Áætlunarflug á milli Düsseldorf og Egilsstaða hefst í kvöld

Áætlunarflug á milli Düsseldorf og Egilsstaða hefst í kvöld
Norðurbryggja opnuð í dag

Viss tímamót verða í ferða- og samgöngumálum hér á landi þegar farþegaþota þýska flugfélagsins LTU lendir á Egilsstaðaflugvelli í kvöld. Þar með hefst vikulegt áætlunarflug á milli Düsseldorf og Egilsstaða og er þetta í fyrsta sinn sem erlent flugfélag hefur áætlunarflug til og frá Egilsstaðaflugvelli. Flogið verður alla föstudaga í sumar frá 7. júní til 30. ágúst.

Vegleg móttökuathöfn
Í tilefni af þessu fyrsta flugi LTU til Egilsstaða í sumar verður vegleg móttökuathöfn á Egilsstaðaflugvelli. Þar verða m.a. viðstaddir ráðherrar, alþingismenn, sendiherra Þýskalands á Íslandi, fulltrúar LTU, fulltrúar Terra Nova-Sólar umboðsaðila LTU á Íslandi, fulltrúar sveitarfélaga á Austurlandi, fulltrúar Flugmálastjórnar og fulltrúar Ferðamálaráðs. Flutt verða ávörp og fyrsti farþeginn sem stígur frá borði verður heiðraður sérstaklega. Hinir þýsku fulltrúar munu fagna þessum tímamótum að þýskum sið og austfirskir listamenn skemmta. Hópur þýskra blaðamann kemur með fluginu frá Þýskalandi og kynnir sér aðstæður á Austurlandi og víðar um land.

Þriggja ára undirbúningur
Í fréttatilkynningu segir að áætlunarflug LTU til Egilsstaða sé afrakstur þriggja ára mikillar undirbúningsvinnu Þróunarstofu Austurlands, Terra Nova Sólar og Ferðaskrifstofu Austurlands. LTU hefur flogið til Íslands frá því árið 1995 í góðri samvinnu við Terra Nova-Sól og með áætlunarflugi til Egilsstaða fjölgar ferðum LTU á milli Íslands og Þýskalands og eykur möguleika á ferðum Íslendinga til Þýskalands og öfugt. "Nýr áfangastaður, og um leið ný innkomuleið með flugi til Íslands, fjölgar möguleikum ferðaþjónustuaðila almennt við að auka fjölbreytni í framboði ferða til landsins og samkeppnisstaða Íslands batnar," segir í tilkynningunni.

Markaðssetning erlendis
Síðastliðinn vetur undirrituðu LTU, Ferðamálaráð Íslands, Ferðaskrifstofa Austurlands, Markaðsstofa Austurlands, Ferðamálasamtök Austurlands, Þróunarstofa Austurlands og Terra Nova-Sól, samkomulag sem felur í sér að þessir aðilar muni, í allt að þrjú ár, vinna að því að festa í sessi millilandaflug á Egilsstaðaflugvöll. LTU og Markaðsráð ferðaþjónustunnar hafa varið samtals 20 milljónum króna til markaðssetningar á Íslandi í Þýskalandi, í tengslum við opnun á Egilsstaðaflugvelli sem nýrri innkomuleið til landsins.

Nýr, hagkvæmur valkostur
Í tilkynningunni segir jafnframt af flug frá Egilsstaðaflugvelli til útlanda sé nýr og hagkvæmur valkostur fyrir íbúa á Austur- og Norðurlandi. Beint flug stytti ferðatímann, lækki ferðakostnað og auki þægindin. LTU flýgur til og frá Egilsstaðaflugvelli alla föstudaga fram að 30. ágúst næstkomandi og millilending á Keflavíkurflugvelli, á leiðinni út, gefur farþegum kost á að nýta sér þjónustu Fríhafnarinnar. Þegar komið er til Düsseldorf opnast fjölmargir ferðamöguleikar í Þýskalandi og víðar í Evrópu og einnig möguleikar á áframhaldandi flugi til fjölda áfangastaða LTU erlendis. Þota LTU, sem er af gerðinni Airbus A320, lendir á Egilsstöðum kl. 22:45, en skráning farþega í flugið hefst klukkustund áður.

Myndatexti:  Mynd frá Egilsstöðum.


Athugasemdir