Tilkynning frá SAF vegna frétta um ástand brunavarna á gististöðum

Samtök Ferðaþjónustunnar sendu í dag frá sér fréttatilkynningu vegna umfjöllunar í fjölmiðlum á dögunum um ástand brunavarna á gististöðum. Þar er m.a. ákveðnum spurningum beint til brunayfirvalda í landinu.

Gististaðir með óviðunandi brunavarnir eiga ekki að hafa starfsleyfi

Vegna umfjöllunar um ástand brunavarna á gististöðum og viðtals við brunamálastjóra í fjölmiðlum um helgina vilja Samtök ferðaþjónustunnar taka fram eftirfarandi:

Það er óþolandi fyrir ferðaþjónustuna í landinu að Brunamálastofnun skuli ítrekað birta skýrslur um að tiltekinn hluti gististaða í landinu, hvort sem það eru veiðihús, heimavistaskólar eða aðrir gististaðir, séu með slæmt eða óviðunandi ástand á brunavörnum sínum.

Allir þessir gististaðir þurfa starfsleyfi skv. lögum um veitinga- og gististaði og eru þau ekki veitt nema viðkomandi eldvarnareftirlit gefi jákvæða umsögn til sýslumanns. Skýring á þessu ástandi getur því aðeins verið sú að brunamálayfirvöld eða sýslumenn á viðkomandi svæðum veiti leyfi án þess að uppfylla ákvæði laga og reglugerða. Spurning samtakanna til brunamálayfirvalda hlýtur að vera sú: Hvers vegna hafa gististaðir sem fá einkunnina "óviðunandi" eða "slæmt" fengið starfsleyfi?
Öryggismál eru mikilvægt viðfangsefni Samtaka ferðaþjónustunnar sem hafa oft gengið á fund brunamálastjóra í gegnum tíðina og óskað eftir samstarfi og gerðu m.a. sömu athugasemdir við skýrslu sem kom út árið 2000 og nú eru gerðar.

Nánari upplýsingar gefur
Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri
Samtök ferðaþjónustunnar
Gsm: 822-0057

 


Athugasemdir