá a.m.k. nýtt starfsfólk upplýsingamiðstöðvanna á námskeiðið. Með þessu viljum við skapa tengsl á milli upplýsingamiðstöðva, sem er afar þýðingarmikið, auk þess sem yfirbragð þeirra verður líkara innbyrðis ef sem flestir starfsmenn hafa setið námskeið,? segir Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs. Hann var einn fyrirlesara á námskeiðinu í dag en auk hans fluttu erindi þær Drífa Magnúsdóttir, verkefnastjóri upplýsingamiðstöðvar Höfuðborgarstofu og Erla Björg Guðmundsdóttir, rekstrar- og viðskiptafræðingur. Meðfylgjandi mynd var tekin af þátttakendum á Akureyri.
Lesa meira

ÆVINTÝRAEYJAN ÍSLAND - ferðaleikur fyrir alla fjölskylduna í samstarfi Olís og Ferðamálaráðs

Nú er hafinn ferðaleikurinn ÆVINTÝRAEYJAN ÍSLAND sem Olís og Ferðamálaráð standa að. Tilgangurinn er að hvetja Íslendinga til ferðalaga um eigið land í sumar.  Leikurinn gengur út á að safna stimplum í sérstakt ?ævintýrakort? sem ætti að hafa borist öllum heim í pósti en einnig er hægt að nálgast kortið á öllum Olís-stöðvum. Í hvert skipti sem verslað hjá Olís fæst stimpill í kortið. Eftir annan hvern stimpil fær korthafi glaðning hjá Olís; svo sem ís, safa, frisbee, útvarp eða annan óvæntan varning.   Ennfremur eru Íslendingar hvattir til að nýta sér upplýsingamiðstöðvar ferðamála um land allt til að fá upplýsingar um framboð og þjónustu á hverjum stað.  Á upplýsingamiðstöðvum verður mögulegt að fá ýmis tilboð sem tengjast þjónustu hvers svæðis.  Gerðar hafa verið blaða, útvarps og sjónvarpsauglýsingar sem birtar verða í sumar. Auglýsingarnar hafa þegar vakið verðskuldaða athygli og sjónvarpsauglýsingarnar má skoða í frétt um leikinn á vefnum ferdalag.is Dregið út í hverri viku og glæsilegur lokapoturÞegar lokið er við að safna 10 stimplum er sérstakri afrifu af Ævintýrakortinu skilað á næstu Olís-stöð og á þá viðkomandi möguleika á að vinna fjölda glæsilega vinninga. Í hverri viku, á laugardögum milli kl. 11.00 og 12.00, er dregið úr pottinum á Bylgjunni í þætti Gulla Helga. Meðal vinninga eru flugferðir innanlands með Flugfélagi Íslands, gisting hjá Eddu-hótelum, GSM-símar frá Nokia, útilegubúnaður frá Ellingsen, árskort í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og ferðasjúkratöskur frá Lyfju.  Laugardaginn 20. ágúst verður síðan dregnir út enn glæsilegri lokavinningar úr öllum innsendum afrifum:  1. Vinningur: Afnot af jeppa í samfleytt 12 mánuði Afnot af fellihýsi í samfleytt 3 mánuði 100.000 kr. eldsneytisúttekt hjá Olís Glæsilegt Char-Broil útigrill frá Olís Útilegubúnaður frá Ellingsen að eigin vali að verðmæti 80.000 kr.  2.?10. Vinningur: Helgarferð, 2 gistinætur og flugferð fyrir 2 fullorðna og 2 börn 11.?1000. Vinningur m.a. : DVD-spilarar frá Sjónvarpsmiðstöðinni Úttekt í Dótabúðinni að verðmæti 5.000 kr. Leikhúsmiðar á Kabarett hjá leikhópnum Á senunni Geisladiskurinn Syngdu með  
Lesa meira

Gistinóttum Íslendinga á hótelum fjölgar

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta í apríl 2005. Þar með liggja einnig fyrir tölur fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins þ.e. fyrsta ársþriðjungi. Um nokkra fjölgun gistinátta er að ræða og er hún öll til komin vegna aukinnar gistingar Íslendinga. 9% fjölgun í aprílGistinætur á hótelum í apríl voru 77.590 en voru 71.420 árið 2004. Fjölgunin nemur því 9%. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Hlutfallslega varð mesta aukningin á Suðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 7.040 í 9.520 (35%) og á Austurlandi (23%) þar sem fjöldinn fór úr 1.470 í 1.820 milli ára. Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum úr 5.110 í 5.730 milli ára (12%) og á Norðurlandi úr 4.570 í 4.640 (2%).  Á höfuðborgarsvæðinu voru gistinæturnar í apríl 55.880 en voru 53.230 árið á undan, fjölgar því um 5% milli ára. Fjölgun gistinátta á hótelum í apríl 2005 er eingöngu vegna Íslendinga (32%) því gistinætur útlendinga standa í stað. Skýringu á þessari fjölgun Íslendinga má að einhverju leyti finna í aukinni markaðssetningu því fjölgun gistinátta er oft í tengslum við styttri ferðir og árshátíðir, segir í tilkynningu Hagstofunnar. Gistinóttum í janúar til apríl (1. ársþriðjungur) fjölgaði um rúm 3% milli ára, voru 232.110 nú samanborið við 225.200 fyrir sama tímabil árið 2004. Fjölgunin er eingöngu vegna Íslendinga (14%) því gistinóttum útlendinga fækkaði um tæpt 1% á tímabilinu. Gistinóttum á hótelum janúar-apríl fjölgaði í öllum landshlutum nema á Austurlandi (-31%). Fjölgunin nam 17% á Norðurlandi, 14% á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum, 6% á Suðurlandi og 2% á höfuðborgarsvæðinu. Hagstofan vekur athygli á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Fjöldi hótela í þessum flokki gististaða sem opnir voru í apríl voru 68 talsins 2005, en voru 65 árið á undan. Nánar á vef Hagstofunnar  
Lesa meira

Styttist í opnun 1919 Hótel í Eimskipshúsinu

Hið nýja Radisson SAS 1919 Hótel verður opnað þann 10. júní næstkomandi í fyrrum höfuðstöðvum Eimskipafélags Íslands. Um leið tekur veitingastaðurinn Salt til starfa á jarðhæð hússins. Í fréttatilkynningu kemur fram að á hótelinu verða 70 herbergi í fjórum stærðarflokkum. Nafn hótelsins, 1919 Hótel, er dregið af árinu sem bygging hússins hófst. Eimskipshúsið er einkar falleg og reisuleg bygging sem teiknuð var af Guðjóni Samúelssyni, fyrrum húsameistara ríkisins. Á síðasta ári keypti Andri Már Ingólfsson og fyrirtæki hans Heimshótel ehf. húsið og mun eiga það áfram en reksturinn verður í höndum Radisson SAS hótelkeðjunnar. Hótelstjóri er Nina Thomassen. Fréttatilkynningin í heild (PDF)
Lesa meira

Bandaríkin virða persónuvernd vegna upplýsinga um farþega frá Íslandi

Bandarísk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau muni beita sömu reglum um meðferð upplýsinga um farþega sem fljúga til Bandaríkjanna frá Íslandi og kveðið er á um í samkomulagi Bandaríkjanna við Evrópusambandið frá síðasta ári. Þetta kemur fram í orðsendingu sem bandaríska sendiráðið afhenti utanríkisráðuneytinu í síðasta mánuði. Í Stiklum, vefriti viðskiptastofu utanríkisráðuneytisins, kemur fram að með þessu sé tryggt að ákveðnar reglur gilda um meðferð persónuupplýsinga um farþega sem íslensk flugfélög láta bandarískum stjórnvöldum í té í tengslum við farþegaflug til Bandaríkjanna. Í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin hinn 11.  september 2001 hertu bandarísk yfirvöld eftirlit með komu útlendinga til landsins. Meðal annars hafa bandarísk yfirvöld krafið flugfélög, sem fljúga til Bandaríkjanna, um aðgang að upplýsingum um farþega úr farþegaskrám og bókunarkerfum þeirra. Til að bregðast við þessum hertu kröfum gerði Evrópusambandið samkomulag við Bandaríkin þar sem mælt er fyrir um hvernig staðið skuli að afhendingu slíkra upplýsinga af hálfu flugfélaga í ESB, en samkomulaginu er ætlað að uppfylla kröfur persónuverndartilskipunar Evrópusambandsins frá 1995. Samkvæmt samkomulaginu munu bandarísk yfirvöld ekki óska eftir aðgangi að viðkvæmum persónuupplýsingum úr farþegaskrám, þ.m.t. upplýsingum sem gefa vísbendingar um uppruna, kynþátt eða trúarskoðanir farþega. Þá er í samkomulaginu mælt fyrir um reglur sem bandarísk yfirvöld munu virða þegar meðferð upplýsinga um farþega, sem þeim hafa verið afhentar, fer fram. Á grundvelli samkomulagsins ákvað framkvæmdastjórn ESB að heimila afhendingu persónuupplýsinga úr farþegaskrám til bandarískra yfirvalda. Persónuverndartilskipun ESB er hluti EES-samningsins, sem og ákvarðanir Evrópusambandsins sem heimila eða banna afhendingu persónuupplýsinga til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins. Undanfarna mánuði hafa því staðið yfir viðræður um að taka upp í EES-samninginn þá ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB að heimila að bandarískum yfirvöldum verði afhentar upplýsingar úr farþegaskrám. Stefnt er að því að ákvörðunin verði felld undir samninginn innan skamms, segir í frétt í Stiklum. Þar sem ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB byggir á samkomulagi Bandaríkjanna og ESB ákváðu íslensk stjórnvöld að fara þess á leit við bandarísk stjórnvöld að tryggt yrði að sömu reglur giltu um meðferð upplýsinga sem íslensk flugfélög afhenda bandarískum yfirvöldum og leiða af áðurnefndu samkomulagi. Þessi beiðni var m.a. rökstudd með vísan til þess að samkvæmt EES-samningnum gilda sömu reglur um persónuvernd hér á landi og í aðildarríkjum ESB. Af þeim sökum væri brýnt að tryggja að upplýsingar frá íslensku flugfélagi væru meðhöndlaðar á sama hátt og  upplýsingar frá flugfélagi í ESB. Bandarísk stjórnvöld hafa nú fallist á þessa beiðni íslenskra stjórnvalda. Er því eytt öllum vafa um hvaða reglur gilda um meðhöndlun bandarískra yfirvalda á þeim persónuupplýsingum sem íslensk flugfélög afenda í tengslum svið farþegaflug til Bandaríkjanna.  
Lesa meira

Fækkun ferðamanna fyrstu 5 mánuði ársins

Nú liggja fyrir tölur um komur erlendra ferðamanna til landsins fyrstu 5 mánuði ársins, þ.e. til loka maí, og skiptingu þeirra eftir þjóðerni. Alls fóru ríflega 92 þúsund erlendir gestir um Leifsstöð á þessu tímabili sem er 5,6% fækkun frá fyrra ári. Frá því á fyrri hluta árs 2002 hefur Ferðamálaráð birt mánaðarlega tölur um fjölda ferðamanna sem fara frá Leifsstöð þar sem fram kemur skipting þeirra eftir þjóðerni. Erlendum ferðamönnum fækkar lítillega á milli ára þegar á heildina er litið. Einkum er um að ræða Norðurlandabúa, þ.e. Norðmenn og Svía, sem skýra bróðurpart fækkunarinnar. Smávægilegur samdráttur er frá Bretlandi og Mið-Evrópu en aukning frá Norður-Ameríku. Að sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs má greina á tölunum að einkum febrúar og apríl séu slakari mánuðir en á síðasta ári. Svo viðist sem hópum frá Svíþjóð, Noregi og að einhverju leyti Bretlandi hafi fækkað. Aukning er meðal Bandaríkjamanna og Þjóðverja. Þá segir Ársæll of snemmt að segja nokkuð til um hvort við séum að sjá fækkun í sumar eða fyrir árið í heild sinni. Í töflunni hér að neðan má sjá skiptingu ferðamanna eftir löndum fyrstu 5 mánuði ársins. Heildarniðurstöður úr talningum ferðamaálráðs eru aðgengilegar hér á vefnum undir liðnum Tölfræði. Janúar-maí           2004 2005 Mism. % Bandaríkin                     14.571 15.002 431 3,0% Bretland                       21.182 20.437 -745 -3,5% Danmörk                        9.912 10.020 108 1,1% Finnland                       2.248 1.865 -383 -17,0% Frakkland                      4.152 3.784 -368 -8,9% Holland                        3.216 2.632 -584 -18,2% Ítalía                         1.269 1.029 -240 -18,9% Japan                          1.861 1.851 -10 -0,5% Kanada                         763 829 66 8,7% Noregur                        10.647 8.116 -2.531 -23,8% Spánn                          664 743 79 11,9% Sviss                          624 867 243 38,9% Svíþjóð                        9.670 7.891 -1.779 -18,4% Þýskaland                      6.172 6.279 107 1,7% Önnur þjóðerni                 10.674 10.828 154 1,4% Samtals: 97.625 92.173 -5.452 -5,6%           Ísland 126.147 135.221 9.074 7,2%  
Lesa meira

50,5 milljónir króna í samstarfi um markaðssetningu innanlands

Lokið hefur verið við að fara yfir umsóknir um samstarfsverkefni Ferðamálaráðs um auglýsingar á íslenskri ferðaþjónustu sem hvetja eiga Íslendinga til ferða um eigið land. Umsóknir voru 32 talsins og hefur verið ákveðið að ganga til samstarfs við 17 umsækjendur. Í boði voru samstarfsverkefni þar sem framlag Ferðamálaráðs var annars vegar hálf milljón króna í 9 verkefni og hins vegar samstarfsverkefni þar sem framlag Ferðamálaráðs var 1,0 milljón í 8 verkefni, þ.e. samtals 12,5 milljónir króna. Skilyrði var að samstarfsaðilar legðu fram a.m.k. jafnt á við Ferðamálaráð og nutu þeir forgangs sem að öðru jöfnu voru reiðubúnir að leggja fram meira fé. Sérstaklega var litið til verkefna utan háannar og á landsvísu. Ákveðið hefur verið að ganga til samstarfs við 17 umsækjendur og er mótframlag þeirra alls 38 milljónir króna. Að viðbættum 12,5 milljónum króna frá Ferðamálaráði er heildarupphæðin sem fer til markaðssetningar innanlands í tengslum við þessi verkefni því 50,5 milljónir króna. Samstarfsaðilar um 0,5 milljóna kr. framlag frá Ferðamálaráði Hafnarfjarðarbær Sæferðir ehf Höldur ehf / Bílaleiga Akureyrar Akraneskaupstaður Radisson SAS Hótel Saga Samband sveitafélaga Suðurnesjum Kynnisferðir ehf Teitur Jónasson ehf Ísafjarðarbær Samstarfsaðilar um 1,0 milljón kr. framlag frá Ferðamálaráði: Bláa Lónið hf Höfuðborgarstofa Draugasetrið Atvinnu-og ferðamálafulltrúi Rangárþingi og Mýrrdal Iceland Excursions Allrahanda Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Bílaleiga Flugleiða ehf, /HERTZ bílaleiga Markaðsstofa Austurlands  
Lesa meira

Framtíð ferðaþjónustunnar í Skagafirði

Þriðjudaginn 7. júní verður blásið til kynningarfundar um stefnumótunarverkefnið "Ferðaþjónusta til framtíðar ? atvinnulíf og íbúar". Um er að ræða samstarfsverkefni Sveitarfélagsins Skagafjarðar og ferðamáladeildar Hólaskóla. Fundurinn hefst klukkan 20.00 og er haldinn í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Húsið verður opnað klukkan 19.30 og þá gefst gestum kostur á því að njóta sýnishorna úr Matarkistunni Skagafirði. Í frétt frá þeim sem að verkefninu standa kemur fram að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ákveðið að vinna stefnumótun fyrir ferðaþjónustu í Skagafirði fyrir árin 2006-2010. Var samið við ferðamáladeild Hólaskóla um umsjón með og vinnu við gerð stefnumótunarinnar. Gildi ferðaþjónustu fyrir efnahags- og atvinnulíf á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og Skagfirðingar búa yfir margvíslegum auðlindum á sviði náttúru, mannlífs og menningar sem fela í sér sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna.  Samkeppni áfangastaða um hylli ferðamannsins fer hinsvegar sífellt harðnandi og því er mikilvægt að framtíðarsýnin um uppbyggingu skagfirskrar ferðaþjónustu sé skýr og vel mótuð. Áhersla verður lögð á virkni grasrótarinnar í stefnumótunarferlinu þannig að sem víðtækust samstaða verði um niðurstöður. Það er því óskað eftir þátttöku fyrirtækja í þjónustu við ferðafólk, hins almenna íbúa og sveitarstjórnarfólks í verkefninu. Stefnumótunarvinnunni er þannig ætlað að verða gott tækifæri til að efla umræðu og vitund um ferðaþjónustuna í Skagafirði og um framtíð hennar. Ætlunin er að stefnumótuninni ljúki í upphafi næsta árs. Vinna við undirbúning hennar er þegar hafin með víðtækri upplýsingaöflun um ferðaþjónustuna í firðinum. Það er von þeirra sem að fundinum standa að sem flestir mæti og taki frá upphafi virkan þátt í því að móta framtíðarsýn ferðaþjónustu í Skagafirði. Fólkið á bakvið tjöldin ? þeir aðilar sem unnið hafa undirbúningi fundarins.
Lesa meira

Loftferðasamningur á milli Íslands og Indlands í burðarliðnum

Samkomulag hefur náðst við indversk stjórnvöld um efni loftferðasamnings milli Íslands og Indlands. Var bókun um niðurstöður samningsgerðarinnar undirrituð í Ráðherrabústaðnum í gær að viðstöddum dr. A.P.J. Abdul Kalam forseta Indlands og Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra. Samningurinn ásamt viðauka og bókun felur m.a. í sér heimild fyrir tilnefnd flugfélög til að fljúga allt að 14 ferðir í viku milli landanna með tengingum við annað flug þ.e. bæði viðkomum á leiðinni og flugi áfram til annarra áfangastaða. Þá er staðfest í bókuninni heimild til að stunda fragtflug eftir þörfum svo og víðtæk heimild til að fljúga með ferðamannahópa í svonefndum pakkaferðum. Segir utanríkisráðuneytið, að um sé að ræða einn hagkvæmasta loftferðasamning sem gerður hafi verið af Íslands hálfu. Samkvæmt bókuninni sem nú var undirrituð verður samningnum fylgt hér eftir meðan lokaundirbúningur að formlegri undirritun hans stendur yfir en miðað er við að undirritunin fari fram síðar á þessu ári. Að samningsgerðinni unnu utanríkisráðuneytið, samgönguráðuneytið og Flugmálastjórn auk sendiráðsins í London. Fulltrúar flugrekenda voru til ráðgjafar við samningsgerðina. -- Í samninganefndinni voru þau Ólafur Egilsson, sendiherra, formaður, Sverrir H. Gunnlaugsson, sendiherra gagnvart Indlandi, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, Halldór S. Kristjánsson skrifstofustjóri, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri, Kristín Helga Markúsdóttir lögfræðingur og Ástríður S. Thorsteinsson lögfræðingur. Fulltrúar flugrekenda voru þeir Einar Björnsson og Sveinn Zoega frá Air Atlanta Icelandic, Þórarinn Kjartansson og Bjarki Sigfússon frá Bláfugli, Pétur J. Eiríksson frá Icelandair Cargo, og Gunnar Már Sigurfinnsson og Hrafn Þorgeirsson frá Icelandair.
Lesa meira