Fara í efni

Vestnorden ferðakaupstefnan haldin í 26. sinn

vn 2010
vn 2010

Vestnorden ferðakaupstefnan hófst í Þórshöfn í Færeyjum í morgun og er þetta sú 26. í röðinni. Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands, standa að Vestnorden. Er kaupstefnan haldin til skiptis af löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Að þessu sinni er framkvæmdin á hendi Færeyinga.

Kaupendur víða að
Á Vestnorden koma saman ferðaþjónustuaðilar á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum og kaupendur ferðaþjónustu, eða ferðaheildsalar, víðs vegar að úr heiminum. Formleg dagskrá Vestnorden hófst með ráðstefnu í Norræna húsinu þar sem meðal annars voru kynningar frá öllum löndunum. Eftir hádegi hefst hin eiginlega kaupstefna með fyrirframbókuðum fundum seljenda og kaupenda. Tæplega 120 fyrirtæki frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi eru nú skráð og kynna vöru og þjónustu fyrir kaupendum. Íslensk fyrirtæki eru flest eins og jafnan áður eða um rúmlega 70 talsins að þessu sinni. Ferðaheildsalarnir eða kaupendurnir eru rúmlega 80 talsins og koma meðal annars frá Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Kína, Japan, Bretlandi, Norðurlöndunum og meginlandi Evrópu. Þá koma einnig til kaupstefnunnar blaðamenn og boðsgestir.

Eftir að kaupstefnunni lýkur, á hádegi miðvikudaginn, gefst ferðaheildsölunum kostur á að fara í  kynnisferðir til Íslands og Grænlands. Nánari upplýsingar um dagskrá og þátttakendur á Vestnorden 2011 er að finna á vefsíðunni www.vestnorden.com. Meðfylgjandi mynd var tekin á Vestnorden á Akureyri í fyrrahaust.