Fara í efni

Katla jarðvangur fær inngöngu í samtök jarðvanga í Evrópu

Katla geopark
Katla geopark

Katla jarðvangur (Katla Geopark) hefur fengið inngöngu í European Geopark Network (EGN) og Global Network of Geoparks (GGN). Aðilar frá Evrópusamtökunum komu til landsins í sumar til að taka verkið út og hefur umsókn Kötlu jarðvangs nú verið samþykkt.

Hugmyndin um stofnun jarðvangs (geopark) á Suðurlandi kviknaði á vettvangi fyrsta átaksverkefnis Háskólafélags Suðurlands (www.hfsu.is) 2008. Átaksverkefnið tók til sveitarfélaganna þriggja sem eru austast á svæðinu; Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra. Fljótlega mótaðist sú hugmynd að eitt af áhersluatriðum verkefnisins yrði eldvirkni svæðisins. Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur var fengin til þess að gera samantekt um jarðfræði svæðisins. Lovísa kynnti fyrir stjórn verkefnisins hugtakið European Geopark og má segja að þá hafi teningnum verið kastað. Verkefnið fékk góðar viðtökur, bæði meðal sveitarstjórnarmanna og ferðaþjónustuaðila á svæðinu, og 19. nóvember 2010 var jarðvangurinn stofnaður formlega sem sjálfseignarstofnun á fundi í Brydebúð í Vík í Mýrdal.

Stórt skref
Ljóst er að aðild að EGN er mikilvægur áfangi í uppbyggingu jarðvangsins. „Við bjuggumst varla við að okkur tækist að komast inn í fyrstu tilraun en umsóknin fékk fína einkunn. Þetta verður vonandi stórt skref fyrir ferðaþjónustu og atvinnulíf á Suðurlandi,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, dósent við Háskóla Íslands, sem er meðal þeirra sem unnið hafa að verkefninu.

Nýr kynningarbæklingur
Þess má einnig geta að Katla jarðvangur hefur gefið út nýjan bækling um kynningu á verkefninu. Bæklinginn má nálgast á vef Kötlu jarðvags. Myndin sem hér fylgir er einmitt úr bæklingnum.

Um European Geoparks Network
Hugmyndin á bakvið European Geoparks Network (EGN) er að koma á tengslum milli svæða með áhugaverðum jarðminjum sem gætu þá unnið að því að miðla upplýsingum, þekkingu og reynslu sín á milli, með það fyrir augum að leysa sameiginleg vandamál og koma svæðunum á framfæri. Frá upphafi hefur megin áherslan verið á skýra stefnu um sjálfbæra þróun sem myndi stuðla að verndun jarðminja. Evrópusambandið styrkti hugmyndirnar og í framhaldi varð til samstarf fjögurra garða sem stofnuðu European Geoparks Network árið 2000. Markmið samtakanna er að koma jarðminjum á framfæri, vernda þær og stuðla að sjálfbærri efnahagslegri þróun innan garðanna með því meðal annars að þróa jarðferðamennsku (Geotourism).

Með tengslanetinu er m.a. boðið upp á miðlun á þekkingu og reynslu meðal aðildarfélaga og gæðavottun fyrir svæði með merkilegar jarðminjar innan Evrópu. Náið samstarf við hvers konar starfsemi innan svæðisins með því að kanna og styðja við nýjar framleiðsluafurðir með að markmiði að kynna jarðminjar og efla ábyrga efnahagslega þróun.
Árið 2001 lýsti jarðvísindadeild UNESCO yfir stuðningi við European Geoparks Network og í framhaldinu, árið 2004, var stofnað alþjóðlegt tengslanet jarðgarða UNESCO Global Geoparks Network (GGN). Þannig að í dag verða þeir garðar sem fá inngöngu í European Geopark Network sjálfkrafa meðlimir í UNESCO Global Geopark Network.