Fara í efni

Ímyndarbæklingar fyrir alla landshluta

Ferðamálasamtök Íslands og átta ferðamálasamtök landshlutanna í samvinnu við útgáfufélagið Heim hafa gefið út ímyndarbæklinga í ferðaþjónustu fyrir alla landshluta.

 

Markmið útgáfunnar

Markmið útgáfunnar er að kynna hvern landshluta í heild sinni á sem bestan hátt, samhæfa útlit allra bæklinganna jafnframt því að gera hagstæðan samning um útgáfuna og spara með því hverjum samtökum töluverðar fjárhæðir. Verkefnið snýst um að skapa heildstæða mynd með því að hafa alla bæklingana eins upp setta, áþekkan texta, samskonar upplýsingar og sérstaklega valdar myndir frá færustu ljósmyndurum landsins. Leitað var til útgáfufélagsins Heims um að vinna verkið. Samningar milli fyrirtækisins og Ferðamálasamtaka Íslands voru gerðir um síðustu áramót en samtökin höfðu verkstjórn í sínum höndum auk þess að þau styrktu verkefnið með því að taka þátt í kostnaði allra bæklingana.

 

Vesturland                    30.000 eintök               24 bls.              íslenska/enska
Vestfirðir                      20.000 eintök               24 bls.              enska/franska

Norðurland V/E            20.000 eintök               40 bls               íslenska/enska

Austurland                    15.000 eintök               24 bls.              íslenska/enska
Suðurland                     30.000 eintök               24 bls               íslenska/enska
Suðurnes                      15.000 eintök               24 bls.              íslenska/enska
Höfuðborgarsvæðið      15.000 eintök               24 bls               íslenska/enska  

Alls 145.000 eintök

 

Útgáfufélagið Heimur mun að hluta til sjá um dreifingu bæklinganna eftir sínu dreifingarkerfi og munu þeir því einnig birtast á vefsíðu fyrirtækisins.

 

Aðild Ferðamálasamtaka Íslands

Ferðamálasamtök Íslands, sem eru regnhlífarsamtök átta landshlutasamtaka, hafa unnið að undirbúningi þessa tímamótaverkefnis í 1-2 ár í samvinnu við Maríu Guðmundsdóttur ritstjóra hjá útgáfufélaginu Heimi með áðurnefndri niðurstöðu.

Það var töluverður undirbúningur og tók tíma að ná að sameina fulltrúa átta landshluta-samtaka um eitt heildarverkefni, þar sem hver og einn landshluti hefur til þessa gefið út sinn bækling og með því lagt áherslu á sín sérkenni og sérstöðu. Undanfarið hefur þróunin verið sú að landshlutarnir hafa aukið samvinnu sína á sviði ferðaþjónustu, með það í huga að gera markaðsstarfið einbeittara, bæta upplýsingagjöf og nýtingu fjármuna, sem varið er í kynningu á hverjum landshluta. Með samvinnu og samstöðu fulltrúa þessara átta ferðamálasamtaka landshlutanna tókst að undirbúa, skipuleggja og vinna verkið sem eina heild.

 

Ferðamálasamtök Íslands fagna þessu framtaki af heilum hug og óska öllum viðkomandi til hamingju.

 

Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands.