Fara í efni

Vilt þú halda erindi á alþjólegri ráðstefnu?

CruiseIceland2
CruiseIceland2

Nú styttist í að renni út frestur til að skila inn útdráttum að erindum á alþjóðlega ráðstefnu sem Ferðamálasetur Íslands, í samvinnu við Nordisk Selskab for Turismeforskning, heldur á Akureyri dagana 22 til 24 september í haust.

Ráðstefnan, The 14th Nordic Symposium in Tourism and Hospitality Research, er vettvangur norrænna fræðimanna sem vinna að rannsóknum um ferðamál og rekstur ferðaþjónustufyrirtækja. Yfirskrift ráðstefnunnar er ?Menning og samfélag-Umhverfi- Efnahagslíf?.  Ráðstefnan verður að hluta til haldin samhliða ráðstefnu um byggða- og svæðaþróunarmál á vegum Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri.
 
Virtir aðallfyrirlesarar
Mjög virtir aðalfyrirlesarar verða með erindi á ráðstefnunni.  Simon Milne, forstöðumaður ferðamálaseturs Nýja Sjálands, mun halda erindi fimmtudaginn 22. september.  Dirk Glaesser, yfirmaður upplýsingasviðs World Tourism Organization á Spáni og Stephen Ball, formaður samtaka fræðimanna um rekstur ferðaþjónustufyrirtækja í Bretlandi, munu halda erindi sín á föstudagsmorgni og Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri FL Group, klukkan tvö sama dag.  Á laugardag fjallar John Hull, fræðimaður frá Kanada, um möguleika sjálfbærrar ferðaþjónustu innan þjóðgarða.

Skilafrestur til 5. júlí
Erindi á ráðstefnunni eru skipulögð í 30 mínútur hvert og er innan þess tímaramma gert ráð fyrir svörum við fyrirspurnum úr sal.  Yfir 60 útdrættir hafa nú þegar borist erlendis frá.  Íslenskir aðilar hafa frest til 5. júlí til að skila inn útdrætti fyrir erindi sín.
 
Þeir sem hafa áhuga á að vera með erindi á ráðstefnunni eða hug á að fylgjast með erindum geta haft samband við Ferðamálasetur Íslands þar sem fjöldi þeirra sem tekið geta þátt í ráðstefnunni er takmarkaður.  Skráningargjald er 34.000 krónur fyrir alla dagana og eru þá kaffiveitingar, hádegisverður og kvöldverður innifalið í gjaldinu. Hægt er að skrá sig einungis föstudag eða laugardag og er gjaldið þá 15.000 krónur fyrir daginn en kvöldverður er þar ekki innifalinn.

Nánari upplýsingar er að finna á http://www.fmsi.is eða hjá Helga Gestssyni og Guðnýju Pálínu Sæmundsdóttur hjá FMSÍ í síma 460 8934.