Fara í efni

Umhverfisverðlaun Ungmennafélags Íslands og Umhverfissjóðs verslunarinnar.

Ferðamálasamtökum Vestfjarða voru í gær, 28. janúar 2002, afhent umhverfisverðlaun Ungmennafélags Íslands og Umhverfissjóðs verslunarinnar fyrir árið 2001. Verðlaunin eru veitt fyrir markvissa miðlun á fróðleik um umhverfisvæna ferðaþjónustu, áherslu á útivist og umhverfisvernd við markaðssetningu Vestfjarða. Fram kom í máli Björns B. Jónssonar formanns Ungmennafélags Íslands að það væri orðið áberandi á landsvísu hversu vinsæl ferðaþjónusta á Vestfjörðum væri orðin. Sagði hann ljóst að þegar stefna Ferðamálasamtaka Vestfjarða var lögð á sínum tíma hefði hún verið framsýn og þá þegar byggt á þeirri grænu ferðaþjónustu sem hefur haslað sér völl á undanförnum árum og höfðar sífellt meira til ferðamanna. Þetta er í 6. sinn sem verðlaunin eru afhent en þau voru fyrst veitt árið 1996 og hafa eftirtaldir aðilar hlotið viðurkenninguna: Hótel Geysir, Sorpa, Austur-Hérað, Laugarnesskóli, Hvanneyrarstaður og núna Ferðamálasamtök Vestfjarða.

Til hamingju Vestfirðir!

(Bæjarins besta)