Fréttir

Nýtt myndband Ferðamálaráðs vinnur til verðlauna í Bandaríkjunum

Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York, í samvinnu við Iceland Naturally, hefur látið gera nýtt kynningarmyndband um Ísland. Myndbandið, sem nefnist "Iceland: The Way Life Should Be", hefur vakið verðskuldaða athygli og hlotið viðurkenningar í fagkeppnum vestanhafs. Nýja myndbandið er hálf sjötta mínúta að lengd og er því dreift frítt til ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og annarra sem áhuga hafa á að kynna sér hvað Ísland hefur að bjóða. Meðal nýjunga er að það er gefið út í DVD-formi og er auk þess aðgengilegt á vefsíðum Ferðamálaráðs í Bandaríkjunum, og vef Iceland Naturally. Verðlaun í fagkeppnumSem fyrr segir hefur nýja myndbandið hlotið verðskuldaða athygli. Það hlaut gullverðlaun flokki ferðakynningarmyndbanda í samkeppninni "Aurora Awards 2004" en það er óháð samkeppni á sviði auglýsinga, kynningarmyndbanda o.fl. Þá hlaut það einnig viðurkenningu þegar hin árlegu "Telly Awards" voru veitt í 25. sinn á dögunum. DVD tæknin skapar nýja möguleikaEinar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs í New York, segist áætla að dreifingin muni nema tugum þúsunda eintaka næstu mánuði og Ferðamálaráð Íslands sé þannig eitt fyrsta ferðamálaráðið sem nýti DVD-tæknina fyrir kynningarverkefni af þessari stærðargráðu. "Ég tel að DVD-tæknin skapi okkur nýja möguleika á að kynna Ísland því þetta er tiltölulega ódýr leið til að koma töfrum landsins til skila með áhrifaríkum hætti. Þótt bæklingar og prentað kynningarefni standi alltaf fyrir sínu þá er mun áhrifaríkara að horfa á myndband en að skoða mynd í bæklingi af fossi eða goshver, svo dæmi sé tekið," segir Einar.  
Lesa meira

Samningur um framhald Iceland Naturally

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tilkynnti á ársfundi Iceland Naturally, sem nú stendur yfir í Washington-borg í Bandaríkjunum, þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera nýjan samning um kynningu á Íslandi vestanhafs undir merkjum Iceland Naturally. Núverandi samningur er á milli samgönguráðuneytisins og sjö íslenskra fyrirtækja, sem selja vörur og þjónustu vestanhafs. Samningurinn var til fimm ára og rennur út í lok þessa árs. Á samningstímanum hefur fimm milljónum Bandaríkjadala verið varið til umfangsmikilla kynninga á Íslandi, en þessir fjármunir koma frá þeim fyrirtækjum sem að verkefninu standa og íslenska ríkinu. Fyrirtækin eru Icelandair, Icelandic USA (Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna), SIF/Iceland Seafood Corp., Icelandic Agriculture (Bændasamtökin), Iceland Spring (Ölgerðin o.fl.), Flugstöð Leifs Eiríkssonar og 66° norður. Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York hefur stýrt verkefninu. Kynningin hefur beinst að ákveðnum hópum sem rannsóknir hafa sýnt að hafi áhuga á að vita meira um Ísland, kaupa íslenskar vörur eða ferðast til landsins. Gert er ráð fyrir að nýr samningur um Iceland Naturally verkefnið verði til fjögurra ára og taki gildi 1. janúar á næsta ári. Að sögn Bergþórs Ólasonar, aðstoðarmanns samgönguráðherra, er búist við að svipað fjármagn verði veitt til verkefnisins árlega og hingað til hefur verið gert, eða um ein milljón Bandaríkjadala.  
Lesa meira