Flokkuðum gististöðum fjölgar

Að undanförnu hefur fjölgað þeim gististöðum sem taka þátt í flokkun gististaða með stjörnugjöf. M.a. hafa nú öll KEA hótelin verið flokkuð, einnig Hótel Þórshamar í Vestmannaeyjum og fleiri bíða eftir úttekt.

Eins og greint var frá fyrr á árinu hefur sú breyting orðið á framkvæmd flokkunarinnar að gististaðir eru heimsóttir og skoðaðir af starfsmanni Ferðamálaráðs en ekki utanaðkomandi verktaka eins og verið hefur. Öldu Þrastardóttur verkefnisstjóra hjá Ferðamálaráði var falið verkefnið og hefur hún farið vítt og breitt um landið síðustu vikur til að taka út gististaði. Með þessari breytingu, ásamt öðrum skipulagsbreytingum, var hægt að lækka kostnað við flokkunina um 20% og tók ný gjaldskrá gildi fyrr á árinu. M.a. er nú ódýrara fyrir minni gististaði að taka þátt.

Nýtt flokkunarviðmið
Þá má geta þess að nýtt flokkunarviðmið hefur verið samþykkt og verða gististaðir flokkaðir eftir þessu nýja viðmiði frá og með 1. janúar 2005. Breytingar þær sem nú hafa verið samþykktar eru hliðstæðar nýjum viðmiðum er tóku gildi í Danmörku um sl. áramót og gististaðir í Svíþjóð, Grænlandi og Færeyjum eru flokkaðir eftir.

Nánar um flokkun gististaða

 


Athugasemdir