Fara í efni

Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í Kaupmannahöfn opnuð

Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í Kaupmannahöfn var opnuð formlega í liðinni viku. Skrifstofan er þriðja markaðsskrifstofa Ferðamálaráðs á erlendri grund og mun hún þjóna Norðurlandamarkaði, þ.e. Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku

Eigum mikið inni á markaðinum
Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, segir opnun markaðsskrifstofu fyrir Norðurlöndin vera tímabært skef. ?Norðurlöndin eru eitt stærsta og mikilvægasta markaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu og þaðan komu yfir 80.000 gestir á síðasta ári. Þá eykur það á mikilvægi þessa markaðar hversu stór hluti gesta þaðan kemur utan háannatíma, auk þess sem talsverður hluti kemur í viðskiptaerindum,? segir Ársæll.

Hann bætir við að flestir Norðurlandabúar eigi þá ósk að koma til Íslands einhverntímann á ævinni. ?Við þurfum að gefa þeim ástæðu til að láta óskina rætast og þá mun þessi markaður vaxa svo um munar,? segir Ársæll.

Ein milljón gesta frá Norðurlöndum
Margir góðir gestir voru viðstaddir opnunina, m.a. samgönguráðherra og fulltrúar í Ferðamálaráði Íslands. Fulltrúar ferðaskrifstofa og flugfélaga á Norðurlandamarkaði fjölmenntu í opnunina, þeirra á meðal Icelandair og Iceland Express. Magnús Oddsson ferðamálastjóri bauð gesti velkomna og lýsti mikilvægi hinnar nýju skrifstofu og markaðsstarfinu á Norðurlöndum. ?Frá stofnun Ferðamálaráðs, sem á 40 ára afmæli í ár, höfum við tekið á móti yfir einni milljón gesta frá Norðurlöndum og við viljum og ætlum okkur meira,? sagði Magnús meðal annars.

 Þriðja markaðsskrifstofan
Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs gerði stuttlega grein fyrir hlutverki og vinnutilhögun skrifstofunnar. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti nýjum forstöðumanni skrifstofunnar; Lisbeth Jensen, lyklana að skrifstofunni og sagði m.a. að mikilvægt væri að halda áfram öflugu markaðsstarfi á erlendum mörkuðum á vegum Ferðamálaráðs. Með opnun skrifstofunnar í Kaupmannahöfn eru markaðsskrifstofur Ferðamálaráðs Íslands á erlendri grundu orðnar þrjár. Fyrir voru skrifstofur í Frankfurt í Þýskalandi, sem sinnir Mið-Evrópu, og í New York, sem sinnir Norður-Ameríkumarkaði. Auk þeirra er fjórða markaðssvæðinu, Bretlandi, sinnt frá Íslandi.

 Samstarf við Grænland og Færeyjar
Eins og áður hefur komið fram er skrifstofa Ferðamálaráðs til húsa í Norðurbryggju, sameiginlegu menningarsetri Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga. Ferðamálaráð Færeyja og Grænlands eru einnig með skrifstofur í húsinu. Þá hafa löndin þrjú stofnað sameiginlegt fyrirtæki til að sinna upplýsingagjöf, dreifingu á bæklingum og fleiru sem hagkvæmt er talið. Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn hefur þegar flutt í Norðurbryggju, ásamt sendiskrifstofum Færeyinga og Grænlendinga. Þar verða einnig með aðstöðu ýmsar stofnanir, fyrirtæki og menningarstarfsemi sem tengist löndunum þremur.

Skoða myndir frá opnuninni