Fréttir

Aðalfundur samtakanna Cruise Iceland

Á morgun, 10. maí, munu samtökin Cruise Iceland halda fyrsta aðalfund sinn. Samtökin voru stofnuð í febrúar í fyrra og er tilgangur þeirra að auka samvinnu allra sem hagsmuna eiga að gæta vegna móttöku skemmtiskipa hérlendis. Samtökunum er m.a. ætlað á næstu misserum að leggja áherslu á að markaðssetja Ísland sem áhugaverðan áfangastað skemmtiskipa bæði í samvinnu við innlenda og erlenda aðila,  huga að möguleikum þess að fá fleiri skip til þess að skipta um farþega á Íslandi og kanna möguleika þess efnis að fá skip til þess að sigla hringferðir í kringum Ísland sumarlangt. Einnig munu  samtökin skoða hvernig hægt sé að stuðla að frekari vöruþróun í framboði afþreyingar fyrir farþega skipanna og skoða möguleika á frekari verslun við farþega og útgerð skipanna. Cruise Iceland eru markaðs- og hagsmunasamtök sem stuðla vilja að  betra rekstrarumhverfi greinarinnar, og þeim er ætlað að vera sameiginleg rödd þeirra aðila sem starfa á þessu sviði gagnvart t.d. opinberum aðilum og öðrum sem hafa með mál skemmtiskipa að gera hér á landi.Fyrirtæki, stofnanir, einstaklingar og sjálfstæðir atvinnurekendur sem starfa í ferða- og þjónustuiðnaði við skemmtiskip eða í skyldum greinum geta gerst meðlimir í samtökunum. Aðalfundurinn er haldinn í Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17, 4. hæð og hefst fundurinn klukkan 13:00. Dagskrá: 1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfstímabil. 2. Reikningar félagsins.3. Tillaga stjórnar um fjárhagsáætlun líðandi árs. 4. Kosning stjórnar. 5. Önnur aðalfundarstörf.  Vinsamlegast tilkynnið þátttöku til: Alda Þrastardóttir, verkefnastjóri ? alda@icetourist.is, sími 464-9990    
Lesa meira

Vinna við ferðaþjónustuklasa á Norðurlandi fer vel af stað

Á dögunum var á Hótel KEA haldinn fjölmennur fundur um samvinnu fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Um er að ræða svokallað klasaverkefni sem tengist stefnu alþingis í byggðamálum. Samkvæmt byggðastefnu hins opinbera átti m.a. að vinna að sérstakri byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð og í fyrra var undirritaður Vaxtarsamningur Eyjafjarðar, samstarfsvettvangur opinberra aðila og einkaaðila um uppbyggingu atvinnulífs. Þar er lögð áhersla á uppbyggingu fjögurra atvinnugreina eftir svo kallaðri klasa-hugmyndafræði. Í hnotskurn stendur klasi fyrir samvinnu og samkeppni fyrirtækja í sömu atvinnugrein á ákveðnu landsvæði. Ferðaþjónustan er ein þeirra fjögurra atvinnugreina sem tilgreind er í samningnum og var Bergþóra Aradóttir sérfræðingur hjá Ferðamálasetri Íslands, ráðin til að stýra vinnu við ferðaþjónustuklasann. Tekur til alls Norðurlands?Þótt klasaverkefnið sé hluti af þessum vaxtarsamningi Eyjafjarðarsvæðisins þá erum við að horfa á málið í víðara samhengi og samstarfið í ferðaþjónustu tekur til alls Norðurlands. Segja má að nú þegar sé eitt mikilvægt klasaverkefni ferðaþjónustunnar á svæðinu farið af stað með tilkomu Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi, þegar ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi fóru að vinna saman að markaðsmálum,? segir Bergþóra. Bergþóra segir undanfarnar vikur hafa farið í að móta starfið, safna gögnum og greina þau. Viðtöl hafa verið tekin við fjölmarga ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi til að fá fram viðhorf þeirra á stöðu og þróun ferðamála á svæðinu. ?Þó að þeir sem rætt var við stæðu í mismundandi rekstri og með ólíkar rekstrareiningar, var fljótlega hægt að sjá ákveðið mynstur í málflutningi þeirra sem greina mátti í þrjá megin málaflokka. Þessir málaflokkar því lagðir til grundvallar á fundinum sem við boðuðum alla ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi til á Hótel KEA,? segir Bergþóra. Málaflokkarnir sem um ræðir eru samgöngur, markaðsmál og vöruþróun og nýsköpun. Einhugur um samstarfHún segir fundinn á KEA hafa tekist vel og mikil samstaða verið ríkjandi.. ?Eftir almenna kynningu á kasaverkefninu skiptu fundarmenn sér upp í málsstofur. Þar var leitast við að kryfja hann niður í ákveðin skilgreind verkefni, sem fundarmenn gátu um að vinna þurfi að atvinnugreininni og fyrirtækjunum til framdráttar. Hver hópur fór í gegnum vinnuferli sem byggðist á "hvar stöndum við?", "hvert viljum við stefna?" og að lokum "hvernig eigum við að komast þangað?". Tillögurnar sem fram komu í lokin voru ótal margar bæði stórar og smáar og liggur fyrir hjá mér að vinna úr þeim. Mér fannst mikilvægast að finna þann einhug sem ríkti meðal fundarmanna um mikilvægi samstarfs og ánægja með þá vinnu sem farin er af stað í því sambandi. Þá voru menn sammála um mikilvægi Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi og að þar séu ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi á réttri braut,? segir Bergþóra. Þá ítrekaði hún að öllum fyrirtækjum í ferðaþjónustu stæði til boða að taka þátt í vinnu við ferðaþjónustuklasann, óháð því hvort þeir komu á fundinn eða ekki. Mikilvægt sé að fyrirtæki geri sér grein fyrir að með undirritun vaxtarsamningsins séu ríki, sveitarfélög á svæðinu, Byggðastofnun og fleiri aðilar búnir að taka ákvörðun um að standa saman að því að styrkja sérstaklega þær atvinnugreinar sem samningurinn tekur til, m.a. ferðaþjónustuna. Þarna sé því um að ræða gríðarlegt tækifæri fyrir fyrirtækin að vinna að vexti og viðgangi greinarinnar og þar með sinna fyrirtækja. Akureyrarflugvöllur verði lengdurÁ fundinum var m.a. samþykkt ályktun um lengingu flugbrautar á Akureyrarflugvelli.Þar er skorað á alþingismenn og samgönguyfirvöld að hefja tafarlaust framkvæmdir við lengingu flugbrautar á Akureyrarflugvelli ?þannig að Norðlendingum, í sinni atvinnuuppbyggingu, verði gert kleift að efla og þróa ferðaþjónustu á svæðinu,? eins og segir orðrétt. Ljósmynd: Úr Mývatnssveit -Ragnar Th. Sigurðsson.
Lesa meira

Farþegar um Keflavíkurflugvöll í apríl

Tæplega 119 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í aprílmánuði síðastliðnum. Þetta eru nokkru færri farþegar en fóru um völlinn í sama mánuði í fyrra þegar þeir voru 130 þúsund talsins. Frá áramórum nemur fjölgun farþega hins vegar 9,5% miðað við sama tímabil í fyrra. Fækkunin í apríl er heldur meiri í hópi farþega á leið til landsins en frá því. Í töflunni hér að neðan má sjá nánari skiptingu.     April 05. YTD April.04. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 50.160 175.442 52.332 159.233 -4,15% 10,18% Hingað: 50.190 172.208 55.733 158.629 -9,95% 8,56% Áfram: 218 6.024 29 517 651,72% 1065,18% Skipti. 18.229 64.811 21.990 64.013 -17,10% 1,25%   118.797 418.485 130.084 382.392 -8,68% 9,44%
Lesa meira

Gistinætur í mars

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta á hótelum í mars síðastliðnum. Voru þær 62.815 talsins, samanborðið við 68.070 árið 2004 Þetta samsvarar 9% fækkun. Gistinóttum fækkaði í mars á öllum landsvæðum nema tveimur.  Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum úr 3.240 í 4.790 milli ára (48%) og á Norðurlandi úr 3.700 í 4.830 (31%).  Á höfuðborgarsvæðinu voru gistinætur 45.350 og fækkaði um 9% á milli ára.  Á Austurlandi voru gistinæturnar í mars 1.230 en voru 2.020 árið á undan sem er 39% fækkun.  Á Suðurlandi átti sér einnig stað samdráttur í mars, eða sem nemur 19% því gistinóttum fækkaði þar um 1.580 milli ára. Fækkun gistinátta á hótelum í mars 2005 er aðallega vegna útlendinga (-15%), en gistinóttum Íslendinga fækkaði um 1%. Ahygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið (í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann).  Fjöldi hótela í þessum flokki gististaða sem opnir voru í mars voru 68 talsins 2005, en voru 65 árið á undan. ölur fyrir 2004 og 2005 eru bráðabirgðatölur.
Lesa meira

Vel heppnuð ráðstefna á Ísafirði

Ráðstefnan ?Náttúra Vestfjarða og ferðamennska? sem haldin var á Ísafirði 15. og 16. apríl síðastliðin tókst í alla staði vel, að sögn aðstandenda hennar. Að sögn Önnu Guðrúnar Edvardsdóttur, deildarstjóri þróunardeildar Náttúrustofu Vestfjarða, var almenn ánægja með fyrirkomulag og innihald ráðstefnunnar. Gestir höfðu á orði að margt nýtt hefði borið á góma og margir sáu möguleika í að tengja saman náttúru, mannlíf og ferðamennsku því fjallað hefði verið um þessa þætti á annan hátt en áður. Fram hefði komið að sú þekking sem vísindamenn hafa aflað á þessum sviðum nýtist í ferðamennsku og þessir aðilar geta auðveldlega unnið saman, þar sem þekking þeirra er á ólíkum sviðum, annars vegar þekking vísindamannsins á ákveðnum fyrirbærum og hins vegar þekking ferðaþjónsins í ferðamálum. Á ráðstefnunni kom fram ósk gesta um að glærusýningar fyrirlesara yrðu settar á vefinn og þessa dagana er verið að vinna í því. Að auki má einnig finna ráðstefnuritið á vefnum. Slóðin er www.nave.is/ferdaradstefna.
Lesa meira

Vestnorden 2005 - Heimasíða og skráning

Búið er að opna heimasíðu fyrir Vestnorden ferðakaupstefnuna 2005. Þar er meðal annars hægt að skrá sig. Vestnorden er árleg ferðakaupstefna sem Ferðamálaráð Íslands, Grænlands og Færeyja hafa staðið að síðastliðin 20 ár. Löndin skiptast á um að halda kaupstefnuna. Næsta Vestnorden kaupstefnan verður haldin í Norðurbryggjuhúsinu í Kaupmannahöfn um 12.-14. september 2005 og er í umsjón Grænlendinga. Heimasíða Vestnorden 2005
Lesa meira

Umhverfisvottun í ferðaþjónustu

Í nýrri grein hér á vefnum fjalla þeir Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs, og Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs, um umhverfisvottun í ferðaþjónustu. Tilefnið er ráðstefna um þetta efni þann 11. maí nk. Markmið ráðstefnunnar er að vekja athygli á og koma af stað umræðu um umhverfisvottun í ferðaþjónustu, með höfuðáherslu á umræðu um umhverfisvottun sem tæki til að ná fram sparnaði í rekstri. Grein þeirra fylgir hér á eftir. Nánar um ráðstefnuna. Umhverfisvottun í ferðaþjónustu Mikilvægi náttúrunnarNáttúran og ferðaþjónustan eru samofin víðast hvar í heiminum og er Ísland þar engin undantekning. Komið hefur fram í könnunum Ferðamálaráðs þegar erlendir gestir okkar eru spurðir hvað það var sem vakti forvitni þeirra á Íslandi að svar um áttatíu prósenta þeirra, er Íslensk náttúra.  Það er því engin furða að náttúra okkar og umhverfismál eru okkur hugleikin sem störfum í eða við íslenska ferðaþjónustu.  Ferðamálaráð hefur unnið markvisst að umhverfismálum síðasta áratuginn. Árið 1995 var ráðinn umhverfisfulltrúi til Ferðamálaráðs og hefur viðkomandi haft með höndum fræðslu til ferðaþjónustuaðila og umsjón með þeim framkvæmdum sem Ferðamálaráð hefur staðið að á áningarstöðum víða um land. Þessar framkvæmdir hafa verið unnar í samvinnu við heimamenn viðkomandi svæða, Vegagerðina, Náttúruvernd (nú Umhverfisstofnun) sem og aðra hagsmunaaðila á viðkomandi svæði. Þá hefur Ferðamálaráð veitt umhverfisverðlaun árlega frá 1995 til þess rekstrar- eða þjónustuaðila sem hefur þótt skara fram úr hvað varðar ábyrga stefnu í umhverfismálum.  En það er ekki nóg að byggja upp áningarstaði eða leggja göngustíga.  Rekstararaðilar sem og allir sem að greininni koma og reyndar sem flestir þurfa að sýna ábyrgð gagnvart umhverfinu þannig að komandi kynslóðir fái að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem við höfum fengið að dreypa á með okkar skilningarvitum. Umhverfisvottun það sem koma skalFerðaþjónustan er í eðli sínu nokkuð mengandi atvinnugrein en á sama tíma mjög háð umhverfi og náttúru.  Af þeirri ástæðu hefur ferðaþjónustan lagt sífelt meiri áherslu á umhverfismálin í sinni starfsemi til að viðhalda gæðum og möguleikum starfseminnar til framtíðar.  Í því skyni hefur verið lögð mikil áhersla á sjálfbæra þróun í ferðaþjónustunni. Íslenskir ferðaþjónustuaðilar hafa í auknum mæli sýnt málinu áhuga og eru nú æ fleiri rekstraraðilar farnir að leita til þriðja aðila um umhverfisvottun. Þessi þróun hefur verið nokkuð hröð á síðustu árum og eru nú 39 rekstraraðilar komnir í vottunar-ferli hér á landi, þar af hafa 9 aðilar fengið vottun, 32 af þessum aðilum vinna undir merkjum Green Globe 21, 2 með Norræna Svaninn, 4 með Bláfánann og 1 hefur verið vottaður samkvæmt ISO 14001 staðlinum. Hvað er umhverfisvottun?En hvað er umhverfisvottun? Í stuttu máli þá er umhverfisvottun staðfesting á að tiltekin starfsemi taki mið af staðfestri umhverfisstefnu og vinni í öllu eftir henni. Það er svo utanaðkomandi og óháður vottunaraðili sem tekur út og staðfestir hvort unnið hefur verið eftir þeirri stefnu. En þar sem ferðaþjónustan er mjög háð huglægu mati ferðafólks þá er mikilvægt að heildar ímynd áhrifasvæðis starfseminnar sé trúverðug, það er ekki nóg að einn rekstraraðili á viðkomandi svæði sýni ábyrgð ef allir sem í kringum hann eru huga lítt að þessum málum.  En sem betur fer þá hafa íslensk sveitarfélög sýnt málinu áhuga og á síðustu tveimur árum hafa 5 sveitarfélög á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull sameinast um markvissa uppbyggingu á umhverfisstefnu og hafa sótt um að fá vottun frá Green Globe 21, sem sjálfbært samfélag. Vitað er um nokkur sveitarfélög og jafnvel landshluta sem fylgjast grannt með þessu verkefni Snæfellinga.  Eftirtektarverður árangurÞað sem er áhugavert við þá þróun sem er að eiga sér stað hér á landi er að það virðist vera að flestir séu samstíga og skiptir þá einu hvort átt er við einstaka rekstraraðila, hagsmunasamtök eða opinbera aðila. Enda er eftir því tekið erlendis hvað hér er að gerast í þessum málaflokki og er farið að leita í smiðju okkar um hvernig unnið sé að þessum málum og er það vel.
Lesa meira

Styttist í kynningu fyrstu tilboða í tónlistar- og ráðstefnuhús

Undirbúningur vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhúss er á góðu skriði. Innan tíðar munu þeir þrír aðilar sem keppa um að fá verkið skila inn fyrsta tilboði sínu og farið verður yfir hugmyndir þeirra um verkefnið, tillögur og tilboð. Í janúar sl. lögðu þátttakendurnir, Fasteign, Portus og Viðhöfn, fram frumhugmyndir sínar og fengu umsagnir um þær í byrjun febrúar. En nú verða lögð fram fyrstu tilboð með kostnaðar- og rekstraráætlunum. Móttöku tilboða var frestað um viku til 9. maí, en kynning bjóðenda fyrir stjórn Austurhafnar og matsnefnd ásamt undirnefndum verður 11. og 12. maí. Aðferðafræðin kallast samningskaup og verða tillögur ekki sýndar opinberlega á meðan á umfjöllun um þær stendur í maí, að því er fram kemur á vef Austurhafnar. Stjórn Austurhafnar hefur sér til fulltingis samráðshóp til að vera stjórninni til ráðgjafar um gerð hússins. Í hópnum á m.a. sæti Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs. Gert er ráð fyrir að tillögur um næstu skref komi fram í byrjun júnímánaðar. Áætlað er að tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð verði tilbúin til notkunar í árslok 2008 og verði tekin í notkun á fyrsta ársfjórðungi 2009. Vefur Austurhafnar  
Lesa meira

Umhverfisstarf ferðaþjónustu á Íslandi vekur athygli erlendis

Í síðustu viku var haldin ráðstefna á Norður-Írlandi þar sem fjallað var um samþættingu umhverfisstjórnunar og ferðaþjónustu. Var m.a. leitað til Íslands eftir fyrirlesurum. Á ráðstefnunni var leitað svara við 4 meginspurningum.1. Eru sérstök tengsl á milli umhverfisstjórnunar og ferðaþjónustu?2. Hversu mikilvæg er umhverfisstjórnun í ferðaþjónustu?3. Getur ferðaþjónustan verið umhverfinu til hagsbóta?4. Hvernig vinnum við saman að því að styðja við og breiða út boðskap sjálfbærrar þróunar? Fyrirlesarar á síðari degi ráðstefnunnar. Elías Bj. Gíslason annar frá vinstri. Samstarf greinarinnar og hins opinberaFyrirlesarar komu nokkuð víða að en flestir þó frá Skotlandi, Englandi og Írlandi, auk Íslands og Frakklands. Fulltrúar Íslands voru Elías Gíslason, forstöðumaður upplýsinga og þróunarsviðs Ferðamálaráðs, og Ragnar Frank Gíslason, þjóðgarðsvörður í Skaftafelli. ?Ástæða þess að ráðstefnuhaldarar leituðu til Íslands eftir fyrirlesurum er sú að mönnum þykir forvitnilegt hversu vel hefur tekist til á Íslandi í þessum málaflokki. Sérstaklega þykir áhugavert hversu stóran þátt greinin sjálf átti í að ýta málinu úr vör og hversu vel greinin og hið opinbera vinna saman á þessum vettvangi,? segir Elías. Sérstaða ÍslandsÍ þessu sambandi segir Elías vert að hafa í huga að í öðrum löndum eru umhverfismál almennt ekki meðal hlutverka ferðamálaráða og Ferðamálaráð Íslands er, eftir því sem næst verður komist, eina opinbera ferðamálaráðið þar sem umhverfisfulltrúi starfar. ?Mikilvægi náttúrunnar og umhverfisins fyrir íslenska ferðaþjónustu er auðvitað vel þekkt og hefur margsinnis verið staðfest í könnunum Ferðamálaráðs meðal erlendra gesta. Því er afar ánægjulegt að sjá hversu aukið vægi þessum málum er fengið í nýrri þingsályktun um ferðamál,? segir Elías. Fyrirlesrar á fyrri degi ráðstefnunnar. Ragnar Frank Kristjánsson fyrir miðri mynd. Ráðstefnan var haldin af samtökum sem nefnast ?Causeway Coast and Glens Heritage Trust? eftir samnefndu héraði á Norður Írlandi. Á svæðinu er m.a. að finna ?Giant's Causeway? sem er á heimsminjaskrá UNESCO og einkum þekkt fyrir miklar stuðlabergsmyndanir. Þar er einmitt myndin hér til hliðar tekin.
Lesa meira

Þingsályktun um ferðamál samþykkt á alþingi

Alþingi samþykkti nú í morgun þingsályktun um ferðamál samhljóða. Með samþykkt áætlunar um ferðamál fyrir árin 2006-2015 er í reynd komin grunnur að stefnumótun stjórnvalda hvað varðar áherslur þeirra í þróun greinarinnar næstu 10 ár. Í áætluninni koma fram markmið, leiðir og áherslur stjórnvalda í fjölmörgum grunnþáttum greinarinnar. Þetta kom skýrt fram í máli Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra þegar hann mælti fyrir málinu er þar sagði m.a. ?Ferðaþjónustan er mjög vaxandi atvinnugrein hér á landi og því brýnt að henni sé mótuð skýr stefna til framtíðar af hálfu stjórnvalda. Atvinnurekendum og neytendum sé þannig ljóst á hverjum tíma hverjar séu áherslur hins opinbera gagnvart framtíðaruppbyggingu greinarinnar.? Geysilega mikilvægtMagnús Oddsson ferðamálstjóri var formaður stýrihóps sem vann þá tillögu fyrir samgönguráðherra sem ráðherrann byggði þingsályktunartillöguna á, sem nú hefur verið samþykkt  sem heildaráætlun í ferðamálaum. ?Það er geysilega mikilvægt að nú skuli í fyrsta sinn liggja fyrir slík áætlun frá Alþingi, sem er samþykkt eftir miklar almennar og jákvæðar umræður um ferðamál í þinginu síðustu vikur," segir Magnús. "Þetta hljóta að teljast ákveðin tímamót, því þó að unnið hafi verið í samræmi við stefnumótun útgefinni af samgönguráðuneyti fyrir árin 1996-2005, þá er munurinn sá að nú hefur ályktun með meginmarkmiðum í ferðamálum til næstu 10 ára verið samþykkt á Alþingi, sem gefur henni eðlilega annað og þyngra vægi við framkvæmd stefnu stjórnvalda 2006-2015,? segir Magnús. Lesa tillöguna í heild Skýrslu stýrihópsins sem ályktunin byggir á má nálgast á vef samgönguráðuneytsins.Ferðamálaáætlun 2006-2015 (PDF-skjal) Ljósmynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.  
Lesa meira