Fréttir

Samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu umfjöllunarefni Ferðamálaráðstefnunnar 2005

Nú liggur fyrir að ferðamálaráðstefnan 2005 verður haldin á Radisson SAS Hótel Sögu í Reykjavík dagana 27.-28. október næstkomandi. Meginumfjöllunarefni verður Samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu. Nánari dagskrá og fyrirlesarar verða kynnt síðar en málið verður reifað frá ýmsum hliðum, svo sem rekstrarlega, markaðslega, umhverfislega, menningarlega o.fl. Þá verður jafnframt á ráðstefnunni kynnt það nýja stjórnsýsluumhverfi sem tekur gildi 1. janúar næstkomandi með nýjum lögum um skipan ferðamála. Opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustuRáðstefnurnar eru jafnan fjölsóttar enda er hér kjörinn vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til að hittast og stilla saman strengi sína. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu og mikilvægi hennar fyrir ferðaþjónustuna lýsir sér á fleiri en einn hátt. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða. Mynd: Ingi Gunnar Jóhannsson    
Lesa meira

Fundað með ferðaþjónustuaðilum í Húnaþingi vestra

Í gær voru Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, og Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs stofnunarinnar, á ferð í Húnaþingi vestra. Funduðu þeir með heimamönnum og tóku púlsinn á ferðaþjónustu svæðisins. Stefnt á opnun Selaseturs næsta vorFyrst var fundað á Gauksmýri með forsvarsmönnum Selasetursins á Hvammstanga. Þar var m.a. rætt um framtíðaráform Selasetursins, fjármögnunarleiðir og fleira. Markmið Selasetursins eru að reka sýningu og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn á Hvammstanga og stuðla að almennri þekkingu um sjávarspendýr, náttúrufar og búskaparhætti við strendur Vatnsness. Eru þar víða góðar aðstæður til að skoða seli í sínu náttúrulega umhverfi. Er stefnt á að opna Selasetrið næsta vor. Grettir sterki í forgrunniÞá var einnig fundað á Gauksmýri með forsvansmönnum Grettistaks en markmið þess verkefnis eru að efla menningu og atvinnulíf í Húnaþingi vestra með því að nýta menningararf og sögu svæðisins. Eins og nafnið ber með sér er þar Grettir sterki Ásmundsson og saga hans í forgrunni. Er m.a. unnið að uppbyggingu fræðaseturs á Laugarbakka sem hlotið hefur nafnið Grettisból. ?Báðir þessir fundir voru ákaflega fróðlegir og gagnlegir og tengjast vel þeirri miklu gerjun sem nú á sér stað víða um land á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu,? segir Elías. Almennur fundur á HvammstangaUm kvöldið var síðan boðað til almenns fundar með ferðaþjónustuaðilum svæðisins og var hann haldinn á Hvammstanga. Fundurinn var vel sóttur og bar margt á góma. ?Við fórum m.a. yfir og skýrðum út hlutverk og starfsemi Ferðamálaráðs og fræddumst hjá heimamönnum um það sem er efst á baugi hjá þeim. Þannig held ég að fundurinn hafi verið afar gagnlegur fyrir alla aðila,? segir Elías. Mynd: Hvítserkur við Vatnsnes.  
Lesa meira

Hagvöxtur á heimaslóð á Vestfjörðum

Í haust hefst á Vestfjörðum þróunarverkefnið Hagvöxtur á heimaslóð. Það er ætlað stjórnendum ferðaþjónustufyrirtækja og er markmiðið að aðstoða þá við að innleiða skipulögð og árangursrík vinnubrögð við markaðssetningu, stjórnun og vöruþróun. Jafnframt að nýta betur þau tækifæri sem fyrir hendi eru á hverju svæði. Verkefnið var fyrst reynt síðastliðinn vetur með ferðaþjónustufyrirtækjum á Vesturlandi. Útflutningsráð stendur að verkefninu í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Impru nýsköpunarmiðstöð, LandsMennt, Mími-símenntun, Ferðamálasetur Íslands og Byggðastofnun. Verkefnið hefst í október og stendur til mánaðamótanna janúar/febrúar. Haldnir verða fjórir tveggja daga vinnufundir þar sem áherslan verður lögð á vöruþróun, markaðssetningu og klasamyndun. Verkefnið á Vesturlandi skilaði mjög góðum árangri og er þess vænst að forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækja á Vestfjörðum sjái sér einnig hag í því að taka þátt.? Nánari upplýsingar veitir Guðjón Svansson, verkefnisstjóri hjá Útflutningsráði, í síma 511 4000 eða með tölvupósti, gudjon@utflutningsrad.is.  
Lesa meira

Erlendum ferðamönnum fjölgar í júní og júlí

Talningar Ferðamálaráðs á erlendum ferðamönnum sem fara um Leifsstöð sýna að fjölgun er á erlendum ferðamönnum í júní og júli borið saman við síðasta ár. Í júní fjölgar erlendum ferðamönnum um 7,3% og í júlí fjölgar ferðamönnum um 1,4%%. Aukning frá USA þrátt fyrir óhagstætt gengiAð sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs er einkar ánægjulegt að sjá vöxt báða þessa mánuði ofan á mikinn vöxt síðustu missera. ?Það vekur sérstaklega athygli að góð aukning er á komum Bandaríkjamanna, þrátt fyrir lágt gengi dollars og hátt gengi íslensku krónunnar?, segir Ársæll og bætir við að aukning í sætaframboði til Bandaríkjanna, markviss markaðssetning og fjölmiðlaumfjöllun séu helstu ástæður þessa árangurs. Aukning frá Bretlandi en fækkun frá Þýskalandi og NorðurlöndumFrá Bretlandi er lítilsháttar aukning bæði í júní og júlí, frá Þýskalandi er lítilsháttar aukning í júni en nokkur fækkun í júlí. Ferðamönnum frá Norðurlöndum fækkar lítillega sem heild, en þó ekki frá Danmörku. Tæpir 200.000 ferðamenn fyrstu sjö mánuðinaFjöldi ferðamanna fyrstu sjö mánuði ársins eru rétt tæp 200.000, sem er mjög nærri og á sama tíma í fyrra, en munurinn er undir einu prósenti. Fjöldi ferðamanna um Leifsstöð, í júní og júlí, 2004 og 2005   jún.04 jún.05 júl.04 júl.05 Kanada 378 398 774 516 Sviss 618 498 3.161 2.561 Þýskaland 4.666 4.714 10.691 8.623 Danmörk 3.269 3.377 6.395 7.128 Spánn 438 438 1.287 1.563 Finnland 1.139 1.038 1.195 1.556 Frakkland 2.138 2.358 5.492 5.272 Bretland 5.812 5.875 7.541 8.044 Ísland 39.694 46.171 36.394 41.516 Ítalía 751 867 2.292 1.915 Japan 426 482 1.224 621 Holland 1.115 1.201 2.185 2.083 Önnur lönd 5.555 6.284 7.979 9.998 Noregur 2.855 2.455 2.939 2.986 Svíþjóð 2.741 2.806 3.798 3.586 Bandaríkin 6.263 8.165 7.322 8.740 Heildarniðurstöður má finna undir liðnum Tölfræði hér á vefnum. Mynd: Skemmtiferðaskip sigir inn Eyjafjörð.Ferðamálaráð/HA
Lesa meira

Gistinætur og gestakomur á hótelum í júní

Gistinóttum á hótelum í júní síðastliðnum fjölgaði um tæp 8% milli ára. Þetta eru niðurstöður gistinátttalningar Hagstofunnar sem birtar eru mánaðarlega. Gistinætur á hótelum í júní síðastliðnum voru 121.900 en voru 113.300 árið 2004. Hlutfallslega varð mesta aukningin á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinætur fóru úr 10.150 í 12.450 (23%). Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum úr 71.100 í 79.480 (12%) milli ára og á Austurlandi úr 4.760 í 4.900 (3%). Gistinóttum á hótelum í júní fækkaði hinsvegar á Norðurlandi (-4%) og á Suðurlandi (-11%).Í júní árið 2005 voru gistinætur Íslendinga á hótelum 18.740 á móti 14.680 árið á undan, sem er tæplega 28% aukning. Gistinóttum útlendinga á hótelum fjölgar hlutfallslega minna eða um 5% milli ára, úr 98.620 í júní árið 2004 í 103.170 í júní árið 2005.
Lesa meira