Fréttir

Klúbbur matreiðslumeistara fékk fjölmiðlabikarinn

Ferðamálaráð Íslands veitti Klúbbi matreiðslumeistara Fjölmiðlabikarinn á sýningunni "Matur 2002" sem nú er haldin í Kópavogi. Bikarinn er veittur fyrir umfjöllun um ferðamál. Í júní, árið 1982 kviknaði sú hugmynd innan Ferðamálaráðs að veita árlega viðurkenningu, fjölmiðlabikarinn, fyrir umfjöllun um ferðamál í fjölmiðlum. Síðan þá hefur fjölmiðlabikarinn verið veittur, reyndar ekki árlega, því ef ekkert eitt hefur staðið uppúr, hefur verðlaunaveitingunni verið sleppt. Þessi háttur hefur verið hafður til þess að vægi viðurkenningarinnar verði sem mest. Fjölmiðlabikar 2002Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, afhenti Gissuri Guðmundssyni, formanni Klúbbs matreiðslumeistara bikarinn og sagði við það tækifæri: "Kynningar íslenskra matreiðslumeistara á hámenningu okkar í matargerð hefur vakið mikla athygli erlendis og áhersla þeirra á úrvals hráefni og náttúrulegar afurðir hafa opnað augu ótalmargra á hreinni og óspilltri náttúru Íslands. Mikil umfjöllun um íslenskan mat og íslenskt hráefni í stórum og virtum erlendum fjölmiðlum hafa leitt af sér mikil greinarskrif um Ísland sem áskjósanlegan áningarstað fyrir sælkera sem vilja upplifa óspillta náttúru og ævintýralegt umhverfi um leið og gælt er við bragðlaukana á fyrsta flokks veitingahúsum. Markaðsátak íslenskra matreiðslumanna hefur auk þess dregið hingað til lands fjölda heimsþekktra og virtra matreiðslumanna sem hafa kynnt sér leyndardóma íslenska hráefnisins og matargerðarlistar. Þessir áhrifamenn í matarmenningu heimsins eru margir hverjir orðnir óformlegir kynningarfulltrúar lands og þjóðar, því heima fyrir deila þeir upplifun sinni með löndum sínum og viðskiptavinum. Fjöldi erlendra blaða- og fréttamanna hafa auk þess gert sér ferðir hingað til lands í því augnamiði að deila upplifun sinni á matnum, hráefninu og ævintýrum landsins með lesendum sínum, áhorfendum og hlustendum. Það er ljóst að íslenskir matreiðslumenn hafa lyft grettistaki með jákvæðri kynningu sinni á landi og þjóð. Og það er vel við hæfi að Ferðamálaráð Íslands veiti Klúbbi matreiðslumanna fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs nú á 30 ára afmælisári klúbbsins." Viðurkenningin er veitt fyrir umfjöllun um ferðamál í víðasta skilningi. Fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs var afhendur í fyrsta sinn árið 1982, þá Sæmundi Guðvinssyni fyrir skrif hans um ferðamál. Meðal annarra sem hlotið hafa þessa viðurkenningu eru Haraldur J. Hamar, vegna útgáfu Iceland Review, Sigurður Sigurðsson fyrir útgáfu ferðablaðsins Áfanga, Magnús Magnússon fyrir umfjöllum um Ísland í Bretlandi, Ríkisútvarpið vegna Stiklu-þátta Ómars Ragnarssonar, Örlygur Hálfdánason vegna útgáfu bóka um Ísland og Flugleiðir fyrir markaðsstarf sitt og síðast Gunnar Marel Eggertsson skipasmiður og skipstjóri víkingaskipsins Íslendings sem árið 2000 sigldi í kjölfar Leifs Eiríkssonar í tilefni 1000 ára afmæli landafundanna.  
Lesa meira

Þolmörk ferðamennsku í þjóðgarðinum í Skaftafelli

Ferðamálaráð Íslands hefur látið gera rannsókn á þolmörkum ferðamennsku á fimm vinsælum ferðamannastöðum með það að markmiði að bæta aðgengi fyrir ferðamenn, vernda landið og uppfylla væntingar ferðamanna, íslenskra sem erlendra. Staðirnir eru þjóðgarðurinn í Skaftafelli, Lónsöræfi, Landmannalaugar, Mývatnssveit og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri með stuðningi frá Rannís. Þolmörk ferðamennsku eru skilgreind sem sá hámarksfjöldi ferðamanna sem getur ferðast um svæði án þess að það leiði af sér óviðunandi hnignun á umhverfinu eða upplifun ferðamanna og íbúa svæðisins. Úrvinnslu rannsóknarinnar á þolmörkum þjóðgarðarins í Skaftafelli er lokið en árið 2000 voru gestir þjóðgarðarins 147.000. Þar af voru erlendir ferðamenn 106.000 eða 62% erlendra ferðamanna sem komu til landsins á tímabilinu maí til september þetta ár. 80% gestanna voru ánægðir með dvölina og sögðu náttúrlegt umhverfi Skaftafells hafa staðist væntingar þeirra. Þjóðgarðurinn virðist höfða til ólíkra hópa, jafnt þeirra sem sækjast eftir gönguferðum í óspilltri náttúru, sem og þeirra sem kjósa að slappa af við leik og störf í grennd við tjaldstæðið og þjónustumiðstöðina. Fjórðungi ferðamanna fannst helst til mikið um ferðamenn á þessum ferðamannastað.Viðhorf heimamanna til ferðamennskunnar var jákvætt, einkum með tilliti til jákvæðra efnahagslegra áhrifa. Rannsóknin leiddi í ljós að hluti stígakerfis þjóðgarðsins er í afturför og þarf því meira viðhald en verið hefur. Gróðurlendur þola umferð misjafnlega vel, unnt verður að taka tillit til þess við stígalagningar í framtíðinni. Rannsóknir sem þessar eru nauðsynlegar til þess að viðhalda og byggja upp eðlilega og nauðsynlega þjónustu á íslenskum ferðamannastöðum, til þess að verja náttúruna og stuðla að eðlilegri þróun og uppbyggingu ferðaþjónustu á landinu en ekki síst til þess að bregðast við og auka þolmörk ferðamannastaða, þar sem það er hægt, t.d. með aukinni stígagerð, bættum samgöngum og fleiru. Þolmörk ferðamannastaða-Skaftafell (pdf-3,3 Mb.)  
Lesa meira

Ávarp samgönguráðherra við opnun Ferðatorgs 2002

Það er mér sönn ánægja að opna Ferðatorg 2002. Ferðatorgið er lofsverð nýjung í markaðssetningu ferðaþjónustunnar innanlands. Hér er skapaður nýr vettvangur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki af öllu landinu, til að sýna og kynna það helsta sem þau hafa upp á að bjóða, nú þegar sumarleyfistími landsmanna er á næsta leyti. Markaðssetning sem þessi, er ákaflega mikilvæg, til að þeir möguleikar sem í boði eru til ferðalaga innanlands, komi til álita sem raunhæfur valkostur þegar ákvarðanir eru teknar um það hvernig frítíma skuli varið. Hér er á aðgengilegan hátt hægt að fá nákvæmar upplýsingar um það sem býðst í hverjum landshluta í flutningum, gistingu og afþreyingu. Fjölbreytileikinn er ótrúlegur og hægt er að fullyrða að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvar sem er á landinu. Þannig er hægt að opna augu okkar allra fyrir því, að það er alveg jafn áhugavert að ferðast um þessa stórkostlegu eyju, Íslandi, sem við byggjum eins og að ferðast um framandi lönd. Ég bind vonir við að Ferðatorg 2002 verði árviss viðburður, sem almenningur getur hlakkað til og kannað hverju sinn þá valmöguleika sem í boði eru til ferðalaga innanlands. Ferðatorg 2002 er lofsvert framtak Ferðamálasamtaka Íslands og Ferðamálaráðs. Er mjög við hæfi að opna Ferðatorg 2002 og hleypa jafnframt af stokkunum markaðsátaki innanlands undir slagorðinu "Ísland sækjum það heim". Hryðjuverkin í Bandaríkjunum höfðu mikil ákhrif á ferðaþjónustu um allan heim. Hratt var brugðist við breyttum aðstæðum íslenskrar ferðaþjónustu í kjölfar. Ég beitti mér fyrir í ríkisstjórn að ákveðið var 150 milljóna króna fjárveiting, til þess að draga úr yfirvofandi samdrætti í ferðaþjónustunni. Samkvæmt tillögu Ferðamálastjóra, sem falin var framkvæmd átaksins, var ákveðið að stórum hluta yrði varið í markaðssókn á erlendum vettvangi, aðallega í Bandaríkjunum og á okkar helstu markaðssvæðum í Evrópu. Auk þess var leitað samstarfs við nokkur íslensk fyrirtæki erlendis um kynningarstarf og voru viðtökur undantekningarlaust jákvæðar. Er það mat þeirra sem best til þekkja að umtalsverður árangur hafi náðst á síðustu mánuðum. Til verkefnisins innanlands, hefur verið ákveðið að verja alls 45 milljónum króna. Markmiðið með innanlandsátakinu er að hvetja landsmenn til að ferðast um Ísland og upplifa það á annan hátt en tíðkast hefur. Að kynna sér þann mikla fjölbreytileika sem einkennir íslenska ferðaþjónustu allan ársins hring í formi gistingar, veitinga og ekki síst afþreyingar. Þennan fjölbreytileika og gæði þess sem er í boði, eru erlendir ferðamenn búnir að uppgötva og nýta sér í æ ríkari mæli ár frá ári. Á hinn bóginn þykir ekki hafa tekist nægilega vel að opna augu landsmanna fyrir þessari staðreynd og því að fyrir þessa þjónustu þarf að greiða rétt eins og á erlendri grundu. Langtímaverkefnið er að fá Íslendinga til að læra að upplifa land og þjóð og ferðalög innanlands á sama hátt og þegar þeir ferðast erlendis, gefa sér meiri tíma til slökunar og afþreyingar, kynna sér umhverfi sitt og náttúru, sögu og menningu með opnum huga. Beri átakið árangur mun það ná að vekja athygli á markbreytilegum tækifærum til að ferðast um landið, árið um kring, og skapa hlý hughrif vegna einstakra eiginleika okkar fallega lands. Þykir mér sýnt að þannig muni landsmenn upplifa ferðalag innanlands sem engu minna ævintýri en ferðalag erlendis. Mikil gróska hefur verið í funda- og ráðstefnuhaldi hér á landi og á undanförnum árum hafa tekjur af þeirri þjónustu verið í stöðugum vexti. Sem dæmi má nefna að gera má ráð fyrir því að heildartekjur af ráðstefnugestum árið 2000 hafi verið nálægt 4 milljörðum króna þ.e. um 15% af gjaldeyristekjum greinarinnar. Eitt af því sem getur ráðið úrslitum í þróun ferðaþjónustu hér á landi er bygging ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík. Í síðustu viku var undirritað samkomulag um byggingu ráðstefnu- og tónlistarhúss og hótels í hjarta borgarinnar. Sú ákvörðun verður að vera lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna um allt land. Gera verður þá kröfu til þeirra sem byggja og reka ráðstefnumiðstöðina, að ráðstefnustarfsemi leiði til aukins ferðamannafjölda utan hins hefðbundna ferðamannatímabils, til hagsbóta fyrir íslenska ferðaþjónustu í heild. Ísland hefur ímynd hreinleika og öryggis. Breytt ferðamynstur og áherslur í ferðalögum um allan heim hafa opnað ný tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu, sem getur boðið upp á fyrsta flokks þjónustu í umhverfi sem er óspillt og laust við þá ógn sem hryðjuverk og glæpir skapa. Þá hefur orðið samstaða um að fara nýjar leiðir við markaðssetningu og skapa ný sóknarfæri, eitt dæmið um það er Ferðatorg 2002. Ágætu gestir Íslensk ferðaþjónusta á framtíðina fyrir sér. Ég hvet landsmenn alla til að ferðast meira um landið, gera það með opnum huga, skoða, hlusta, snerta og kynnast Íslandi eins og kynningarátakið hvetur til, það mun örugglega koma skemmtilega á óvart.Látum okkur líða vel á ferð um landið Ferðatorg 2002 er opnað. Góða ferð.  
Lesa meira

Gjaldeyristekjur 2001

Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans um gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu árið 2001 urðu þær rúmlega 7 milljörðum meiri en árið 2000.  Aukning tekna vegna eyðslu í landinu er tæpir 5 milljarðar, en í fargjaldatekjum rúmlega 2 milljarðar .   2000 2001 Breyting Tekjur alls: 30.459 37.720 23,8% Fargjaldatekjur: 12,492 14.839 18,8% Eyðsla í landinu: 17.967 22.881 27,34% Þegar tekið er tillit til gengisbreytinga á milli ára og áætlunar um dreifingu tekna eftir myntum virðist sem gera megi ráð fyrir að raunaukning geti verið um 1-2% í gjaldeyristekjum á milli ára. Magnús Oddsson 08.03 02.  
Lesa meira

Byrjað að telja ferðamenn aftur í Leifsstöð.

Loksins, loksins er aftur farið að hefja talningu á ferðamönnum í Leifsstöð eftir þjóðerni.
Lesa meira

Ísland öruggasti staðurinn.

Ísland er öruggasti ákvörðunarstaður ferðalanga, að mati bandaríska tímaritsins Blue og helsta grein nýjasta ferðablaðs The New York Times er um laxveiði hér- lendis. Einar Gústavsson, framkvæmdastjóri skrifstofu Ferðamálaráðs í New York segir þetta mjög ánægjulegt og sýni að kynningin á Íslandi í Bandaríkjunum hafi skilað sér. Í febrúar/mars -blaði Blue er forsíðumyndin frá Bláa lóninu og í ritinu kemur fram að vilji fólk forðast hryðjuverk sé Ísland öruggasti staðurinn. Patagonía er í öðru sæti, Suðurskautslandið í því þriðja, síðan Nýja - Sjáland, Alaska og Breska Kólumbía í Kanada í sjötta sæti. Í blaðinu er mikil umfjöllun um Ísland. Á sjö síðum eru stórar myndir frá Íslandi og síðan er viðtal við ljósmyndarann Oz Lubling um Íslandsferð hans, en í stuttri grein hvetur hann ferðalanga m.a. til að fara í Landmannalaugar, á Mývatn, ganga yfir Eldhraun og skoða Jökulsárgljúfur, sem hann líkir við Miklagljúfur og Niagara-fossa. Einar Gústavsson, framkvæmdastjóri skrifstofu FMR í New York, segir að þessi umfjöllun sé mjög ánægjuleg og skipti miklu máli. "Við vitum að Ísland er öruggasti staður í heimi og við erum meðvituð um ágæti landsins, en við segjum það ekki heldur aðrir og það hefur gríðarlega mikið að segja. Þetta hefur mikið að segja í allri kynningu um Ísland og hjálpar okkur mikið". (Úr Morgunblaðinu - 5. mars 2002)  
Lesa meira

Er seta í Ferðamálaráði ávísun á ráðherradóm?

Það virðist sem seta í Ferðamálaráði Íslands sé e.t.v. ávísun á eitthvað meira og stærra ef dæma má leiðir fyrrverandi formanns og varaformanns Ferðamálaráðs. Jón Kristjánsson var varaformaður ráðsins þegar hann var skipaður ráðherra heilbrigðis-og tryggingarmála í apríl á síðasta ári og nú tæpu ári seinna hverfur formaður FMR Tómas Ingi Olrich einnig til setu í ráðherrastóli því eins og kunnugt er tók hann við embætti menntamálaráðherra af Birni Bjarnasyni nú fyrir skemmstu.Ferðamálaráð þakkar þeim vel unnin störf og óskar þeim velfarnaðar.  
Lesa meira

Nýjar niðurstöður úr könnun Ferðamálaráðs

Niðurstöður úr könnun Ferðamálaráðs meðal erlendra ferðamanna fyrir tímabilið september 2000 - ágúst 2001 eru komnar út á geisladiski. Kannanir Ferðamálaráðs meðal erlendra ferðamanna nýtast ferðaþjónustufyrirtækjum, hagsmunasamtökum, ráðgjöfum og öðrum sem þurfa á upplýsingum að halda um síbreytilegan markað ferðamanna. Hvernig nýtast kannanir meðal ferðamanna? Meiri og betri þekking á viðskiptavinum Betri skipulagning markaðs-og kynningarmála Markvissari aðgerðir Greining sóknarfæra Betri nýting á markaðsfjármunum og samræming á markaðsvinnu Stuðningur við vöruþróun Stjórntæki við uppbyggingu og fjárfestingu í ferðaþjónustu Árangursríkari vinnubrögð Nánari upplýsingar fást á skrifstofu Ferðamálaráðs í Reykjavík, s. 535-5500. KÖNNUN FERÐAMÁLARÁÐS MEÐAL ERLENDRA FERÐAMANNASeptember 2000 - ágúst 2001 Efnisatriði Niðurstöður úr heilsárskönnun Ferðamálaráðs eru settar fram myndrænt í powerpointskjali, en út frá hverri mynd er hægt að skoða nánar niðurstöður eftir þjóðernum og einstökum breytum s.s. kyni, aldri, starfsstétt, tilgangi ferðar, tegund ferðar, tegund gistingar og fararmáta til landsins - þannig ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Auk þess er hliðstætt powerpoint skjal á ensku. Bakgrunnur- Þjóðerni- Búsetuland - Kyn- Aldur- Starfsstétt- TekjurÁkvörðunarferlið- Hvaðan kom hugmyndin að Íslandsferð?- Hve löngu fyrir brottför vaknaði hugmyndin?- Hve löngu fyrir brottför var tekin ákvörðun um að fara?- Hvaða þættir höfðu áhrif á að ferð var farin?- Kom til greina að ferðast til annars lands? - Höfðu svarendur komið áður og þá hve oft og á hvaða árstíma?- Hvaðan fengust upplýsingnar um Ísland?- Hve löngu fyrir brottför var ferðin bókuð? - Hvar var ferðin keypt?- Var ferðast á eigin vegum eða í pakkaferð?Ferðahegðun- Tilgangur ferðar- Með hverjum var ferðast?- Dvalarlengd og gistinætur- Í hvaða landshluta var gist?- Hvaða gistimáti var nýttur?- Hvaða ferðamáti var nýttur?- Hvaða afþreying var nýtt? - Var gisting bókuð fyrir eða eftir komu til Íslands? - Hvernig var gisting bókuð?Útgjöld- Meðalútgjöld í Íslandsferðinni- Útgjöld ferðalanga í pakkaferð og þeirra sem voru á eigin vegum- Hlutfallsleg dreifing útgjaldaHuglægt mat- Álit á einstökum þáttum ferðaþjónustunnar- Álit á verðlagningu einstakra þátta- Hvaða afþreyingar fannst svarendum mest til koma?- Hvaða þættir voru jákvæðastir og neikvæðastir við ferðina?- Hafa svarendur áhuga á að koma aftur og þá á hvaða árstíma og hvenær?- Hversu vel eða illa lýsa einstakar staðhæfingar ástandinu?- Hvaða staðir/svæði voru heimsóttir í ferðinni?- Var kynning á öryggisreglum og búnaði áður en lagt var af stað í ,,ævintýraferð"?- Voru farþegum kynntar mögulegar hættur í ,,ævintýraferð"?  
Lesa meira

Nýr formaður Ferðamálaráðs.

Einar Kr. Guðfinnsson hefur verið skipaður nýr formaður Ferðamálaráðs Íslands í stað Tómasar Inga Olrich sem hefur nú tekið við embætti menntamálaráðherra.Ferðamálaráð þakkar Tómasi Inga fyrir samstarfið og býður nýjan formann velkominn til starfa.  
Lesa meira

Gistinóttum og gestakomum fjölgar milli ára - feb.2002

Gistinóttum og gestakomum fjölgar milli áraUm 2% aukning varð í gistinóttum og gestakomum á hótelum milli áranna 2000 og 2001. Árið 2001 náði heildarfjöldi gistinátta rétt rúmum 773 þúsundum á móti 758 þúsundum nátta árið 2000. Gestakomum fjölgaði einnig á síðastliðnu ári úr 368 þúsund árið 2000 í 377 þúsund árið 2001. Ef litið er á ákveðin tímabil ársins 2001 á fjölgunin sér stað utan aðalferðamannatímans. Þannig fjölgar gistinóttum um 5% á tímabilinu janúar til apríl og um 4% á tímabilinu september til desember, en ekkert um miðbik ársins. Innlendum hótelgestum fækkar en erlendum fjölgarÁrið 2000 námu gestakomur Íslendinga 105.046 og gistinætur 167.377. Árið 2001 námu gestakomur Íslendinga hins vegar 95.172 og gistinætur 146.814. Hlutfallsleg fækkun gestakoma Íslendinga milli áranna 2000 og 2001 er því um 9% og gistinátta um 12%. Gistinætur útlendinga töldust hins vegar vera 35 þúsundum fleiri árið 2001 en árið 2000. Þær fóru úr 590.718 árið 2000 í 626.441 árið 2001. Gestakomum erlendis frá fjölgaði að sama skapi um rúmlega 19 þúsund milli áranna 2000 og 2001, úr 263.131 í 282.605. Íslenskir gestir dvelja að meðaltali 1,5 nótt á hóteli, sem er ívið styttra en meðaldvöl erlendra gesta, sem er 2,2 nætur. Bretum, Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum fjölgarGistinóttum Þjóðverja fjölgaði um 13 þúsund milli áranna 2000 og 2001, sama fjölgun varð einnig í gistinóttum Bandaríkjamanna, en árið 2001 gistu 46.869 Bandaríkjamenn 103.161 gistinótt á íslenskum hótelum á móti 40.275 Bandaríkjamönnum sem gistu 89.945 nætur árið 2000, sem telst um 15% aukning gistinátta. Árið 2001 fjölgaði breskum hótelgestum um fjórðung frá árinu 2000, en þá gistu 35.339 Bretar 93.880 nætur á hótelum hér á landi. Á síðastliðnu ári voru gestakomur Breta hins vegar 44.203 og gistinæturnar 117.265. Gistinóttum Norðurlandabúa annarra en Íslendinga fækkaði hins vegar um 11% milli áranna 2000 og 2001, fóru úr 166.998 nóttum árið 2000 niður í 148.494 í fyrra. Aukning gistinátta bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinniÁrið 2001 voru gistinætur á höfuðborgarsvæðinu 536 þúsund á móti tæplega 530 þúsundum árið 2000, sem þýðir um 1% aukningu. Gestakomur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu voru 220 þúsund árið 2001 en árið 2000 voru þær rétt tæp 213 þúsund. Aukning gistinátta var hlutfallslega meiri á landsbyggðinni eða um 4%, þar fóru þær úr 228 þúsundum árið 2000 í tæplega 237 þúsund árið 2001. Gestakomum fjölgaði einnig á landsbyggðinni úr 154 þúsundum árið 2000 í tæp 158 þúsund árið 2001, eða um 2%. ( Hagstofa Íslands febrúar 2002 )  
Lesa meira