Fara í efni

Viðamikil Íslandskynning í Frakklandi í haust ? vefsíða opnuð

Vestnorden í Kaupmannahöfn að ári liðnu
Vestnorden í Kaupmannahöfn að ári liðnu

Dagana 27. september til 10 október í haust verður efnt til mikillar íslenskrar menningarkynningar í París og víðar í Frakklandi. nefnist hún  ?Islande ? de glace & de feu? sem útleggst ?Ísland ? ís og eldur, eða jafnvel ?frost og funi? vilji menn vera skáldlegir?. Sé litið til einstakra viðburða er væntanlega um að ræða eina viðamestu kynningu á Íslandi sem farm hefur farið utan Íslands til þessa. 

Tvíþætt kynning
Kynningin er tvíþætt. Annars vegar er vísindasýning í vísindasafninu Palais de la Découverte í Grand Palais-höllinni, þar sem árangri Íslendinga á sviði eldfjallafræði, haffræði, orku og vetnis, jarðhitafræði og erfðafræði verður lýst með nýstárlegum hætti; hins vegar er efnt til viðburða á listasviðinu, í myndlist, tónlist, bókmenntum, leiklist og kvikmyndum. Á annað hundrað íslenskir listamenn koma við sögu í þessari miklu Íslandskynningu sem væntanlega verður, sem fyrr segir ein sú umfangsmesta sem haldin hefur verið utan Íslands, og vísindasýningin verður sú veglegasta sem Íslendingar hafa efnt til. Forsætisráðherra mun væntanlega opna þessa kynningu og vísindasýninguna af Íslands hálfu við hátíðlega athöfn mánudaginn 27. september í vísindasafninu.  

Ferðamálaráð Íslands hefur útbúð sérstaka vefsíðu fyrir þessa miklu kynningu. Vefsíðan hefur nú verið opnuð.

Byggt á fróðleik og hughrifum
Vísindasýningin verður byggð í senn á fróðleik og hughrifum. Íslendingar standa framarlega í þeim vísindum sem þar eru kynnt, en ekki verður þeim fróðleik haldið að gestum með hefðbundnum leiðum einum. Þannig geta gestir búist við að jörð taki að skjálfa og þeir verði vitni að jarðskjálfta eða eldgosi eða geysisgosi. Leikarar ganga um sýningarsalinn og bregða upp fróðleik með nýrri aðferð og sitt hvað annað mun koma á óvart. Í tengslum við sýninguna verður margvísleg önnur kynning sem kostunaraðiljar munu meðal annars nýta sér; þar verða og fyrirlestrar franskra og íslenskra vísindastofnana og móttökur. Hönnuður sýningarinnar er listamaðurinn Árni Páll Jóhannsson, en Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur er í forsvari fyrir hinum fræðilega þætti og Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur, framkvæmdastjóri Línuhönnunar fyrir hinum tæknilega. Iceland Review gefur út sérstakt hefti á frönsku í tilefni af sýningunni. Hún verður opin til áramóta. 

Skák og list
Opnun sýningarinnar fer fram með listrænum hætti mánudaginn 27. sept. Það sama kvöld halda þær Bryndís Halla Gylfadóttir og Edda Erlendsdóttir tónleika í Musée de l´Armée í Invalides-höllinni og leika þar m.a. verk eftir Jón Nordal og Þórð Magnússon, og þegar tveimur dögum áður er "þjófstartað" með skákmóti í öldungadeild franska þingsins (Senatinu) í Lúxemborgarhöll, þar sem fjórir íslenskir skákmenn tefla við jafnmarga félaga sína franska. Íslensku skákmennirnir verða Friðrik Ólafsson, Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson og Hannes Hlífar Stefánsson. 

Hver viðburðurinn rekur annan
Síðan rekur hver atburðurinn annan. Þriðjudaginn 28. sept. halda þeir Kristinn Sigmundsson og Jónas Ingimundarson tónleika í Chatelet-tónleikahöllinni. Þeir flytja íslensk lög og lög eftir Schumann. Kristinn er vel þekktur í París, enda sá erlendur söngvari sem flest aðalhlutverk hefur sungið í Parísaróperunni undanfarin fimm ár. Kvöldið eftir verður á ferðinni Hrafnagaldur Óðins með SigurRós, Hilmari Erni Hilmarssyni, Steindóri Andersen, Páli Guðmundssyni og fleiri flytjendum undir stjórn Árna Harðarsonar; þeir tónleikar verða í tónlistarhúsinu í Villette, þar sem er ein helsta menningamiðstöð Parísar og liður í hátíð sem nefnist Rafræn Villette. Hrafnagaldur kom fyrst fram á Listahátíð í Reykjavík. Sama kvöld hefst íslensk kvikmyndavika í einu af þekktari kvikmyndahúsum Parísarborgar þar sem kynntar verða gamlar og nýjar íslenskar kvikmyndir. Opnunarmyndin hefur ekki verið ákveðin enn. 

Poppmúsíkin í algleymingi
Næstu tvö kvöld er poppmúsíkin í algleymingi. Í Centre Pompidou - listamiðstöðinni frægu, verða fyrra kvöldið tónleikar með Jóhanni Jóhannssyni, Múgisson og Múm og síðara kvöldið Bang Gang, Hudson Wayne, og Gabriela Friðriksdóttir með gjörning. Hinn 7. og 8. okt verður svo framhald á þegar orgelkvartettinn Apparat, Einar Örn og Trabant bætast í hópinn í Centre de la Danse. Í Centre Pompidou fara líka fram tónleikar einnar frægustu hljómsveitar Evrópu, Ensemble Intercontemporain, sem flytur m.a. verk eftir Hauk Tómasson, Finn Torfa Stefánsson og Kjartan Ólafsson. Þeir tónleikar eru sunnudaginn 3. okt. 

Myndlistarsýning í Mekka alþjóðlegra myndlistarmanna
Laugardaginn 2. október verður opnuð í Sérignan í Suður-Frakklandi mikil íslensk myndlistarsýning, en bærinn Sérignan er orðinn þekktur sem eins konar Mekka alþjóðlegra myndlistarmanna. Þarna verða sýnd verk eftir Birgi Andrésson, Gabríelu Friðriksdóttur, Georg Guðna, Helga Þorgils Friðjónsson, Guðrúnu Einarsdóttur, Ólaf Elíasson, Ólöfu Nordal, Rögnu St. Ingadóttur og Steingrím Eyfjörð. Þann sama dag lýkur í París sýningu Rúríar á verkinu sem hún sýndi á Feneyja-tvíæringnum og mikla athygli vakti, en sýning hennar er einnig liður í menningarkynningunni. Sama dag verður einnig málþing og sýning í La Rochelle. Þar flytur Torfi Túliníus prófessor erindi um tengsl íslenskra og franskra miðaldabókmennta og Pétur Gunnarsson rithöfundur um áhrif fornbókmenntanna á íslenskar nútímabókmenntir. Síðan sitja þeir fyrir svörum, en um leið verður opnuð sýning Árnastofnunar á lýsingum í íslenskum handritum. Þennan laugardag er menningarnótt Parísarborgar, sem nefnist Nuit Blanche, og er gert ráð fyrir íslenskum atriðum þar, en þau hafa ekki endanlega verið ákveðin. 

Bókmenntir í húsi skáldanna
Á mánudaginn er röðin komin að bókmenntum. Í Húsi skáldanna (Maison des Écrivains) verður málþing um íslenskar bókmenntir þar sem Thor Vilhjálmsson, Pétur Gunnarsson, Sigurður Pálsson og Steinunn Sigurðardóttir verða meðal þátttakenda, en umræðum stýrir prófesssor Régis Boyer. Kvöldið eftir kemur út og verður kynnt sýnisbók íslenskra nútímabókmennta sem Friðrik Rafnsson ritstýrir, og hann og Lakis Proguides stýra síðan hringborðsumræðum með þátttöku Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Hrafnhildar Hagalín Guðmundsdóttur, Péturs Gunnarssonar, Sigurðar Pálssonar og Steinunnar Sigurðardóttur. Sýnisbókin birtist í ritröðinni L´Internationale de l´imaginaire sem gefin er út af Menningarhúsi þjóðanna (Maison des cultures du monde) og fara umræðurnar fram þar. Á mánudag verður einnig opnuð sýning á ljósmyndum sem Frakkar tóku upp úr miðri nítjándu öld á Íslandi og eru meðal elstu ljósmynda sem varðveist hafa frá Íslandi. Koma sumar þær myndir úr Bibliothèque Nationale í París en aðrar frá Þjóðminjasafninu. Sýningin er á vegum Musée de Bretagne í Rennes, en franskir Bretagne-sjómenn höfðu sem kunnugt er mikil skipti við Íslendinga á nítjándu öld og byrjun hinnar tuttugustu. Umsjón með þessari sýningu hefur Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur. Að kvöldi þriðjudagsins 5. okt. heldur Hörður Áskelsson orgeltónleika í Invalides-kirkjunni og flytur þar m.a. verk eftir Pál Ísólfsson, Þorkel Sigurbjörnsson, John Speight og Jón Nordal. 

Erindi um hið forna þjóðþing Íslendinga
Miðvikudaginn 6. október heldur Tómas Ingi Oltrich fyrrverandi menntamálaráðherra og verðandi sendiherra í Frakklandi erindi um hið forna þjóðþing Íslendinga á Þingvöllum, í boði öldungadeildar franska þingsins ( Senatsins). Miðvikudagur 6. október er einnig dagur leiklistarinnar og þá sýnt verk fyrir börn á öllum aldri, Völuspá eftir Þórarin Eldjárn í flutningi Möguleikhússins. Þessi sýning sem kom fyrst fram á leiklistarhátíð barna á Listahátíð 2000, hefur verið sýnd víða umheim og hlaut verðlaun sem besta barnasýning við val Grímunnar sl. vor. Hinn 7. okt. er svo athyglinni beint að sýningum á ljósmyndum frá Íslandi í tveimur salarkynnum FNAC-fyrirtækisins í París, en FNAC er stærsta keðja bóka-og geisladiskasölu í Frakklandi 

Íslensk tónlist, myndbandalist og ljósmyndir
Síðustu dagarnir þrír verða svo helgaðir íslenskri tónlist og íslenskri myndbandalist og ljósmyndum. Föstudaginn 8. október heldur Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar tónleika í St. Sulpice-kirkjunni í París og verður þar meðal annars flutt tónverkið Óttusöngvar á vori eftir Jón Nordal og verk eftir ýmis önnur íslensk tónskáld.Einsöngvarar eru Sigrún Hjálmtýsdóttir og Sverrir Guðjónsson, en organleikari Björn Steinar Sólbergsson og óbóleikari Daði Kolbeinsson. Scola Cantorum heldur svo aðra tónleika kvöldið eftir og í þetta sinn sem lið í hátíð sem nefnist Festival Ile de France og breiðir sig út um nágrannabyggðir Parísar. Þeir tónleikar verða í bænum Favières. Þarna verður breytt efnisskrá og auk íslenskra verka flutt tónverk eftir Arvo Pärt. Laugardaginn 9. og sunnudaginn 10. okt verður svo í gangi sýning á íslenskri myndbandalist og ljósmyndum í Maison Européenne de la Photographie. Umsjón með myndbandasýningunni er í höndum Ásdísar Ólafsdóttur, en þar verða mynd eftir frumkvöðla í myndbandalistinni, Steinu Vasulku og Magnús Pálsson, en einnig eftir Bjargeyju Ólafsdóttur og fleiri íslenska listamenn. Einar Falur Ingólfsson blaðamaður og ljósmyndasérfræðingur hefur umsjón með ljósmyndasýningunni, en verk íslenskra ljósmyndara hafa einmitt vakið athygli í Frakklandi á undanförnum árum. 

Lokatónleikar
Lokatónleikar þessarar miklu Íslandskynningar verða svo í Mogador-tónleikahöllinni þar sem Kammersveit Reykjavíkur flytur verk eftir sex íslensk tónskáld, Atla Heimi Sveinsson, Jón Leifs, Jón Nordal, Leif Þórarinsson, Pál P. Pálsson og Þorkel Sigurbjörnsson. Einsöngvarar verða Rannveig Fríða Bragadóttir, Gunnar Guðbjörnsson og Bergþór Pálsson, en einleikari Anna Guðný Guðmundsdóttir. Stjórnandi verður Bernharður Wilkinsson.

Fyrirtæki tala höndum saman
Nokkur forystufyrirtæki í íslensku atvinnulífi taka hér höndum saman við íslenska listamenn og vísindasamfélagið til að gera þessa kynningu sem veglegasta úr garði. Kostunaraðilar eru Samorka, Reykjavíkurborg, KB-banki, Landsbanki Íslands, Íslensk erfðagreining, Eimskipafélag Íslands, Íslandsbanki/Sjóvá Almennar, Alcan, Síminn Icelandic France S. A. - S. H., Samskip, SÍF, Bláa lónið og Flugleiðir/Icelandair. Ferðamálaráð hefur síðan sem fyrr segir sett upp heimasíðu fyrir menningarkynninguna.

Á sér nokkurn aðdraganda
Hugmyndin að efna til slíkrar kynningar var þegar komin fram fyrir síðustu aldamót og fæddist í hópi íslenskra listamanna í París, en var innsigluð á fundum menntamálaráðherra Frakklands og Íslands í París árin 1999 og 2001, á fundi utanríkisráðherra landanna í Reykjavík haustið 2000, og endanlega ákveðin á fundi Frakklandsforseta og forsætisráðherra Íslands 9. apríl 2001. Til kynningarinnar er efnt á grundvelli menningarsáttmála þjóðanna sem undirritaður var 1984 í tengslum við opinbera heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands. Vorið 2001 voru síðan útnefndir tveir verkefnisstjórar sem velta skyldu upp hugmyndum og bera höfuðábyrgð á að fylgja þeim eftir, Chérif Khaznadar, forstjóri Menningarhúss þjóðanna í París, af hálfu Frakka, og Sveinn Einarsson, menningarráðunautur Menntamálaráðuneytisins, af Íslands hálfu. Það er einkum á herðum menningar- og utanríkismálaráðuneyta landanna að hrinda kynningunni í framkvæmd og því hefur málið einnig komið mjög til kasta Sigríðar Snævarr sendiherra í París og starfsmanna sendiráðuneytisins, en kostunarmál hafa verið í hendi Sigríðar; jafnframt hefur verið starfandi vinnuhópur í menntamálaráðuneytinu sem hefur undirbúð dagskrána . Sömuleiðis hefur starfað samráðsnefnd sem í hafa átt sæti ráðuneytisstjórar forsætis- utanríkis -, samgöngu- og menntamálaráðuneytis, undir forystu hins síðastnefnda, Guðmundar Árnasonar. Grunnhugmynd að samkomulagi þjóðanna um þessa kynningu er á þá leið, að frönsk menningafyrirtæki taki "í fóstur" hina íslensku vísinda- og listviðburði og geri þá þannig þátt í starfsemi sinni; þannig hafa Frakkar lokaorð um val á þeim viðburðum sem Íslendingar buðu upp á.