Fara í efni

Aurum hlaut Njarðarskjöldinn

Njarðarskjöldur
Njarðarskjöldur

Njarðarskjöldurinn, hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar og samstarfsaðila til ferðamananverslunar ársins, var veittur í sextánda sinn í liðinni viku. hann kom að þessu sinni í hlut verslunarinnar Aurum, Bankastræti 4.

Markmið verðlaunanna er að hvetja til bættrar og aukinnar verslunarþjónustu við ferðamenn í Reykjavík. Að afhendingu  Njarðarskjaldarins ár hvert standa Reykjavíkurborg, Miðborgin okkar, Félag atvinnurekenda,  Kaupmannasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu,  Global Blue á Íslandi og Taxfree Worldwide – Ísland.

Við tilnefningu ferðamannaverslunar ársins er leitast við að verðlauna þá verslun sem hefur náð hvað bestum söluárangri til erlendra ferðamanna milli ára. Horft er  til markaðs- og kynningarmála, svo sem auglýsinga, vefs og útlits almennt. Aðrir þættir eru einnig skoðaðir sérstaklega svo sem þjónustulund, opnunartími, merkingar um endurgreiðslu virðisauka, lýsing,  tungumálakunnátta starfsfólks og þekking á söluvörunum.

Verslunin Aurum Bankastræti 4 sem hlýtur Njarðarskjöldinn að þessu sinni var sett á laggirnar árið 1999 að Laugavegi 27 í Reykjavík. Eigandi verslunarinnar, Guðbjörg Ingvarsdóttir, hafði þá nýlokið gullsmíða- og hönnunarnámi í Kaupmannahöfn.

Fyrst um sinn var helsta markmið Guðbjargar að bjóða uppá einstaka íslenska skartgripi, smíðaða og hannaða hérlendis af henni sjálfri. Hún sá strax tækifæri á íslenskum markaði þar sem að skartgripirnir sem hún smíðaði voru frábrugðnir því sem höfðu verið í boði í borginni.

Fljótlega eftir að Aurum opnaði vakti verslunin athygli hjá ferðamönnum vegna sérstöðu sinnar í skartgripahönnun. Skartið þótti og þykir enn vera bæði sérstakt og séríslenskt, þrívíðu formin og skýr en um leið abstrakt vísunin í íslenska náttúru þótti frumleg og fersk.

Árið 2008 hlaut Guðbjörg Íslensku sjónlistaverðlaunin. Dómnefnd verðlaunanna lét m.a.svo ummælt  að hönnuðurinn hafi „sprungið út“ í listsköpun sinni. „Hver skartgripalína er einstök og viðfangsefnin breytileg, en persónuleg og listræn efnistök Guðbjargar eru sterk í þeim öllum. Að baki hverri skartgripalínu er afmörkuð og markviss hugmynd þar sem hönnuðurinn leitar fanga í náttúrunni, í geometríska formhugsun miðalda og sjöunda áratugarins. Einnig má sjá handverksarfleið okkar Íslendinga bregða fyrir í gripunum,“ sagði í umsögn dómnefndar. 

Árið 2009 stækkaði Aurum verslun sína um meira en helming og bætti við hönnunar- og gjafavöru deild. Erlendir ferðamenn hafa orð á því að verslunin bjóði uppá gott úrval af gjafavöru sem þeir hafi ekki rekist á áður á ferðum sínum. Hönnunar- og gjafavaran sem Aurum býður upp á kemur víða að, bókstaflega frá öllum heimshornum og lögð er rík áhersla á fjölbreytni í vöruúrvali. Breitt úrval skartgripa vekur sömuleiðis athygli; ekki síst fjöldi skartgripalína eftir sama hönnuð. Einnig meta gestir og viðskiptavinir Aurum upplifunina mikils. Erlendum ferðamönnum sem og íbúum borgarinnar finnst gaman að heimsækja verslunina án þess endilega að vera í verslunarhug. Þannig virkar verslunin sumpart einsog gallerí þar sem augað rekst á eitthvað forvitnilegt og fallegt í hverju horni.

Mynd: Guðbjörg Ingvarsdóttir með Jóni Gnarr borgarstjóra (af reykjavik.is)