Fara í efni

Áframhaldandi aukning í desember

Niðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs desembermánuður sl. skilaði, líkt og aðrir mánuðir ársins, fleiri erlendum ferðamönnum en árið á undan. Í desember nú fóru 11.139 erlendir ferðamenn um Leifsstöð, samanborið við 10.592 árið 2002. Fjölgunin á milli ára nemur rúmum 5%.

Sé litið til stærstu markaða okkar þá er fjölgun frá Bretlandi, N.-Ameríku og meginlandi Evrópu. Einnig fjölgar ferðamönnum frá Danmörku en fækkun er frá hinum Norðurlöndunum.

Rúmlega 13% fjölgun á samanburðartímabilinu
Talningar Ferðamálaráðs hafa staðið yfir frá því í febrúar 2002 og því liggja nú fyrir samanburðarhæfar niðurstöður fyrir tímabilið mars til desember fyrir árin 2002 og 2003. Sé þetta tímabil borið saman á milli ára kemur í ljós að erlendir ferðamenn á nýliðnu ári eru 13,4% fleiri en í fyrra. Er aukning frá öllum löndum sem mæld eru sérstaklega og nemur samtals rúmlega 33 þúsund gestum. Af einstökum löndum komu flestir ferðamenn frá Bretlandi á nýliðnu ári, 52.800 talsins, frá Bandaríkjunum komu 45.000 og frá Þýskalandi komu 36.700. Norðurlöndin eru hins vegar stærsta markaðssvæðið en þaðan komu samanlagt um 80.500 gestir á nýliðnu ári. Við þessar tölur á eftir að bæta farþegum Norrænu og þeim sem fóru um aðra millilandaflugvelli en Keflavík.

Heildarniðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs má nálgast með því að opna meðfylgjandi Excel-skjal.