Fréttir

Ferðamenn erlendis frá aldrei fleiri

Heildarfjöldi erlendra ferðamanna árið 2011 var tæplega 566 þúsund og er um að ræða 15,8% aukningu frá 2010 en þá voru erlendir ferðamenn tæplega 489 þúsund talsins. Hafa ferðamenn aldrei verið fleiri á einu ári.
Lesa meira

Metár hjá Icelandair

Árið 2011 var metár hjá Icelandair, sem flutti 1750 þúsund farþega á árinu, eða fimmtungi fleiri en árið áður. Stefnt er að enn frekari fjölgun sæta á þessu ári að sögn framkvæmdastjóra félagsins. Icelandair Group birti í gærkvöldi flutningatölur fyrir árið 2011. Samkvæmt þeim fjölgaði farþegum um rúm 260 þúsund á síðasta ári, eða 18 prósent, en alls voru farþegarnir 1750 þúsund. Sætanýtingin var tæp 80 prósent, en hún jókst jafnframt um tæpt eitt prósentustig. Félagið hefur aldrei áður flutt jafnmarga farþega eða haft jafngóða sætanýtingu.
Lesa meira

NATA auglýsir eftir styrkumsóknum

Auglýst hefur verið eftir styrkumsóknum frá NATA, samstarfssamningi Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Í samræmi við áherslubreytingu sem nýr samningur landanna kveður á um er nú hægt að sækja um styrki til tvennskonar verkefna. Annars vegar verkefna í ferðaþjónustu, eins og verið hefur, og hins vegar ferðastyrki, t.d. vegna skólahópa, íþróttahópa eða menningarverkefna. Styrkir til verkefna í ferðaþjónustu Allir sem starfa að eflingu ferðaþjónustu á milli landanna þriggja geta sótt um styrk að hámarki 100.000 danskar krónur, eða að hámarki 50% þeirra kostnaðarliða sem styrktir eru. Skulu umsóknir fela í sér samstarf milli einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja í tveimur af löndunum þremur hið minnsta. Ekki eru veittir styrkir vegna launakostnaðar, ráðgjafar, útgáfu efnis eða vefsíðugerðar. Sækja má um aðstoð á eftirfarandi sviðum ferðaþjónustu. Til markaðssetningar. Til nýsköpunar- og – vöruþróunar. Í kynnisferðir á milli ferðaþjónustufyrirtækja. Til gæða- og umhverfismála innan ferðaþjónustunnar. Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi þátta: Verkefnishugmyndar og gæða umsóknarinnar. Ófullgerðar umsóknir verða ekki teknar til greina. Nýnæmis og nýsköpunargildis verkefnisins Markaðstengingar Kostnaðaráætlunar og annarrar fjármögnunar Samfélagslegs gildis Styrkir vegna kynnis- og námsferðaEitt af markmiðum samstarfssamnings um ferðamál á milli Íslands, Grænlands og Færeyja er að auka samskipti og fjölga heimsóknum á milli landanna þriggja. Því er stefnt að því að ráðstafa 25% af samningnum í slíka styrki. Ferðaþjónustuverkefni eru þó enn sem fyrr þungamiðjan í samningnum. Hér með eru auglýstir ferðastyrkir til þeirra sem vinna að samstarfsverkefnum sem varða tvö af löndunum þremur hið minnsta. Styrkjunum er einvörðungu ætlað að standa straum af ferðakostnaði, ekki gistingu eða uppihaldi. Hámarksstyrkur á hvern einstakling er  1.000 danskar krónur vegna ferðalaga milli Íslands og Grænlands annars vegar og Íslands og Færeyja hins vegar. Heildarstyrkur getur aldrei numið meira en 25% ferðakostnaðar. Samskipti skóla - árganga, bekkja - ganga að öðru jöfnu fyrir við mat á umsóknum. Sækja má um styrk til kynnis- og námsferða eftirtaldra: Skóla Íþróttahópa Tónlistarhópa Annars menningarsamstarfs Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi atriða: Verkefnishugmynd og gæði umsóknar. Ófullgerðar umsóknir verða ekki teknar til greina. Tilgangur ferðar Gagnkvæmni og tengslamyndun Kostnaðaráætlun, fjármögnun Hvar er hægt að sækja um?Allar umsóknir skulu vera á dönsku eða ensku á þar til gerðum eyðublöðum (á word-formi) sem nálgast má hér að neðan. Best er að byrja á að vista eyðublöðin á eigin tölvu áður en útfylling hefst. Umsókn vegna verkefna í ferðaþjónustu (Word) Danska - Enska Umsókn vegna kynnis- og námsferða (Word)  Danska - Enska Umsóknir sendist tilÓskað er eftir að skannaðar umsóknir með undirskrift allra samstarfsaðila verði sendar í tölvupósti til starfsmanns NATA, Mette K. Kibsgaard á netfangið mette@industry.fo Einnig er hægt að senda útfyllt eyðublöð í pósti til:NATA c/o FerðamálastofaGeirsgata 9101 Reykjavík SkilafresturLokafrestur til að skila umsókn er 13. febrúar 2012. Umsóknir eða fylgigögn sem berast eftir þann tíma verða ekki tekin gild. Svör við umsóknum verða send umsækjendum eigi síðar en 30. mars næstkomandi. Nánari upplýsingarNánari upplýsingar gefur Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri og formaður stjórnar NATA olof@ferdamalastofa.is
Lesa meira

SmartGuide North Atlantic - GPS Smáforrit

Snjallsögumaðurinn í Norður-Atlantshafi (SmartGuide North Atlantic), er nýtt smáforrit fyrir iPhone snjallsíma og iPads spjaldtölvur gefið út af íslenska fyrirtækinu Locatify og er fáanlegt í vefverslun Apple. Snjallsögumaðurinn segir sögur frá Færeyjum, Grænlandi, Íslandi og Norður-Noregi og kynnir menningu norðursins með myndum og skreyttum kortum. Forritið notar GPS tækni og fer sjálfkrafa af stað á réttum stöðum og segir frá því sem er í umhverfinu þannig að notandinn nýtur persónulegrar leiðsagnar. Einnig er hægt að njóta þess sem gagnvirkrar ferðabókar með því að fletta myndum og hlusta á frásagnirnar heima hjá sér. Forritið mun einnig vera í boði fyrir Android stýrikerfi síðar í janúar, segir í frétt frá Locatify. Norrænt samstarfThe SmartGuide North Atlantic er samstarfsverkefni fyrirtækisins Locatify á Íslandi, Kunningarstovan í Þórshöfn í Færeyjum, Greenland Sagalands í Qaqortoq á Grænlandi og OPUS - Vadso Videregående skole í Norður-Noregi. NORA, Norræna Atlantssamstarfið, veitti styrk til verkefnisins. Ný leið til að ferðastMeð snjallleiðsögnum er boðið uppá nýja þjónustu við ferðamenn á afskekktum svæðum. Þeir öðlast góðan skilning á sérstöðu hvers svæðis en menningar-og náttúruarfleifð er kynnt af fagmönnum í forritinu. Leiðsögn um Reykjanes Hlíf Ingibjörnsdóttir leiðsögumaður og Guðrún Ásmundsdóttir leikkona segja sögur af Reykjanesinu á íslensku. Séstök jarðfræði nessins er könnuð og jafnframt eru sögur af fólki, tröllum og álfum sagðar. Enska þýðing er einnig í boði. Ferðin hefst í Hafnafirði og Krísuvíkurleiðin er ekin að Bláa lóninu.
Lesa meira

Gistinætur heilsárshótela í nóvember

Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í nóvember síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Gistinóttum fjölgar um 13%    Gistinætur á hótelum í nóvember voru 79.500 samanborið við 70.400 í nóvember 2010. Gistinætur erlendra gesta voru um 73% af heildarfjölda gistinátta í nóvember en gistinóttum þeirra fjölgaði um 19% samanborið við nóvember 2010 á meðan fjöldi gistinátta Íslendinga var svipaður á milli ára. Gistinætur á hótelum á Austurlandi voru ríflega 2.000 í nóvember og fjölgaði um 90% frá fyrra ári. Á Suðurnesjum voru gistinætur 4.300 í nóvember sem er 44% aukning frá fyrra ári. Gistinætur á hótelum höfuðborgarsvæðisins voru 62.000 eða 16% fleiri en í nóvember 2010. Á Norðurlandi voru 3.300 gistinætur í nóvember sem eru um 3% aukning frá fyrra ári. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða fækkaði hinsvegar gistinóttum á milli ára, voru 1.400 samanborið við 1.800 í nóvember 2010. Gistinóttum fjölgar um rúm 13% fyrstu ellefu mánuði ársinsGistinætur á hótelum voru samtals 1.419.800 fyrstu ellefu mánuði ársins en voru 1.255.400 á sama tímabili árið 2010. Gistinóttum fjölgaði um 17% milli ára á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Á  Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 9%, á Norðurlandi um 6%, 4% á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða og um 3% á Suðurlandi. Á fyrstu ellefu mánuðum ársins hefur gistinóttum erlendra hótelgesta fjölgað um 13% og gistinóttum Íslendinga um 15% samanborið við fyrri ár..  
Lesa meira

Er öflug greining markhópa grunnur að auknum tekjum af ferðamönnum?

Fimmtudaginn 12. janúar stendur Íslandsstofa fyrir fræðslufundi um markaðs- og markhópagreiningar í ferðaþjónustu. Fundurinn fer fram á Grand Hótel Reykjavík kl 13-15.  Á fundinum mun William Harding, sérfræðingur frá Canadian Tourism Commission, kynna víðtækar markhópagreiningar sem framkvæmdar hafa verið fyrir kanadíska ferðaþjónustu á undanförnum árum. Kanadamenn eru mjög framarlega í markaðssetningu ferðaþjónustu og hafa m.a. þróað ýmis markaðstæki til þess að hámarka árangur í sölu ferða til landsins (sbr. ‚Explorer Quotient‘ (EQ)‚ ,Brand Toolkit‘ og ‚Experiences‘).  Einnig mun Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, kynna stöðu markaðssetningar í íslenskri ferðaþjónustu og ræða hvernig markaðsrannsóknir gætu með bestum hætti nýst henni. Fundarstjóri er Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda. Skráning fer fram á islandsstofa@islandsstofa.is eða í síma 511 4000 Nánari upplýsingar veita Brynja Bjarkadóttir verkefnisstjóri, brynja@islandsstofa.is ogHermann Ottósson forstöðumaður, hermann@islandsstofa.is Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson / arctic-images.com
Lesa meira

Teikningar af nýjum, vistvænum þjónustuhúsum fyrir fjölsótta ferðamannastaði

Nú eru aðgengilegar hér á vefnum teikningar að hinum nýju vistvænu þjónustuhúsum, sem Ferðamálastofa og Arkís arkitektar gerðu með sér samkomulag um að þróa fyrir fjölsótta ferðamannastaði. Um er að ræða lausn sem byggir á vistvænni hugsun og íslenskri byggingarhefð, er einfalt að laga að aðstæðum á hverjum stað, hefur hagnýtt notkunargildi og er á viðráðanlegu verði. Geta nýst á áningastöðum um allt landForsaga málsins er sú að á árunum 2010 og 2011 veitti Ferðamálastofa tveimur aðilum styrki í verkefni af þessum toga, þ.e. hönnun og byggingu þjónustuhúsa eða þjónustukjarna fyrir ferðamenn. Í báðum tilfellum sömdu viðkomandi aðilar við Arkís um verkið. Umrædd þjónustuhús, sem Arkís hannaði fyrir styrkhafanna, voru hluti af þjónustuhúsaeiningum sem fyrirtækið hafði hug á að þróa áfram. Í tengslum við vinnu Arkís fyrir ofannefnda styrkhafa, sem greidd var með styrkfé frá Ferðamálastofu, ákvað Ferðamálastofa því að ganga til samstarfs við fyrirtækið um að ljúka þróun og hönnun á þessum þjónustueiningum sem þannig gætu nýst á áningastöðum um allt land. Nánar um samninginnSamningurinn felur m.a. í sér teikningar og önnur hefðbundin hönnunargögn sem þarf til verksins en með hönnunargögnum er átt við arkitekta - og verkfræðiteikningar vegna burðarþols - og pípu- og raflagna auk magnskráa fyrir viðkomandi verkliði. Verklýsingar koma fram á teikningum. Upplýsingar um grunneiningar eru aðgengilegar hér að neðan. Væntanlegir notendur hönnunargagna munu semja beint við Arkís um notkunina. Gert er ráð fyrir að aðlaga þurfi gögn á hverjum stað fyrir sig og leggja fyrir byggingaryfirvöld viðkomandi staða. Þessa aðlögun tekur Arkís að sér gegn sérstöku föstu grunngjaldi. Gæða þjónustuhús á viðráðanlegu verðiMarkmið Ferðamálastofu með samningnum er að hægt sé að bjóða upp á teikningar fyrir gæða þjónustuhús til notkunar áfangastöðum ferðafólks. Byggingar með hagnýtt nokunargildi, á viðráðanlegu verði, hönnun sem byggir á vistvænni hugsun og er innblásin af íslenskri byggingarhefð. Grunnhugsunin er að bjóða lausnir sem miðast við raunverulega þarfir. Með vistvænni hönnun er leitast við að minnka losun úrgangs, varðveita auðlindir, draga úr kolefnislosun, bæta hönnun á lagnakerfum og velja viðhaldslítil efni. Markmið er að nota íslensk efni eftir því sem kostur er og að húsin falli vel að umhverfi sínu á hverjum stað. Mikill sveiganleikiSveigjanleikinn í útfærslu á hverjum stað er líka mikill. Með því að bæta við grunneinignum er auðvelt hægt að fá þá stærð af byggingu sem hentar. Húsin eru hönnuð fyrir bæði vatns- og þurrsalerni og með og án rafmagns. Þá er hvort heldur sem er hægt að smíða húsin á staðnum eða flytja á staðinn í einingum.   Alls eru grunneiningarnar fjórar:Hér að neðan er hægt að skoða og hlaða niður teikningum af hverri einingu um sig, bæði sem pdf-skal eða fletta á vefnum (HTML). Grunneining 1: Gerir ráð fyrir einu salerni, sem einnig er fyrir hreyfihamlaða, og þaki yfir borðaðstöðu úti.   PDF-útgáfa (12 MB) • Vefútgáfa, HMTL  Grunneining 2: Byggir á grunneiningu 1 og auk þess tveimur salernum til viðbótar. Þar er einnig  þak yfir borðaðstöðu úti.   PDF-útgáfa (9 MB) • Vefútgáfa, HMTL  Grunneining 3: Byggir á grunneiningu 2 og auk þess einu auka rými, sem getur verið aðstaða fyrir starfsmann, geymsla eða annað.   PDF-útgáfa (5 MB) • Vefútgáfa, HMTL  Grunneining 4: Byggir á grunneiningu 2 og 3. Eitt rýmið er mun stærra en hin og getur t.d. nýst fyrir litla verslun.   PDF-útgáfa (6 MB) • Vefútgáfa, HMTL Nánari upplýingarNánari upplýsingar veitir Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri í síma 535-5500 sveinn@ferdamalastofa.is Myndir:Að neðan á sjá eitt dæmi um hugmynd að útfærslu á grunneiningu 2.
Lesa meira

Ísland átti sviðið í jólaþætti QI

Ísland var heldur betur í sviðsljósinu hjá Bretum á dögunum en jólaþáttur hins geysivinsæla spurninga- og skemmtiþáttar QI hjá BBC var að stórum hluta helgaður Íslandi. Stjórnandinn er leikarinn góðkunni Stephen Fry. Eins og þeir sem horft hafa á þáttinn vita er hann gjarnan í léttum dúr og talsvert um óvæntar uppákomur. Gestir þáttarins eru líka þekktir fyrir að geta verið ólíkindatól hin mestu en það voru þeir Brian Blessed, Sean Lock, Ross Noble og Alan Davies. QI-þættirnir hafa verið í gangi frá árinu 2003 og í september hófst svokölluð I-þáttaröð, þ.e. allir þættirnir bera nafn sem byrjar á stafnum I. Jólaþátturinn nefndist einfaldlega Ice. Hægt er að horfa á þáttinn hér að neðan ef fyrsti hluti hans er helgaður Íslandi.  
Lesa meira

Umsóknarfrestur vega styrkja í Ísland allt árið ? þróunarsjóð

Vert er að minna á að nú er vika eftir af umsóknarfresti vegna Ísland allt árið -  þróunarsjóður, sem Landsbankinn og iðnaðarráðuneytið standa að. Markmið þróunarsjóðsins er að styrkja þróun afurða og upplifana utan háannatíma Ferðaþjónustu og auka arðsemi fyrirtækja. Annars vegar verður stutt við verkefni fyrirtækja sem lengt geta ferðamannatímann á tilteknum svæðum og hins vegar við samstarfsverkefni fyrirtækja sem vilja sameiginlega þróa þjónustu sem haft getur sömu áhrif víðar um landið. Í umsókn þurfa að koma fram skýrar hugmyndir um þá þjónustu og upplifun sem skila eiga í senn aukinni atvinnu og varanlegum verðmætum. Verkefnin verða að koma til framkvæmda innan þriggja ára frá því að styrkur er veittur. Umsóknarfrestur er til 10. janúar 2012 og er gert ráð fyrir að styrkir verði veittir í febrúar. Nánari kynning á verkefninu (PDF) Auglýsing um styrkina (PDF) Allar nánari upplýsingar er að finna á landsbankinn.is
Lesa meira