Fara í efni

Síldarminjasafnið valið í úrval evrópskra safna

sildarbatur
sildarbatur

Síldarminjasafnið á Siglufirði hefur verið valið í úrval evrópskra safna sem keppa til Evrópsku safnverðlaunanna í ár. Mun Safnaráð Evrópu veita verðlaunin á úrslitakvöldi í Aþenu í byrjun maí nk.

Í frétt á mbl.is segir Örlygur Kristfinnsson safnstjóri að þetta sé í fyrsta skipti sem íslenskt safn sé tilnefnt til þessara verðlauna og gleðilegt að Síldarminjasafnið hafi komist áfram í lokaáfangann. Það verður fulltrúi íslenskra safna í hópi um 40 safna sem komust áfram í keppninni. Ekki er enn búið að gefa upp hvaða söfn það eru. "Með því að ná þessu marki kemst Síldarminjasafnið í sérstaka kynningarbók sem European Museum Forum gefur út á hverju ári um þessi söfn sem komast í þessi úrslit. Það þýðir allgóða kynningu fyrir safnið," segir Örlygur í viðtali við mbl.is. Þar kemur jafnframt fram að síðasta sumar kom formaður dómnefndar, sem sker úr um hvaða söfn eru valin í þessa úrslitakeppni, hingað til lands og skoðaði safnið á Siglufirði.