Fréttir

Ráðist í kynningarherferð fyrir VAKANN

Í vikunni skrifuðu Ferðamálastofa og H:N Markaðssamskipti undir samstarfssamning vegna VAKANS, en framundan er kynningarherferð á VAKANUM fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki og innlenda ferðamenn. Jafnframt er unnið að því að leggja drög að kynningu á VAKANUM fyrir erlendan markað, en sú kynning hefst formlega á Vestnorden í byrjun október. Töluverðar væntingar eru til þessa samstarfs, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenska ferðaþjónustu að fyrirtækin sameinist um að auka gæði, öryggi og umhverfisvitund og gerist þátttakendur í nýja gæða- og umhverfiskerfinu. Nánar á www.vakinn.is
Lesa meira

Þjónustunámskeið - Leiðin að hjarta gestsins

Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðaþjónusta bænda og Gerum betur munu standa fyrir lifandi og skemmtilegum námskeiðum fyrir stjórnendur og starfsmenn í fyrirtækjum innan samtakanna og hjá FB í Reykjavík þann 24. maí og síðar um land allt eins og gert var á síðastliðnu ári. Margrét Reynisdóttir mun fara yfir raddbeitingu og líkamstjáningu, hrós, samskipti við erfiða viðskiptavini, símaþjónustu, tölvupóst og menningarheima. Örn Arnarson leikari sýnir, með eftirminnilegum hætti, hvernig starfsmenn og stjórnendur geta haft áhrif á ánægju gesta með því að velja sér rétt hlutverk. Markmið námskeiðanna er að fá skýrari sýn á hvernig hægt er að veita þjónustu umfram væntingar, meðhöndla erfiða viðskiptavini og þjóna sem best gestum frá mismunandi menningarheimum. Dagur: 24.maí, kl 8.30 -12.30 Staður: Center hótel, Aðalstræti Skráninga á: gerumbetur@gerumbetur.is eða á info@saf.is Verð: kr. 14.900 Nánari upplýsingar á vef SAF
Lesa meira

Grettistak í kynningarmálum innlendrar ferðaþjónustu

Í dag var undirritað samkomulag um sameiginlegt markaðsátak sem hvetja á Íslendinga til ferðalaga innanlands. Aðilar að samkomulaginu eru Ferðamálastofa, markaðsstofur allra landshluta og Ferðaþjónusta bænda. Verkefninu er ætlað að skila mun betri nýtingu fjármuna og markvissari markaðssetningu öllum aðilum í ferðaþjónustu til heilla. „Íslendingar ættu hiklaust að leyfa sér að vera ferðamenn á Íslandi og greiða fyrir þjónustu og afþreyingu, fá leiðsögn um okkar einstæðu náttúru- og menningarminjar, panta gistingu og kaupa góðan mat,“ sagði Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, í kjölfar undirritunarinnar. Ólöf bætti því við að Ísland sé kraumandi af spennandi ævintýrum fyrir alla fjölskylduna. „Hér heima er hægt að upplifa svo margt sem er alveg einstakt á heimsvísu.“ Átakið mun standa næstu þrjú árin og í sumar verður nýtt vefsvæði undir formerkjum herferðarinnar opnað. Nánari upplýsingar veitir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, olof@ferdamalastofa.is Sími: 695 2039 Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun í morgun. Efri röð frá vinstri: Davíð Samúelsson, Markaðsstofu Suðurlands; Kristján Pálsson, Markaðsstofu Suðurnesja; Rósa Björk Halldórsdóttir, Markaðsstofu Vesturlands; Ásbjörn Björgvinsson, Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi og Gústaf Gústafsson, Markaðsstofu Vestfjarða. Neðri röð frá vinstri: Dóra Magnúsdóttir, Höfuðborgarstofu; Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Sigrún Lóa Kristjánsdóttir, Austurbrú (Markaðsstofu Austurlands) og María Reynisdóttir, Ferðaþjónustu bænda.
Lesa meira

Námskeið fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva

Ferðamálastofa og upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík gangast fyrir námskeiði fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva þriðjudaginn 5 júní. Að þessu sinni verður námskeiðið haldið Í Hörpu, rými B og hefst það kl. 12:45. Ferðamálastofa hefur haldið námskeið sem þetta fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva allt frá árinu 1993.  Ferðakostnaður greiddurTil að jafna kostnað á milli upplýsingamiðstöðva mun Ferðamálstofa greiða fyrir ferðakostnað þátttakanda sem koma lengra að, flug eða eldsneytiskostnað. Senda skal upplýsingar á elias@ferdamalastofa.is um hvaða flug á að skrá ykkur í eða hafa samband við Elías í síma 535 5510, annar kostnaður verður greiddur af viðkomandi upplýsingamiðstöð.  Dagskráin hefst kl.12:45 þriðjudaginn 5. júní og lýkur kl. 16:00 þannig að flestir sem koma og fara með flugi geta farið fram og til baka samdægurs. SkráningÞátttaka tilkynnist í síðasta lagi kl. 12:00 þann 4. júní. Skráning fer fram hér á vefnum. Dagskrá: Dags:     Þriðjudaginn 5.  júní Staður:   Harpa, rými BTími:      12.45 - 16.15 12:45 – 13:00  Skráning þátttakenda og afhending gagna 13:00 – 13:10  Mikilvægi upplýsingamiðstöðva og gæða                      Elías Bj Gíslason,  forstöðumaður Akureyri, Ferðamálastofa        13:10 – 13:40  Daglegt starf á upplýsingamiðstöð                      Drífa Magnúsdóttir, verkefnastjóri upplýsingamiðstöð Reykjavíkur 13:40 – 14.00  Handbók og gagnagrunnur Ferðamálastofu                      Halldór Arinbjarnarson, upplýsingastjóri Ferðamálastofu 14:00 – 14:45  Öryggi ferðamanna á Íslandi og vefurinn www.safetravel.is                      Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri Landsbjargar 14:45 – 15:00  Kaffi / te 15:00 – 15:50  Ólíkir menningarheimar, þjónusta og samskipti                      Áslaug Briem, Ferðamálastofu 15:50   Samantekt og námskeiðslok. Þátttaka tilkynnist fyrir kl. 12:00 þann 4. júní. Skráning fer fram hér á vefnum.
Lesa meira

Ferðaþjónusta bænda kynnir bæ mánaðarins

Ferðaþjónusta bænda kynnir til sögunnar bæ mánaðarins. Einn fyrirmyndar ferðaþjónustubær er valinn og kynntur í hverjum mánuði. Fyrsti bær mánaðarins, bær maí mánaðar er Hótel Rauðaskriða í Aðaldal. Bær mánaðarins gengur þannig fyrir sig að í byrjun hvers mánaðar er valinn einn ferðaþjónustubær innan vébanda Ferðaþjónustu bænda sem hefur staðið sig sérstaklega vel á sviði gæða - og umhverfismála, vöruþróunar og í þjónustu við viðskiptavini. Þá er einkum horft til sérstöðu staðarins og nýbreytni á sviði þjónustu og afþreyingar. Val á bæ mánaðarins byggist á umsögnum gesta og mati starfsfólks skrifstofu Ferðaþjónustu bænda. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á því góða starfi sem fram fer hjá ferðaþjónustubændum um allt land. Víða er mikill metnaður lagður í að byggja upp ferðaþjónustu með áherslu á upplifun í mat og afþreyingu auk fjölbreyttrar gistingar í sveitum landsins. Bær maí mánaðar – Hótel RauðaskriðaFyrsti bær mánaðarins, í maí er Hótel Rauðaskriða í Aðaldal. Hótel Rauðaskriða er Svansvottað sveitahótel staðsett í fögru og friðsælu umhverfi, 28 km. frá Húsavík. Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptavinum og mati starfsfólks Ferðaþjónustu bænda veitir hótelið fyrirtaks þjónustu, segir í frétt frá Ferðaþjónustu bænda. Í gegnum árin hafa gestgjafar sýnt mikinn metnað í að halda gististaðnum og umhverfi hans hreinu og snyrtilegu auk þess sem allur aðbúnaður er til fyrirmyndar. Hótel Rauðaskriða er Svansvottað en Svanurinn er hið opinbera norræna umhverfismerki. Ströngum umhverfisstöðlum er fylgt á hótelinu sem undirstrikar metnað gestgjafa á sviði gæða - og umhverfismála. Á Hótel Rauðaskriðu og í nágrenni þess er í boði fjölbreytt afþreying. Mikil vinna hefur verið lögð í að kortleggja göngu – og hjólaleiðir í nágrenninu og geta gestir fengið hjól að láni hjá hótelinu. Fuglalíf á svæðinu er fjölbreytt og nýlega hafa rekstraraðilar Hótel Rauðaskriðu útbúið fuglaskoðunarferð ætlaða erlendum ferðamönnum, í samstarfi við aðra ferðaþjónustuaðila á Norðausturlandi. http://www.sveit.is/baeir/baer_manadarins (Nánar um bæ mánaðarins)
Lesa meira

Fundur fyrir þátttakendur Ísland - allt árið

Miðvikudaginn 16. maí verður haldinn fundur fyrir þátttakendur í markaðsverkefninu Ísland – allt árið á Grand hótel, frá kl. 13:00 – 15:00. Markmið fundarins er að fara yfir hvað hefur verið gert í vetur, áhrif verkefnisins og hvað er framundan. Dagskrá: OpnunEinar Karl Haraldsson, formaður stjórnar Ísland - allt árið Ísland - allt árið; Yfirferð yfir áriðInga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður, og Guðrún Birna Jörgensen, verkefnisstjóri, Íslandsstofa Viðhorf til Íslands sem áfangastaðarGuðrún Birna Jörgensen, verkefnisstjóri, Íslandsstofa Aukin verslun ferðamannaHelgi Jónsson, framkvæmdastjóri, Global Blue Iceland Aukin verslun ferðamannaValur Fannar Gíslason, sölustjóri, Tax Free Worldwide Erlendir ferðamenn og fjölgun þeirraÓlöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, Ferðamálastofa Hvað er framundan?Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður markaðssóknar, Íslandsstofa Fundarstjóri: Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Vinsamlegast skráið þátttöku með því að senda tölvupóst á netfangið: islandsstofa@islandsstofa.is fyrir þriðjudaginn 15. maí.  Miðað er við 1-2 fulltrúa frá hverjum samstarfsaðila. Nánari upplýsingar um fundinn veitir Guðrún Birna Jörgensen, verkefnisstjóri, gudrunbirna@islandsstofa.is.  
Lesa meira

Nýr framkvæmdastjóri ETC

Eduardo Santander hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Evrópska ferðamálaráðsins (European Travel Commission - ETC). Eduardo er spænskur að uppruna en menntaður bæði á Spáni og í Austurríki og þar hefur hann lengst af starfað. Hann hefur víðtæka reynslu af alþjóðlegri markaðssetnignu í ferðaþjónustu og hefur haldið fyrirlestra víða um heim. Ferðamálastofa hefur í áratugi verið aðili að Ferðamálaráði Evrópu fyrir Íslands hönd. Innan þessara rúmlega 50 ára gömlu samtaka eru nú 39 ferðamálaráð jafnmargra þjóða. Starfsemi ETC felst m.a. í markaðssókn á fjærmörkuðum, söfnun og útgáfu tölulegra upplýsinga o.fl. Vefur European Travel Commission
Lesa meira

Hjálpar- og fylgigögn VAKANS opin öllum

Í kjölfar fjölda áskorana hefur verið tekin ákvörðun um að vista hjálpar- og fylgigögn VAKANS á ytra vef VAKANS og hafa þau því öllum opin. Ferðaþjónustuaðilar eru eindregið hvattir til að nýta hjálpargögnin í þeim tilgangi að auka enn frekar gæði, öryggi og umhverfisvitund í fyrirtækjum sínum og vonast Ferðamálastofa til að sjá umsókn frá fyrirtækjunum í kjölfarið.  Minnt er á að sá hluti VAKANS sem snýr að gistingu verður opnaður í byrjun árs 2013 en tekið er á móti umsóknum frá fyrirtækjum sem bjóða upp á alla aðra þjónustu við ferðamenn. Saman eflum við gæði og öryggi í íslenskri ferðaþjónustu til framtíðar! Vefur VAKANS: www.vakinn.is
Lesa meira

Málþing um sjálfbæra ferðamennsku og náttúruvernd á háhitasvæðum

Landvernd efnir til málþings um sjálfbæra ferðamennsku og náttúruvernd á háhitasvæðum, mánudaginn 21. maí næstkomandi í Nauthóli við Nauthólsvík kl. 13:00-16:15. Allir velkomnir!  Sjálfbær ferðamennska og náttúruvernd á háhitasvæðum er tveggja ára verkefni sem Landvernd hleypti af stokkunum í upphafi árs 2012. Verkefnið er hugsað sem fyrsti hluti af langtímaverkefni um verndun jarðhita á Íslandi. Dagskrá málþings (PDF) Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson / arctic-images.com
Lesa meira

Gistinætur heilsárshótela í mars

Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í mars síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Gistinóttum á hótelum í mars fjölgaði um 38%Gistinætur á hótelum í mars voru 134.000 samanborið við 97.300 í mars 2011. Gistinætur erlendra gesta voru um 77% af heildarfjölda gistinátta í mars en gistinóttum þeirra fjölgaði um 45% samanborið við mars 2011. Á sama tíma fjölgaði gistinóttum Íslendinga um ríflega 17%. Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum, á höfuðborgarsvæðinu voru ríflega 104.300 gistinætur í mars sem er fjölgun um tæp 40% frá fyrra ári. Gistinætur á Suðurlandi voru 13.100 og fjölgaði um 42%. Á Norðurlandi voru tæplega 6.400 gistinætur á hótelum í mars sem er um 25% aukning samanborið við mars 2011. Gistinætur á Suðurnesjum voru um 5.100 sem jafngildir ríflega 15% aukningu frá fyrra ári. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru gistinætur á hótelum 3.100 í mars og fjölgaði um 61%. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 5%, voru 2.050 samanborið við 1.950 í mars 2011.
Lesa meira