Fara í efni

Klúbbur matreiðslumeistara fékk fjölmiðlabikarinn

Áætlun samgönguráðuneytisins á formennskuári í Norðurlandaráði
Áætlun samgönguráðuneytisins á formennskuári í Norðurlandaráði

Ferðamálaráð Íslands veitti Klúbbi matreiðslumeistara Fjölmiðlabikarinn á sýningunni "Matur 2002" sem nú er haldin í Kópavogi. Bikarinn er veittur fyrir umfjöllun um ferðamál.

Í júní, árið 1982 kviknaði sú hugmynd innan Ferðamálaráðs að veita árlega viðurkenningu, fjölmiðlabikarinn, fyrir umfjöllun um ferðamál í fjölmiðlum. Síðan þá hefur fjölmiðlabikarinn verið veittur, reyndar ekki árlega, því ef ekkert eitt hefur staðið uppúr, hefur verðlaunaveitingunni verið sleppt. Þessi háttur hefur verið hafður til þess að vægi viðurkenningarinnar verði sem mest.

Fjölmiðlabikar 2002Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, afhenti Gissuri Guðmundssyni, formanni Klúbbs matreiðslumeistara bikarinn og sagði við það tækifæri: "Kynningar íslenskra matreiðslumeistara á hámenningu okkar í matargerð hefur vakið mikla athygli erlendis og áhersla þeirra á úrvals hráefni og náttúrulegar afurðir hafa opnað augu ótalmargra á hreinni og óspilltri náttúru Íslands.

Mikil umfjöllun um íslenskan mat og íslenskt hráefni í stórum og virtum erlendum fjölmiðlum hafa leitt af sér mikil greinarskrif um Ísland sem áskjósanlegan áningarstað fyrir sælkera sem vilja upplifa óspillta náttúru og ævintýralegt umhverfi um leið og gælt er við bragðlaukana á fyrsta flokks veitingahúsum.

Markaðsátak íslenskra matreiðslumanna hefur auk þess dregið hingað til lands fjölda heimsþekktra og virtra matreiðslumanna sem hafa kynnt sér leyndardóma íslenska hráefnisins og matargerðarlistar. Þessir áhrifamenn í matarmenningu heimsins eru margir hverjir orðnir óformlegir kynningarfulltrúar lands og þjóðar, því heima fyrir deila þeir upplifun sinni með löndum sínum og viðskiptavinum.

Fjöldi erlendra blaða- og fréttamanna hafa auk þess gert sér ferðir hingað til lands í því augnamiði að deila upplifun sinni á matnum, hráefninu og ævintýrum landsins með lesendum sínum, áhorfendum og hlustendum.

Það er ljóst að íslenskir matreiðslumenn hafa lyft grettistaki með jákvæðri kynningu sinni á landi og þjóð. Og það er vel við hæfi að Ferðamálaráð Íslands veiti Klúbbi matreiðslumanna fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs nú á 30 ára afmælisári klúbbsins."

Viðurkenningin er veitt fyrir umfjöllun um ferðamál í víðasta skilningi. Fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs var afhendur í fyrsta sinn árið 1982, þá Sæmundi Guðvinssyni fyrir skrif hans um ferðamál. Meðal annarra sem hlotið hafa þessa viðurkenningu eru Haraldur J. Hamar, vegna útgáfu Iceland Review, Sigurður Sigurðsson fyrir útgáfu ferðablaðsins Áfanga, Magnús Magnússon fyrir umfjöllum um Ísland í Bretlandi, Ríkisútvarpið vegna Stiklu-þátta Ómars Ragnarssonar, Örlygur Hálfdánason vegna útgáfu bóka um Ísland og Flugleiðir fyrir markaðsstarf sitt og síðast Gunnar Marel Eggertsson skipasmiður og skipstjóri víkingaskipsins Íslendings sem árið 2000 sigldi í kjölfar Leifs Eiríkssonar í tilefni 1000 ára afmæli landafundanna.