Fara í efni

Gistinóttum og gestakomum fjölgar milli ára - feb.2002

Gistinóttum og gestakomum fjölgar milli ára
Um 2% aukning varð í gistinóttum og gestakomum á hótelum milli áranna 2000 og 2001. Árið 2001 náði heildarfjöldi gistinátta rétt rúmum 773 þúsundum á móti 758 þúsundum nátta árið 2000. Gestakomum fjölgaði einnig á síðastliðnu ári úr 368 þúsund árið 2000 í 377 þúsund árið 2001. Ef litið er á ákveðin tímabil ársins 2001 á fjölgunin sér stað utan aðalferðamannatímans. Þannig fjölgar gistinóttum um 5% á tímabilinu janúar til apríl og um 4% á tímabilinu september til desember, en ekkert um miðbik ársins.

Innlendum hótelgestum fækkar en erlendum fjölgar
Árið 2000 námu gestakomur Íslendinga 105.046 og gistinætur 167.377. Árið 2001 námu gestakomur Íslendinga hins vegar 95.172 og gistinætur 146.814. Hlutfallsleg fækkun gestakoma Íslendinga milli áranna 2000 og 2001 er því um 9% og gistinátta um 12%. Gistinætur útlendinga töldust hins vegar vera 35 þúsundum fleiri árið 2001 en árið 2000. Þær fóru úr 590.718 árið 2000 í 626.441 árið 2001. Gestakomum erlendis frá fjölgaði að sama skapi um rúmlega 19 þúsund milli áranna 2000 og 2001, úr 263.131 í 282.605. Íslenskir gestir dvelja að meðaltali 1,5 nótt á hóteli, sem er ívið styttra en meðaldvöl erlendra gesta, sem er 2,2 nætur.

Bretum, Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum fjölgar
Gistinóttum Þjóðverja fjölgaði um 13 þúsund milli áranna 2000 og 2001, sama fjölgun varð einnig í gistinóttum Bandaríkjamanna, en árið 2001 gistu 46.869 Bandaríkjamenn 103.161 gistinótt á íslenskum hótelum á móti 40.275 Bandaríkjamönnum sem gistu 89.945 nætur árið 2000, sem telst um 15% aukning gistinátta. Árið 2001 fjölgaði breskum hótelgestum um fjórðung frá árinu 2000, en þá gistu 35.339 Bretar 93.880 nætur á hótelum hér á landi. Á síðastliðnu ári voru gestakomur Breta hins vegar 44.203 og gistinæturnar 117.265. Gistinóttum Norðurlandabúa annarra en Íslendinga fækkaði hins vegar um 11% milli áranna 2000 og 2001, fóru úr 166.998 nóttum árið 2000 niður í 148.494 í fyrra.

Aukning gistinátta bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni
Árið 2001 voru gistinætur á höfuðborgarsvæðinu 536 þúsund á móti tæplega 530 þúsundum árið 2000, sem þýðir um 1% aukningu. Gestakomur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu voru 220 þúsund árið 2001 en árið 2000 voru þær rétt tæp 213 þúsund. Aukning gistinátta var hlutfallslega meiri á landsbyggðinni eða um 4%, þar fóru þær úr 228 þúsundum árið 2000 í tæplega 237 þúsund árið 2001. Gestakomum fjölgaði einnig á landsbyggðinni úr 154 þúsundum árið 2000 í tæp 158 þúsund árið 2001, eða um 2%.

( Hagstofa Íslands febrúar 2002 )