Fara í efni

Mikilvægt að fylgjast með ástandi fjallvega

Komur ferðamanna í apríl - Fjölgun á milli ára
Komur ferðamanna í apríl - Fjölgun á milli ára

Stærstur hluti af hálendisvegum hefur nú verið opnaður fyrir umferð. Enn eru þó nokkrar leiðir ófærar vegna snjóskafla og aurbleytu og því mikilvægt fyrir starfsfólk hjá bílaleigum og aðra sem starfa í ferðaþjónustu að brýna fyrir fólki að afla sér upplýsinga áður en lagt er af stað.

Allar leiðir á sunnanverðu hálendinu eru opnar, sem og meginleiðirnar þvert yfir hálendið, Kjölur og Sprengisandsleið. Hins vegar eru leiðir upp úr Skagafirði og Eyjafirði enn lokaðar, sem og Gæsavatnaleið og vegir á Arnarvatnsheiði. Þá hefur ekki verið opnað frá Hveravöllum í Þjófadali og fleiri leiðir mætti nefna.

Getur reynst hættulegt
Vegagerðin gefur vikulega út kort með ástandi fjallvega og mikilvægt er fyrir starfsfólk hjá bílaleigum og aðra sem starfa í ferðaþjónustu að brýna fyrir fólki að kynna sér það, ekki síst nú þegar flestar leiðir eru opnar en leiðir sem af þeim liggja lokaðar. Í fyrradag reyndi til að mynda ferðafólk litlum jeppa að aka af Sprengisandsleið, sem er opin, niður í Eyjafjörð en sú leið er ófær. Fólkið festi bíl sinn í aurbleytu skammt frá Laugafelli. Eftir að hafa hafst við í bílnum yfir nótt ákvað það að freista þess í gærmorgun að ganga til byggða, um 30 km leið. Þar sem vegurinn er lokaður er engin umferð um hann og var fólkið komið langleiðina til byggða, aðframkomið af þreytu, þegar ekið var fram á það síðdegis í gær. Það varð fólkinu til happs að veður var fremur gott, annars hefði getað illa farið. Engar merkingar eru á sjálfum vegunum sem gefa til kynna að leiðir séu lokaðar og meðan svo er ríður á að starfsfólk í ferðaþjónustu sé vakandi fyrir að upplýsa viðskiptavini sína. Mynd: Smári Sig.

Kort um ástand fjallvega