Nýr ferðavefur fyrir Íslendinga ? www.ferdalag.is

Ferðamálaráð Íslands hefur opnað nýjan ferðavef fyrir Íslendinga - www.ferdalag.is  Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, opnaði vefinn í 40 ára afmælishófi Ferðamálaráðs á dögunum en við það tækifæri var endurnýjuðum landkynningarvef Ferðamálaráðs, www.visiticeland.com  hleypt af stokkunum.

Við hönnun og smíði vefsins var haft að markmiði að safna saman á einn stað sem mestu af þeim upplýsingum sem nýst gætu Íslendingum við skipulagningu ferðalaga um eigið land. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um staðhætti og náttúrufar, skipt eftir landssvæðum og þar er komið inn á marga af áhugaverðustu staði landsins. Einnig er fjallað um akstur og umferð, útivist, göngugerðir, náttúruverndarsvæði o.fl.

Upplýsingabrunnur um ferðalög
Stærsti hluti vefsins er síðan viðamikill gagnagrunnur sem byggður hefur verið upp á vegum Ferðamálaráðs Íslands á undanförnum árum. Í honum eru nú upplýsingar um vel á annað þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land, ásamt ýmsum hagnýtum upplýsingum fyrir ferðafólk, bæði á ensku og íslensku. Má fullyrða að um er að ræða stærsta gagnagrunninn um íslenska ferðaþjónustu sem til er í dag og er hann alltaf að stækka. Í grunninum er m.a. að finna ítarlegar upplýsingar um gistingu, þ.e. hótel, gistiheimili, bændagistingu, farfuglaheimili, sumarhús, skála og tjaldsvæði. Einnig skipulagðar ferðir af öllu tagi og samgöngur, s.s. rútur, báta, flug, bílaleigur, strætisvagna og leigubíla. Þá er þar að finna upplýsingar um opnunartíma safna um allt land, lista yfir það sem er á döfinni, golfvelli, veiði, sundlaugar, reiðhjólaleigur og hestaleigur, svo nokkuð sé nefnt. Loks má nefna ýmsar fleiri hagnýtar upplýsingar, svo sem um upplýsingamiðstöðvar, ferðaskrifstofur, vegalengdir á milli staða og ýmislegt fleira. 

Við gagnagrunnin hefur síðan verið tengd öflug leitarvél sem ætti að gagnast fólki vel við að skipuleggja ferð  sína um landið. Með því að nota hana getur fólk fundið upplýsingar um þá tegund þjónustustu sem það sækist eftir, í þeim landshluta þangað sem ferðinni er heitið.

Tenging við aðra vefi
Ljóst er að einn vefur, þótt yfirgripsmikill sé, getur aldrei miðlað öllum þeim upplýsingum sem fólk sækist eftir. Því er einnig markmiðið með þessum nýja vef að hafa á einum stað tengingar við landshlutavefi með ferðaupplýsingum og aðra vefi sem gott er að hafa tiltæka þegar ferðalög um Ísland eru annars vegar.

 


Athugasemdir