Fara í efni

Niðurstöður könnunar Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna sumarið 2011

Sumarkunnun 20111
Sumarkunnun 20111

Erlendir ferðamenn dvöldu að jafnaði 10,2 nætur á Íslandi sumarið 2011 og ferðuðust langflestir (79,6%) á eigin vegum. Tveir af hverjum þremur höfðu bókað ferðina innan fjögurra mánuða fyrir brottför og við ákvarðanatökuna höfðu langflestir (75,4%) aflað sér upplýsinga um Ísland á netinu. Bílaleigubíll var sá samgöngumáti sem flestir (46,0%) nýttu til ferða sinna um landið en vegakerfið er einn af þeim þáttum sem margir ferðamenn töldu að mætti bæta. Ferðin stóðst væntingar flestra og töldu langflestir (79,1%) líklegt að þeir myndu ferðast til Íslands aftur í framtíðinni og það að sumri til. Þetta er meðal niðurstaðna úr könnun sem Ferðamálastofa fékk MMR til að framkvæma meðal erlendra ferðamanna sumarið 2011.

Markmið könnunarinnar
Markmiðið með könnuninni var að afla upplýsinga um erlenda ferðamenn á Íslandi, aðdragandann að Íslandsferðinni, ferðahegðun þeirra á Íslandi, eyðsluhætti og viðhorf þeirra til ýmissa þátta íslenskrar ferðaþjónustu. Um var að ræða netkönnun en netföngum var safnað með skipulögðum hætti á brottfararsvæði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Norrænu ferjunnar á Seyðisfirði á tímabilinu 5. júlí-31. ágúst 2011. Úrtakið var 4.545 manns og var svarhlutfallið 51,9%.

Ísland sýnilegt á netinu og erlendum miðlum
Rúm 72% svarenda höfðu tekið eftir auglýsingum eða umfjöllun um Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn á síðustu þremur mánuðum eða áður en könnuninni var svarað. Tæplega helmingur hafði orðið var við umfjöllun eða auglýsingar á netinu, tæplega fimmtungur í sjónvarpi, tæplega fimmtungur í tímaritum og ríflega fimmtungur í dagblöðum.

Ákvörðunartökuferlið
Eins og í fyrri könnunum nefndu flestir svarenda (61,7%) náttúruna og landið almennt þegar spurt var um hvaðan hugmynd að Íslandsferð kom. Margir nefndu vini og ættingja eða 35,9%, 14,7% nefndu netið og 11,8% fyrri heimsókn. Aðrir þættir höfðu minni áhrif. Þegar spurt var hversu löngu fyrir brotttför hugmyndin að Íslandsferð kom til svöruðu 58,0% ár eða minna. Einn af hverjum fimm nefndi meira en fjögur ár. Tíminn frá bókun að brottför var hins vegar skemmri en fjórir mánuðir í 66% tilfella.  Mikill meirihluti sagði náttúruna (79,7%) hafa haft áhrif á ákvörðun um Íslandsferð 2011, en 38,6% nefndu íslenska menningu eða sögu; aldrei hafa fleiri nefnt þann þátt sem áhrifavald að Íslandsferð í könnunum Ferðamálastofu. Aðrir þættir komu þar langt á eftir s.s. hagstætt ferðatilboð (17,5%), möguleiki á viðkomu á Íslandi (11,8%) og dekur eða vellíðan (10,3%). Tæplega þriðjungur heimsótti önnur lönd í tengslum við Íslandsferðina.

Hvaða svæði og staðir voru heimsóttir
Langflestir erlendir ferðamenn heimsóttu höfuðborgarsvæðið eða 94,3% sumarið 2011, 72,0% heimsóttu Suðurlandið, 46,6% Reykjanesið, 45,0% Vesturlandið, 41,8% Norðurlandið, 36,3% hálendið, 32,2% Austurlandið og 13,9% Vestfirðina. Af 35 stöðum sem spurt var sérstaklega um vítt og breitt um landið sögðust flestir hafa heimsótt Þingvelli, Geysi eða Gullfoss (72,0%), Vík (52,4%), Skaftafell (47,6%), Skóga (45,3%), Akureyri (42,2%) og Mývatn (42,1%).

Hvaða afþreyingu greiða erlendir ferðamenn fyrir 
Eins og áður hafa erlendir ferðamenn á Íslandi einkum áhuga á náttúrutengdri afþreyingu. Þannig greiddu 70,5% fyrir sund eða náttúruböð, 46,2% fyrir söfn eða sýningar, 35,5% fyrir skoðunarferð með leiðsögn, 34,0% fyrir hvalaskoðun og 22,0% fyrir dekur og vellíðan. Fyrir hestaferð greiddu 17,3%, bátsferð 16,5%, jökla- eða vélsleðaferð 15,2% og göngu- eða fjallaferð með leiðsögn 14,5%.

Náttúrutengd afþreying skorar hæst 
Af þeim 35 ferðaþjónustuþáttum sem ferðamenn voru fengnir til að gefa einkunn á kvarðanum 0-10 voru þættir í tengslum við náttúrutengda afþreyingu í tveimur efstu sætunum með einkunn á bilinu 8,9 – 9,0. Þættir í tengslum við skyndibitastaði fengu hins vegar þrjár lægstu einkunnirnar eða á bilinu 6,7-7,1. Þættir í tengslum við gististaði fengu einkunn á bilinu 8,0-8,4, veitingastaði 7,5-7,9, heilsutengda afþreyingu 8,3-8,5, menningartengda afþreyingu 7,6-8,0, vegakerfið 7,4-8,1, upplýsingagjöf til ferðamanna 8,3 – 8,6  og þætti í tengslum við ferðamannastaði 8,0-8,6.

Hvað var minnisstæðast úr Íslandsferðinni og hvar liggja styrkleikarnir
Þegar svarendur voru spurðir að því hvaða þrjú atriði þeim hefðu þótt minnisstæðust við Íslandsferðina nefndu langflestir náttúrutengda þætti eða einstaka staði á landinu. Þannig nefndi 31,0% náttúruna og landslagið, 19,6% Bláa lónið, 13,5% fólkið og gestrisni, 12,6% Reykjavík og 12,4% Geysi eða Strokk.

Náttúran og landslagið skoruðu einnig hæst þegar spurt var um hvar styrkleikar Íslands í ferðaþjónustu lægju helst. Þar nefndu 71,6% náttúruna og landslagið en næst kom fólkið og gestrisni með 30,5%. Aðrir þættir voru; fjölbreytt afþreying (12,1%), menning og saga (11,2%), þjónusta og gæði almennt (9,3%), almenn upplýsingagjöf (8,5%), aðgengi og innviðir (8,5%), sérstaða landsins (7,7%), tungumálakunnátta (6,8%), þjónusta almennt í tengslum við skoðunarferðir (6,5%) o.s.frv.

Hvað má bæta í íslenskri ferðaþjónustu
Áhugavert er að skoða þau atriði sem nefnd voru þegar fólk var með sama hætti beðið um að nefna þrjá þætti sem helst mætti bæta í íslenskri ferðaþjónustu. Efst trónir vegakerfið en 16,4% töldu að það mætti bæta, næst kemur margskonar ferðaþjónusta (12,6%), verðlag almennt (12,6%), vegaskilti (8,8%), upplýsingar til ferðamanna (7,9%), þjónusta og fjölbreytni í tengslum við mat og veitingahús (7,4%), gæði á gistingu (5,8%), auglýsingar og markaðssetning á landinu (5,8%) svo eitthvað sé nefnt.

Um svarendur og könnunina
Konur voru 51,2% svarenda en karlar 48,8%. Meðalaldurinn var 39,6 ár en fjölmennastir voru svarendur á aldursbilinu 25-34 ára (30,6%). Af einstaka þjóðernum voru flestir svarendur bandarískir (13,7%), þýskir (13,3%) og franskir (9,2%). Skipt eftir markaðssvæðum voru 43,8% svarenda frá Mið- og Suður- Evrópu, 20,2% frá Norðurlöndunum, 17,7% frá N-Ameríku, 8,6% frá Bretlandi og 9,7% frá öðrum löndum. Tæp 47% svarenda voru með há laun eða laun yfir meðallagi, rúm 39% með laun í meðallagi og tæp 14% með lág laun eða laun undir meðallagi.

Skýrslurnar í heild má nálgast hér að neðan, bæði á íslensku og ensku. Þær breytur sem greina má niðurstöður eftir eru kyn, aldur, starf, heimilistekjur, þjóðerni, markaðssvæði, tilgangur ferðarinnar, fararmáti til landsins og tegund ferðar þ.e. hvort um var að ræða ferð á eigin vegum eða pakkaferð.