Fara í efni

Ísland öruggasti staðurinn.

Ísland er öruggasti ákvörðunarstaður ferðalanga, að mati bandaríska tímaritsins Blue og helsta grein nýjasta ferðablaðs The New York Times er um laxveiði hér- lendis. Einar Gústavsson, framkvæmdastjóri skrifstofu Ferðamálaráðs í New York segir þetta mjög ánægjulegt og sýni að kynningin á Íslandi í Bandaríkjunum hafi skilað sér.

Í febrúar/mars -blaði Blue er forsíðumyndin frá Bláa lóninu og í ritinu kemur fram að vilji fólk forðast hryðjuverk sé Ísland öruggasti staðurinn. Patagonía er í öðru sæti, Suðurskautslandið í því þriðja, síðan Nýja - Sjáland, Alaska og Breska Kólumbía í Kanada í sjötta sæti. Í blaðinu er mikil umfjöllun um Ísland. Á sjö síðum eru stórar myndir frá Íslandi og síðan er viðtal við ljósmyndarann Oz Lubling um Íslandsferð hans, en í stuttri grein hvetur hann ferðalanga m.a. til að fara í Landmannalaugar, á Mývatn, ganga yfir Eldhraun og skoða Jökulsárgljúfur, sem hann líkir við Miklagljúfur og Niagara-fossa.

Einar Gústavsson, framkvæmdastjóri skrifstofu FMR í New York, segir að þessi umfjöllun sé mjög ánægjuleg og skipti miklu máli. "Við vitum að Ísland er öruggasti staður í heimi og við erum meðvituð um ágæti landsins, en við segjum það ekki heldur aðrir og það hefur gríðarlega mikið að segja. Þetta hefur mikið að segja í allri kynningu um Ísland og hjálpar okkur mikið".

(Úr Morgunblaðinu - 5. mars 2002)