Fara í efni

Framtíð ferðaþjónustunnar í Skagafirði

Fjöður
Fjöður

Þriðjudaginn 7. júní verður blásið til kynningarfundar um stefnumótunarverkefnið "Ferðaþjónusta til framtíðar ? atvinnulíf og íbúar". Um er að ræða samstarfsverkefni Sveitarfélagsins Skagafjarðar og ferðamáladeildar Hólaskóla. Fundurinn hefst klukkan 20.00 og er haldinn í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Húsið verður opnað klukkan 19.30 og þá gefst gestum kostur á því að njóta sýnishorna úr Matarkistunni Skagafirði.

Í frétt frá þeim sem að verkefninu standa kemur fram að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ákveðið að vinna stefnumótun fyrir ferðaþjónustu í Skagafirði fyrir árin 2006-2010. Var samið við ferðamáladeild Hólaskóla um umsjón með og vinnu við gerð stefnumótunarinnar. Gildi ferðaþjónustu fyrir efnahags- og atvinnulíf á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og Skagfirðingar búa yfir margvíslegum auðlindum á sviði náttúru, mannlífs og menningar sem fela í sér sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna.  Samkeppni áfangastaða um hylli ferðamannsins fer hinsvegar sífellt harðnandi og því er mikilvægt að framtíðarsýnin um uppbyggingu skagfirskrar ferðaþjónustu sé skýr og vel mótuð.

Áhersla verður lögð á virkni grasrótarinnar í stefnumótunarferlinu þannig að sem víðtækust samstaða verði um niðurstöður. Það er því óskað eftir þátttöku fyrirtækja í þjónustu við ferðafólk, hins almenna íbúa og sveitarstjórnarfólks í verkefninu. Stefnumótunarvinnunni er þannig ætlað að verða gott tækifæri til að efla umræðu og vitund um ferðaþjónustuna í Skagafirði og um framtíð hennar. Ætlunin er að stefnumótuninni ljúki í upphafi næsta árs. Vinna við undirbúning hennar er þegar hafin með víðtækri upplýsingaöflun um ferðaþjónustuna í firðinum.

Það er von þeirra sem að fundinum standa að sem flestir mæti og taki frá upphafi virkan þátt í því að móta framtíðarsýn ferðaþjónustu í Skagafirði.


Fólkið á bakvið tjöldin ? þeir aðilar sem unnið hafa undirbúningi fundarins.