Fara í efni

Metfjöldi farþega hjá Icelandair

Ísland kynnt sem ákjósanlegur áfangastaður til ráðstefnuhalds og móttöku hvataferða
Ísland kynnt sem ákjósanlegur áfangastaður til ráðstefnuhalds og móttöku hvataferða

Farþegar Icelandair í júlí síðastliðnum voru rúmlega 214 þúsund og hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði í sögu félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Farþegum fjölgaði um 16,2% frá því í júlí í fyrra en þá voru farþegarnir 184 þúsund. Farþegafjöldinn í júlí í ár samsvarar því að félagið hafi flutt um 70% íslensku þjóðarinnar í mánuðinum, en sú er ekki raunin, því mikill meirihluti farþeganna eru erlendir, segir í frétt félagsins. Icelandair flutti tæplega sjö þúsund farþega að jafnaði daglega í júlí. Framboðið í júlí, var 23% meira en á síðasta ári og sætanýting var 86,6% eða 0,1 prósentustigi betri en í júlí í fyrra. Frá áramótum hefur farþegum Icelandair fjölgað um 13,5% og eru 882 þúsund. Sætanýting hefur batnað um 2,3 prósentustig og er það sem af er árs 76,9%. Í fréttinni kemur einnig fram að fartímum (block-hours) í leiguflugi Loftleiða-Icelandic hefur fjölgað um 42,6% í júlí og um 21,7% frá áramótum. Farþegum Flugfélags Íslands í innanlandsflugi fækkaði um 3% í júlí og voru tæplega 29 þúsund. Þeim hefur hins vegar fjölgað frá áramótum um 4,6%.